A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

300: Rise of an Empire | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: 300: Rise of an Empire (2014)

14. mars '14 12:10 300: Rise of an Empire

„Eina sem situr eftir er yfirkeyrður hasar í takt við stílíseraðar blóðsúrhellingar, gallsúr samtöl og furðulegasta kynlífsatriði í kvikmynd til fjölda ára.“

Gríski herforinginn Þemistókles leiðir hugrakka hermenn Aþenu í sjóorrustu við Persa undir handleiðslu hinnar hefndaróðu Artemesíu.

Sjö ár eru liðin síðan kvikmyndin 300 sló rækilega í gegn þar sem Leonídas konungur Spartverja og þrjúhundruð af hans bestu hermönnum mættu Persum í Laugaskörðum. Í ljósi vinsælda fyrri myndarinnar er engin fyrirstaða í því að þeyta í eitt stykki framhaldsmynd þar sem stríðið heldur áfram með nýjum persónum, en 300: Rise of an Empire gerist á undan, samhliða og eftir atburðarás 300.

Leikstjóri fyrri myndarinnar, Zack Snyder, skrifar handritið að þessari og leikstýrir Noam Murro herlegheitunum. Það leikur enginn vafi á því að myndin er gerð til þess að nýta sér frægð 300 því framhaldið bætir engu við söguna um eina frækilegustu vörn mannkynssögunnar. Eina sem situr eftir er yfirkeyrður hasar í takt við stílíseraðar blóðsúrhellingar, gallsúr samtöl og furðulegasta kynlífsatriði í kvikmynd til fjölda ára.

Ástralinn Sullivan Stapleton fer með hlutverk hershöfðingjans Þemistóklesar sem er lítið meira en kópía af Leonídas konungi sem gerði Gerard Butler umsvifalaust að stjörnu. Stapleton reynir og reynir en ekkert gerist. Leikkonan Eva Green hefur þó meira að moða úr en Stapleton í hlutverki tálkvendisins Artemesíu. Verst að persónunni er drekkt í furðulegum athæfum, og fyrir vikið verður hún einstaklega hallærisleg og grátbrosleg.

Í einu atriði tekur hún sig til, hálsheggur mann og fer svo í sleik við hausinn. Ég vissi ekki hvort það ætti að fyllast aðdáunar á þessu hörkukvendi eða springa úr hlátri. Ekki batnar það þegar hún boðar Þemistókles í tjald sitt þar sem þau tjá ást sína hvort á öðru og berjast í miðjum klíðum og hamast svo heyrist til meginlandsins. Það er ótrúlegt að enginn af aðstandendum hafi á einhverjum tímapunkti sagt „er þetta ekki aðeins of?".

Auðvitað er útlit myndarinnar flott og bardagaatriðin vel útfærð en það þarf að vera meira spunið í þetta blóðbað en endalausar skipárásir og heimskulegar umræður við varðeldinn. Og ekki hjálpa tugir slow-motion atriða sem lengja myndina um þrjátíu mínútur. Ef áhorfendur eru í leit að kvikmynd með engum söguþræði og ofurstíliseruðum ofbeldisatriðum þá er 300: Rise of an Empire klárlega málið.

Leikstjóri: Noam Murro
Handrit: Zack Snyder, Kurt Johnstad, Frank Miller
Leikarar: Sullivan Stapleton, Eva Green, Lena Headey, Rodrigo Santoro, David WenhamSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða