A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Batman Begins | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Batman Begins (2005)

25. júní '12 11:23 Batman Begins

„Fyrsti hluti Batman Begins segir þessa sköpunarsögu Batmans og hér sækir handritshöfundurinn markvisst í myndasögubók Franks Miller Batman: Year One og það er varla hægt að hugsa sér traustari grunn fyrir öfluga Batman-mynd en einmitt þessa snilldarbók.“

Leðurblökumaðurinn var afskrifaður árið 1997 þegar Joel Schumacher misbauð aðdáendum grímuklædda bófabanans sem og almennum bíógestum með myndinni Batman and Robin sem var svo slæm að líkamleg óþægindi voru meðal þeirra aukaverkana sem fylgdu því að sitja undir ósköpunum þar sem George Clooney og Arnold Schwarzenegger gerðu sig að fíflum í einni verstu bíómynd sögunnar.

Almennt var talið að Schumacher  hefði með þessari skelfingu tekist að drepa Leðurblökumanninn. Eitthvað sem Jókernum, Mörgæsinni og öðrum erkióvinum Batmans hafði aldrei auðnast. Það er því óhætt að segja að leikstjórinn Christopher Nolan hafi unnið kraftaverk með fyrstu Batman-mynd sinni, Batman Begins, þar sem hann reisti þennan skuggalega riddara götunnar upp frá dauðum með slíkum tilþrifum að hann hefur aldrei verið öflugri.

Nolan, handritshöfundar og aðalleikarinn Christian Bale bera nauðsynlega virðingu fyrir Batman og
bjóða því ekki upp á nein fíflalæti í mynd sem gat af sér The Dark Knight, sem var ennþá betri en Batman Begins og nú styttist í lokakafla Batman-ævintýris Nolans The Dark Knight Rises og efitvæntingin er nánast óbærileg.

Í Batman Begins eyðir Nolan miklum tíma og púðri í persónusköpun hetjunnar og að því leyti má segja að Nolan feti svipaða slóð og Tim Burton í tímamótamyndinni Batman frá árinu 1989. Þar var sett spurningarmerki við andlega heilsu hetjunnar og það sama er uppi á teningunum hér. Milljarðaerfinginn Bruce Wayne glímir við fortíðardrauga og reynir að vinna bug á sorginni sem heltók hann þegar foreldrar hans voru myrtir með því að berjast gegn glæpum í Gotham-borg.

Fyrsti hluti Batman Begins segir þessa sköpunarsögu Batmans og hér sækir handritshöfundurinn markvisst í myndasögubók Franks Miller Batman: Year One og það er varla hægt að hugsa sér traustari grunn fyrir öfluga Batman-mynd en einmitt þessa snilldarbók.

Efniviðurinn er líka svo safaríkur að það er töluvert liðið á myndina áður en Batman birtist í allri sinni dýrð en það er nógu mikið í gangi til að maður finni ekkert fyrir fjarveru búningsins og bílsins. Christian Bale smellpassar í hlutverkið og búninginn loksins þegar hann kemur sér í hann og hér er loksins kominn fram leikari sem ræður við báðar hliðar klofinnar persónu Bruce Wayne/Batmans. Bale toppar Michael Keaton, Val Kilmer og George Clooney án þess að reyna á sig og gerir Batman algerlega að sínum. Hann er svo dyggilega studdur frábærum aukaleikurum en þar fer Michael Caine fremstur sem hinn hundtryggi Alfred, einkaþjónn Batmans.

Þá er Gary Oldman traustur að vanda sem Gordon, tilvonandi lögreglustjóri, og eini óspillti bandamaður Blaka innan lögreglunnar í Gotham. Morgan Freeman og Liam Neeson klikka ekki frekar en fyrri daginn og Rutger Hauer setur sinn svip á myndina í litlu hlutverki.

Nolan og samstarfsfólki tókst með samstilltu átaki að bjarga einni flottustu myndasögupersónu allra tíma úr því víti sem Joel Schumacer skóp henni fyrir fimmtán árum og á daginn kom að Batman Begins var svo sannarlega nýtt upphaf.

Leikstjóri: Christopher Nolan
Handrit: Christopher Nolan, David S. Goyer
Leikarar: Christian Bale, Michael Caine, Liam Neeson, Katie HolmesSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða