A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

2 Guns | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: 2 Guns (2013)

16. ágúst '13 12:26 2 Guns

„Balti fær að sprengja byggingar, rústa bílum og láta þyrlur hrapa. Lokaniðurstaðan er því ósvikinn „böddí“ mynd, fín skemmtun og stórgóð afþreying sem sker sig úr hópi yfirþyrmandi og útblásinna sumarmynda þessa árs.“

Ekki þarf að hafa mörg orð hér um hversu mögnuðum árangri Baltasar Kormákur hefur náð sem kvikmyndaleikstjóri og menn komast ekki þangað sem hann er kominn án innistæðu. Ferill hans í kvikmyndum sýnir svo ekki verður um villst að þar fer maður sem gerir myndir sínar af miklum krafti og ástríðu. Og Baltasar er fagmaður fram í fingurgóma og skilar verkum sínum alltaf með sóma, fallegri áferð. Allir boltar og skrúfur vandlega föst á sínum stöðum.

Spennumyndin 2 Guns ber vandvirkni og fagmennsku Baltasars gott vitni enda hafa áhorfendur og gagnrýnendur í Bandaríkjunum kveðið upp sinn dóm sem er það jákvæður að engum blöðum er um það að fletta að 2 Guns er enn ein varðan á sigurgöngu Balta í Hollywood. Framundan er greiður og spennandi vegur.

Þær myndir sem Baltasar hefur gert hér heima myndu sennilega flokkast sem „listrænar“ í Hollywoodinu þótt þær hafi laðað Íslendinga í tugum þúsunda í bíó. Þessar myndir bera sterkari höfundareinkenni Baltasars en spennumyndirnar Contraband og 2 Guns enda hefur hann skrifað eða verið með puttana í handritum íslensku myndanna og þannig gefið enn meira af sjálfum sér í þær. Í 2 Guns er Baltasar fyrst og fremst vandvirki fagmaðurinn og sem slíkur reynir hann ekki að láta 2 Guns líta út fyrir að vera neitt annað en það sem hún nákvæmlega er, klassísk spennumynd að hætti Hollywood.

Söguþráður 2 Guns er frekar flókinn og snúinn. Þeir Denzel Washington og Mark Wahlberg leika tvo vægast sagt ólíka menn sem báðir sigla undir fölsku flaggi í fíkniefnaheiminum við landamæri Mexíkó. Bobby (Washington) er á vegum fíknó en Stig (Whalberg) er útsendari leyniþjónustu flotans. Leiðir þessara manna liggja saman án þess að annar viti af því að hinn sé einnig fulltrúi yfirvalda.

Sameiginlegt takmark beggja er að gera fíkniefnabaróni, sem sá gamli harðjaxl Edward James Olmos leikur, skráveifu. Þeir ræna, í þeim tilgangi, saman banka og ætla sér að hafa þannig þrjár milljónir dollara af skúrkinum. Bankinn er hins vegar svo smekkfullur af seðlum að þeir stinga af með 43 milljónir sem réttir eigendur ætla sér að endurheimta hvað sem það kostar. Um framhaldið er best að hafa sem fæst orð en í þeim hildarleik er enginn annars bróðir. Allir svíkja alla og ekkert er það sem sýnist þannig að þótt þeim sé meinilla við það neyðast Stig og Bobby til þess að snúa bökum saman eigi þeir að komast frá þessu lifandi og með óflekkað mannorð.

2 Guns er dæmigerð „böddí“ mynd, skemmtilegt bergmál af slíkum myndum sem áttu sitt blómaskeið á níunda áratugnum og frameftir þeim tíunda. Washington og Wahlberg eru álíka trompuð tvenna og til dæmis Eddie Murphy og Nick Nolte í 48. Hrs og Mel Gibson og Danny Glover í Lethal Weapon og vekja hjá manni notalega nostalgíu. Enda ekki leiðum að líkjast.

Baltasar hefur glettilega góð tök á öllum þeim lausu þráðum sem fléttast saman og á einhverjum tímapunkti er maður orðinn svo ringlaður að maður sér ekki alveg fyrir sér hvernig hann ætlar að láta þetta ganga upp. Okkar manni tekst það þó með sóma og klárar dæmið í hressilegu lokauppgjöri og smekklega útfærðri byssukúlnahríð.

Grín og hasar vega salt í 2 Guns og heldur hallar á spennuna framan af en á meðan halda aðalleikararnir tveir góðum dampi með skemmtilegum samleik og Wahlberg nýtur sín vel, fullkomlega áreynslulaust, í hlutverki orðheppna vélbyssukjaftsins sem stuðar félaga sinn jafnvel enn meira en andstæðingana.

Denzel Washington hefur undanfarin ár verið nokkuð þjakaður af De Niro-heilkenninu og hefur fyrst og fremst verið að leika sjálfan sig og er orðinn frekar þreytandi sem slíkur. Hér sýnir hann á sér nýja og ferska hlið, er svalur að vanda en óvenju léttleikandi. Erfitt er að segja til um hversu mikinn þátt Balti á í þessu en stórbokkar eins og Washington eru þekktir fyrir að fara eigin leiðir og láta illa af stjórn. Baltasar hefur sagt frá því í viðtölum að hann hafi þurft að nálgast Washington eins og erfiðan gæðing og hann hafi verið tregur í taumi en hvað sem því líður getur Balti státað af því að vera leikstjóri myndar þar sem Washington er eitthvað annað en bara Washington. Sannkallað fagnaðarefni.

Baltasar hefur firnasterkan hóp leikara á sínum snærum. Washington og Wahlberg eru skotheldir í aðalhlutverkunum en aukaleikararnir gefa þeim ekki mikið eftir. Bill Baxton er frábær í hlutverki fulltrúa þeirra sem vilja fá milljónatugina sína aftur. Sérlega (ó)geðslegt og flárátt illmenni. Gamli Miami Vice-lögguforinginn Edward James Olmos stígur hvergi feilspor sem kókaínbaróninn í Mexíkó og dansar á mörkum þess að vera hlægilegur og banvænn.

Aðrir aukaleikarar standa sig með prýði og styrkja heildarmyndina. Paula Patton er eini veiki hlekkurinn í leikhópnum. Hún er vissulega gullfalleg og þokkafull. Það verður ekki af henni tekið en hún fær lítið annað að gera en að vera einmitt sæt og sexí og spóka sig aðeins á brjóstunum. Hún er ekkert sérstök leikkona og með illum vilja mætti segja að hún sé þarna sem gluggaskraut.

Síðan verður ekki hjá því komist að nefna Lilju Pálmadóttur, eiginkonu Baltasars, sem bregður fyrir í nokkrar sekúndur. Lilja tekur sig gríðarlega vel út á stóra tjaldinu og maður hefur á tilfinningunni að í henni leynist óuppgötvuð stjarna. Eitthvað sem leikstjórinn ætti að hafa bak við eyrað í framtíðinni.

Baltasar er í góðum málum í 2 Guns, með sæmilega mikið fé milli handanna og frábæra leikara á sínum snærum. Myndin ber sjálfsöryggi hans glöggt vitni. Hann er ekkert að flýta sér og leyfir sögunni að vinda upp á sig í rólegheitum. Stig og Bobby eru nokkuð lengi að ná saman, miðað við  myndir af þessu sauðahúsi, en þegar þeir ganga loks í fóstbræðralag byrjar ballið fyrir alvöru og Balti fær að sprengja byggingar, rústa bílum og láta þyrlur hrapa. Lokaniðurstaðan er því ósvikinn „böddí“ mynd, fín skemmtun og stórgóð afþreying sem sker sig úr hópi yfirþyrmandi og útblásinna sumarmynda þessa árs.

Leikstjóri: Baltasar Kormákur
Handrit: Blake Masters, Steven Grant
Leikarar: Denzel Washington, Mark Wahlberg, Paula Patton, Bill Paxton, Edward James Olmos, James MarsdenSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða