A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Angel Heart | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Angel Heart (1987)

29. október '13 16:16 Angel Heart

„Óhugnaðurinn er nægur í Angel Heart en Parker er þó ekkert að troða viðbjóðnum framan í áhorfendur og hrollurinn fær þannig enn meiri slagkraft þar sem hann grasserar fyrir hugskotsjónum okkar. “

Hér er best að hafa smá formála. Angel Heart er ein af uppáhaldsmyndunum mínum og líklega sú sem ég hef séð hvað oftast að Star Wars, The Big Sleep og Casablanca frátöldum. Alan Parker sýnir hér svo um munar hversu öflugur leikstjóri hann er, Mickey Rourke er frábær í hlutverki Harrys Angel á fyrri toppi skrykkjótts ferils síns, Robert DeNiro er ógnvekjandi enda gat hann enn leikið eitthvað annað en sjálfan sig árið 1987, Lisa Bonet rústaði fágaðri ímynd The Cosby Show þar sem hún stripplaðist og tók þátt í ofafengnu kynlífsatriði með Rourke (Denise okkar varð aldrei söm) og Charlotte Rampling er seiðmögnuð sem spákonan dularfulla Margaret Krusemark.

Fyrir utan taumlausa dýrkun mína á Mickey Rourke í þá daga og allt ofantalið þá kolféll ég fyrir Angel Heart þegar ég sá hana fyrst í Bíóborginni í ágúst 1987 vegna þess að hún sameinar tvær uppáhalds kvikmyndagreinarnar mínar, film noir spæjarann og hryllingsmyndir. Ég ætla að leyfa mér að sleppa tilfinningum mínum lausum og gefa henni þær fimm stjörnur sem mér finnst hún eiga skilið þótt múgurinn kunni að vera mér ósammála.

Hér má rétt eins og í umfjölluninni um Hellraiser byrja á því að vitna í Stephen King og sjálfsagt væri hægt að finna eitthvað frá honum um allar þær myndir sem teknar verða fyrir í Hrekkjavökuvikunni. King lýsti nefnilega skáldsögu William Hjortsberg, Falling Angel, býsna vel þegar hann sagði hana vera eins og ef Raymond Chandler hefði skrifað The Exorcist. Og sama gildir um Angel Heart sem skiptist nokkuð jafnt milli tveggja kvikmyndagreina þar sem hún breytist eftir hlé úr dæmigerðri Chandlerískri einkaspæjaramynd í hryllingsmynd fullri af svartagaldri og djöfladýrkun.

Ókennileikinn liggur þó í loftinu allt frá því hinn dularfulli Louis Cyphre (De Niro) ræður spæjarann Harry Angel til þess að hafa uppi á horfnum söngvara, Johnny Favorite, sem skuldar Cyphre smotterí sem hann vill fyrir alla muni innheimta. Eitthvað skuggalegt er á sveimi yfir og umhverfis Harry og birtist í hrollvekjandi myndmáli, einkennilegum draumförum, blóði og svörtum nunnum. Þá ganga ónýtar viftur eins og leiðarminni í gegnum myndinna og verða ónotalegir fyrirboðar viðbjóðslegra morða.

Óhugnaðurinn er nægur í Angel Heart en Parker er þó ekkert að troða viðbjóðnum framan í áhorfendur og hrollurinn fær þannig enn meiri slagkraft þar sem hann grasserar fyrir hugskotsjónum okkar. Bygging myndarinnar er markviss og Harry er alltaf aðeins á eftir morðingjanum og áhorfandinn aðeins á eftir Harry. 

Eftir því sem nær dregur lausninni ætti þó flest vel skólað kvikmyndaáhugafólk að vera búið að sjá endalokinn fyrir. Fléttan býður eiginlega ekki upp á annað en óneitanlega er dálítill deus ex machina keimur af endinum sem virkar svolítið ódýr og einfaldur miðað við hversu vegurinn að honum er lagður af mikili natni og vandvirkni.

Leit Harrys er hlaðin vísbendingum og táknum og mörg samtöl og gjörðir persónanna öðlast nýja og dýpri merkingu eftir því sem nær dregur hinu óhjákvæmilega. Og leiðin þangað er mögnuð og ógnvekjandi. Feigðin svífur yfir ferðalagi Harrys frá New York yfir í hið villta svæði sveittra Suðurríkjanna þar sem fjandinn verður laus í bókstaflegri merkingu.

Í Hellraiser hótar Pinhead því að hann muni „tear your soul apart,“ og á Angel Heart-plakatinu stóð „It will scare you to your very soul,“ sem hún svo sannarlega gerir. Mikill sálarháski hérna þessa dagana!

Leikstjóri: Alan Parker
Handrit: William Hjortsberg (saga), Alan Parker (handrit)
Leikarar: Mickey Rourke, Robert De Niro, Lisa Bonet, Charlotte RamplingSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða