A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

A Good Day to Die Hard | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: A Good Day to Die Hard (2013)

15. febrúar '13 12:05 A Good Day to Die Hard

„A Good Day to Die Hard er grátlega vond mynd og afleitt innlegg í þessa ágætu kvikmyndaseríu og er það á hreinu að aðstandendur hafa ekki hugmynd um hvað gerir Die Hard-mynd að Die Hard-mynd.“

Tilhugsunin um að liðin séu 25 ár síðan John McClaine fleygði Hans Gruber út um glugga á Nakatomi-byggingunni í Die Hard er ótrúleg. Die Hard er almennt talin til betri hasarmynda allra tíma og hún eldist mjög vel. Vinsældir Die Hard hafa getið af sér fjórar framhaldsmyndir og í þeirri nýjustu, A Good Day to Die Hard, er McClaine enn að koma sér í klandur og hjakkar í sama farinu.

Einhver misskilningur virðist hafa komið upp í kringum þessa fimmtu mynd þar sem A Good Day to Die Hard er einungis Die Hard-mynd að nafninu til. Tengingar hennar við bálkinn eru í raun engar aðrar en orðin „Die“ og „Hard“ eru í titlinum og aðalpersónan heitir John McClaine. Bruce Willis snýr að sjálfsögðu aftur í hlutverki alþýðuhetjunnar en það er ekki sjón að sjá hann í þessari gömlu rullu sem skaut honum á stjörnuhimininn fyrir 25 árum.

Þróunin í persónusköpun McClaine er komin út í móa í þessari mynd og allt það sem gerði McClaine að jafn skemmtilegri og eftirminnilegri persónu og raun ber vitni er horfið. Hann er ekki lengur ófyrirsjáanlegur, ekki hnyttinn í tilsvörum og er ekki drifinn áfram af kröftugri blöndu af hörku og svartsýni blönduðum húmor í réttum hlutföllum. Hingað til hefur hann verið réttur maður á röngum stað en hefur aldrei bugast undir álagi. Ekkert af þessu er að finna í A Good Day to Die Hard.

Í fjórðu myndinni, Live Free or Die Hard, var sú stefna tekin að gera McClane að hálfgerðu ofurmenni. Þeirri stefnu er fylgt eftir hér og gott betur og okkar mann munar ekkert um að falla tugi metra í gegnum gler, hús, planka og ofan í sundlaug. Hasarinn er svo sannalega til staðar í myndinni en óvandað tæknibrelluhaf kæfir og skemmir fyrir. Söguþráðurinn í myndinni er ekki upp á marga fiska þar sem þvinguð atburðarás og persónur eru í forgrunni. Undir lok myndarinnar er svaka flækja leyst þannig að ómögulegt er að skilja upp né niður í þessu öllu.

Willis virðist vera útbrunninn og lúinn í hlutverki McClanes og virkar fyrir vikið líflaus og leiðinlegur. Engu líkara er en að neistinn sé horfinn úr þeim gamla og helsta áhyggjuefni hans séu þau fáu hár sem hann hefur enn á kollinum. Jai Courtney er þó skömminni skárri sem sonur McClaines en rígurinn milli þeirra feðga er dreginn á langinn en verður fljótt þreytandi.

Die Hard-kokteilinn er flóknari blanda en svo að hægt sé að leysa hann upp í haug af hasaratriðum, skotbardögum og hnyttnum tilsvörum. Það er meira spunnið í persónu McClaines og kvikmyndabálkinn en að hægt sé að komast upp með hálfkák, ljúka myndinni með setningunni „Yippee-Ki-Yay...“ og halda að það sé nóg. A Good Day to Die Hard er grátlega vond mynd og afleitt innlegg í þessa ágætu kvikmyndaseríu og er það á hreinu að aðstandendur hafa ekki hugmynd um hvað gerir Die Hard-mynd að Die Hard-mynd.

Leikstjóri: John Moore
Handrit: Skip Woods
Leikarar: Bruce Willis, Jai Courtney, Cole Hauser, Sebastian KochSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða