A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

American Hustle | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: American Hustle (2013)

23. janúar '14 13:36 American Hustle

„Leikhópurinn er óaðfinnanlegur í höndum leikstjórans, söguþráðurinn er spennandi og efniviðurinn býður upp á ýmsa möguleika og er öll umgjörð, tónlist og útlit, vönduð en handritið virkar einfaldlega ekki.“

Athafnarmaðurinn Irving Rosenfeld er ekki allur þar sem hann er séður. Í skjóli þurrhreinsunar sem hann rekur, selur hann stolin og fölsuð listaverk. Í hjáverkum féfléttir hann örvinglað fólk sem til hans leitar í þeirri von um að hann geti útvegað þeim lán í gegnum tengilið, sem er jafnframt ástkona hans. Það má segja að lánið leiki við parið allt þar til að alríkislögreglan grípur þau glóðvolg og þvingar þau til samstarfs við að flétta ofan af öðrum svikahröppum.

Leikstjórinn David O. Russell hefur nánast verið í áskrift á tilnefningum á verðlaunahátíðum síðustu ár með kvikmyndunum The Fighter, Silver Linings Playbook og nú American Hustle. Myndirnar eru jafn fjölbreyttar og þær eru margar en American Hustle byggir á sönnum atburðum sem gerðust í kringum leyniaðgerðina Abscam á áttunda og níunda áratugnum. Russell skrifar handritið ásamt Eric Warren Singer en uppbygging myndarinnar er ekki frábrugðin Goodfellas, meistarastykki Martins Scorsese, og fjölmörg atriði eru einfaldlega óður til hennar.

Russell hefur tileinkað sér óhefðbundinn en áhugaverðan leikstjórnarstíl þar sem hann vinnur í miklu návígi við leikara í tökum og læðir að þeim nýjum og ferskum línum í miðju atriði sem hann telur henta hverju sinni. Leikarar sem hafa unnið með honum hafa talað um í viðtölum að þessi aðferð sé frelsandi en geti jafnframt verið ansi snúin. Sérstaklega í ljósi þess að myndir eru yfirleitt ekki teknar í réttri röð og breytingar á handriti geta leitt til vandræða síðar meir. Og sú gæti raunin verið hér.

Handritið hefur vissa vankanta og má helst nefna hversu sagan er ómarkviss. Persónusköpunin er til staðar og grunnurinn er lagður að átökum og árekstrum persónanna en það kemur svikunum í sjálfu sér ekkert við. Áhorfendum er gefin sú hugmynd að svikahrapparnir séu svakalega klókir en það gleymist að sýna fram á að svo sé. Þau svíkja hvort annað en í lokin eru flugeldarnir hvergi sjáanlegir. Russell virðist hafa tilhneigingu til þess að doka við að loknum atriðum og leyfa senunni að fjara út í svipbrigðum leikaranna. Slík nálgun vegur oftast þungt þegar um tilfinningaþrungin atriði er að ræða en í þessari mynd virðist engin regla vera á því hvenar hann beitir þessu bragði og fyrir vikið staðna þau og virka of löng.

Stórglæsilegur leikhópur American Hustle hefur verið að raka inn tilnefningum en Russell er hér að vinna með flestum leikurum í annað sinn og margir eru þeir fremstir í röðum sinna kynslóða. Christian Bale er frábær í hlutverki svikahrappsins sjarmerandi Rosenfelds. Það er ótrúlegt að fylgjast með þeirri breytingu sem Bale tekur þegar hann stingur sér á bólakaf í hlutverk eins og þetta. Eins og Daniel Day-Lewis og Marlon Brando aðhyllist Bale hina svokölluðu „method“ aðferð í leik sínum og gengur skrefinu lengra en aðrir leikarar og gerist meðal annars ansi pattaralegur fyrir hlutverkið.

Leikhópurinn býr yfir þvílíkri kemistríu og er í raun litlu hægt að bæta við um leik þeirra Bradleys Cooper, Amys Adams, Jennifer Lawrence og Jeremys Renner. Þau eru öll mjög sannfærandi og fara passa vel í hlutverk sín. Ekki má heldur gleyma fyrrum þungaviktaleikarinn Robert De Niro sem skýtur upp kollinum í litlu hlutverki sem mafíósi. Kirsuberið á toppnum er grínistinn Louie C.K. sem er óborganlegur sem skrifstofublók sem gengið er yfir á skítugum skónum.

Tónlistarvalið er óaðfinnanlegt og í gegnum myndina koma ófá atriði þar sem tónlistin yfirgnæfir atriðið og rammar inn tímabilið með tilheyrandi skrautlegum fatnaði, permanenti, glanskjólum, stórum þverslaufum og hárlakki.

American Hustle hefur alla burði til þess að vera ein besta mynd ársins. Leikhópurinn er óaðfinnanlegur í höndum leikstjórans, söguþráðurinn er spennandi og efniviðurinn býður upp á ýmsa möguleika og er öll umgjörð, tónlist og útlit, vönduð en handritið virkar einfaldlega ekki.

Í ljósi þess að myndin hlaut nýverið tíu tilnefningar til Óskarsins getur þetta hljómað hálf klikkað en í American Hustle leynist frábær mynd, en til þess að að hún yrði að veruleika hefði þurft þéttari og betri klippingu. Og fleiri atriði með Louie C.K.

Leikstjóri: David O. Russell
Handrit: David O. Russell, Eric Warren Singer
Leikarar: Christian Bale, Bradley Cooper, Jennifer Lawrence, Amy Adams, Jeremy Renner, Robert De Niro, Louie C.K., Michael PenaSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða