A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Á annan veg | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Á annan veg (2011)

10. september '12 09:44 Á annan veg

„Eins og óskrifuð lög um svona „böddí-myndir“ nálgast ólíkar persónurnar hvor aðra hægt og bítandi og áður en yfir lýkur myndast ósköp fallegt samaband á milli þeirra. “

Árið er 1980 og eitthvað. Alfreð og Finnbogi eru lengst uppi á heiði að mála gular línur á þjóðveginn og reka stikur í vegkanta. Þeir félagar eiga fátt sameiginlegt. Alfreð er 24 ára gosi sem hugsar um fátt annað en kynlíf og næsta djamm en Finnbogi er 33 ára alvörugefinn pælari sem hyggur á háskólanám í þýsku. Það eina sem tengir þá saman er að Finnbogi er í sambandi með systur Alfreðs og hefur gengið dóttur hennar í föðurstað.

Á annan veg er einföld mynd þar sem hrjóstrugt landslagið á heiðinni er eina sviðsmyndin og leikararnir Hilmar Guðjónsson og Sveinn Ólafur Gunnarsson eru nánast einir í mynd allan tímann og bera myndina uppi með samtölum sínum og samleik. Það er auðvitað meira en að segja það að halda athygli og áhuga áhorfenda við þessar einföldu aðstæður en Alfreð og Finnbogi eru fljótir að ná tökum á áhorfandanum og persónurnar verða áhugaverðari eftir því sem á líður. Þannig að ekki er hægt að segja annað en að Hilmar og Sveinn skili sínu af stakri prýði. Og ég minnist þess ekki að hafa séð íslenskt landslag þjóna tilgangi sínum jafn vel í bíómynd og svo skemmtilega vill til að það er einmitt þegar það er ljótt og óspennandi.

Eins og óskrifuð lög um svona „böddí-myndir“ nálgast ólíkar persónurnar hvor aðra hægt og bítandi og áður en yfir lýkur myndast ósköp fallegt samaband á milli þeirra. Sagan er ekkert sérstaklega frumleg og oft auðvelt að geta sér til um framhaldið en hún er engu að síður áhugaverð og skemmtileg.

 Þorsteinn Bachmann dúkkar upp í litlu aukahlutverki og brýtur upp daufan hversdaginn hjá þeim félögum. Þorsteinn er að verða einhver allra skemmtilegasti aukaleikarinn í íslensku bíói og hefur leikið sér að því að stela senunni undanfarið og klikkar ekki hérna frekar en áður. Hann leikur sveitalúða sem færir strákunum rosalega góðan landa. Besta landann í sveitinni, enda síaður þrisvar. En eins og allir góðir bruggarar vita þá dugir ekkert minna.

Í raun má segja að Á annan veg sé svolítið eins og landinn hans Steina. Hún er einföld, vel síuð og án allra aukefna. Bara þrjár persónur í miðri auðn. Hún er vel heppnað byrjandaverk Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, sem sýnir hér og sannar að það þarf ekki íburð og djúpa vasa til þess að vekja hughrif og skilja eitthvað eftir sig.

Leikstjóri: Hafsteinn Gunnar Sigurðsson
Handrit: Hafsteinn Gunnar Sigurðsson
Leikarar: Hilmar Guðjónsson, Sveinn Ólafur GunnarssonSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða