A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Bad Santa | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Bad Santa (2003)

1. desember '12 11:00 Bad Santa

„Hárbeittur og groddalegur húmor Bad Santa klikkar seint þar sem allt virðist smella saman á réttum stöðum. Það fer ekkert á milli mála að myndin er ekki allra enda hefur Jóli sjaldan verið meiri skíthæll en einmitt hér.“

Tveir ræningjar hreiðra um sig í verslunarmiðstöð um jólin í gervi jólasveins og dvergvaxins aðstoðarmanns hans. Þeir bíða eftir aðfangardegi en þá ætla þeir að láta til skarar skríða. Jólasveininn er bullandi alkóhólisti og er með allt niður um sig þannig að hjálparkokkinum lýst ekki beint á blikuna. Sérstaklega þar sem Jóli er búinn að koma sér þægilega fyrir með systur eiginkonu Jóla á heimili ungs og einfalds aðdáenda.

Bad Santa hefur í nokkur ár átt fastan sess í jólaáhorfi á mínu heimili. Rétt eins og Die Hard og Christmas Vacation stendur myndin alltaf fyrir sínu og virðist einfaldlega batna í hvert skipti. Terry Zwigoff leikstýrir þessari fantagóðu kolsvörtu kómidíu frá árinu 2003. Óvægin samtöl, kostuleg framvinda og almennt smekkleysi gera Bad Santa án efa að sérkennilegustu jólamynd sem völ er á. Enda ekki furða, myndin er framleidd af Coen-bræðrum.

Leikhópur myndarinnar, eins og hann leggur sig, fer á kostum. Billy Bob Thornton er óborganlegur sem drullusokkurinn Willie eða Jóli og er sérstaklega gaman að samleik Tony Cox og hans. Tilsvör Cox í hlutverki hjálparsveinsins með áætlunina eru sprenghlægileg og hittir hann oftar en ekki beint í mark. Brett Kelly leikur einfalda aðdáandann sem veitir Willie húsaskjól og Bernie Mac fer með hlutverk sérkennilegs öryggisvarðar verslunarmiðstöðvarinnar.

Hárbeittur og groddalegur húmor Bad Santa klikkar seint þar sem allt virðist smella saman á réttum stöðum. Það fer ekkert á milli mála að myndin er ekki allra enda hefur Jóli sjaldan verið meiri skíthæll en einmitt hér.

Leikstjóri: Terry Zwigoff
Handrit: Glenn Ficarra, John Requa
Leikarar: Billy Bob Thornton, Tony Cox, Brett Kelly, Lauren Graham, Bernie Mac, John RitterSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða