A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

A History of Violence | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

DVD: A History of Violence (2005)

21. febrúar '12 15:52 A History of Violence

„Það leynir sér þó aldrei hver er við stjórnvölinn og þótt myndin sé að mörgu leyti áhorfendavæn ristir hún djúpt og reynir á áhorfandann.“

David Cronenberg er flinkur kvikmyndagerðarmaður sem hefur oft tekið góða spretti, ekki síst í hryllingsmyndum sem bera sterk höfundareinkenni hans. Hann hefur hins vegar yfirleitt verið hálfgert jaðarfyrirbæri og ekki alltaf átt greiðan aðgang að áhorfendum. Dead Ringers reyndi til dæmis á þolrif margra, að maður tali ekki um sýruna Naked Lunch, Crash og eXistenZ-þvæluna.

A History of Violence er því býsna jarðbundin miðað við það sem við eigum að venjast frá Cronenberg. Myndin byggir á samnefndri myndasögu sem fjallar um dagfarsprúðan kaffihúsaeiganda og fjölskyldumann sem sýnir á sér óvænta hlið þegar hann drepur tvo morðóða ræningja án þess að depla auga. Hann verður hetja í litla heimabænum sínum og kastljós fjölmiðlanna verður til þess að mafíósar úr stórborginni gefa honum gaum. Þeir mæta til leiks og telja sig þekkja okkar mann frá fornu fari og eiga ýmislegt óuppgert við hann.

Viggo Mortensen leikur hetjuna okkar á sinn yfirvegaða hátt og ræður vel við tvöfalt eðli persónunnar, sem var áður ruddalegur ofbeldisfauti og á ótrúlega auðvelt með að rifja upp gamla takta þegar í harðbakkann slær. Það er ekki hægt að segja annað en að það fari Cronenberg vel að vera með fæturna á jörðinni enda er þetta vinsælasta mynd hans til margra ára og kom sterklega til greina í kapphlaupinu um Gullpálmann í Cannes á sínum tíma. Það leynir sér þó aldrei hver er við stjórnvölinn og þótt myndin sé að mörgu leyti áhorfendavæn ristir hún djúpt og reynir á áhorfandann.

Frásögnin fer rólega af stað og yfir myndinni hvílir þægileg smábæjarró en inni á milli blossar ofsafengið ofbeldið upp og það er óhætt að segja að það sé meistaralega stílfært. Mannlegi þátturinn er þó alltaf í forgrunni og áhrif ofbeldisverkanna á líf friðsamrar fjölskyldu eru átakanleg og erfið.

Viggo Mortensen skilar sínu verki vel en Ed Harris stelur senunni sem forn fjandi aðalpersónunnar. Þá setur William Hurt skemmtilegan svip á myndina og það gustar af Mariu Bello í hlutverki eiginkonu Mortensens.

A History of Violence er virkilega vönduð mynd, vel leikin og skemmtilega stílfærð. Myndin er ein besta mynd Cronenbergs um langt árabil. Hann hélt sig á sömu slóðum í Eastern Promises en er öllu mildari og ekki næstum jafn áhugaverður í A Dangerous Method sem gengur í bíó um þessar mundir.

Leikstjóri: David Cronenberg
Handrit: Josh Olson
Leikarar: Viggo Mortensen, Maria Bello, Ed HarrisSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða