A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Broken City | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Broken City (2013)

22. mars '13 11:53 Broken City

„Hughes, Crowe og Wahlberg eru því allir langt frá sínu besta í þessari fyrirsjáanlegu og bitlausu pólitísku svikamillu. Titill myndarinnar væri beinþýddur sem „Brotin borg“ en „Brotin loforð“ væri meira viðeigandi titill.“

Borgarstjóri New York leitar til einkaspæjara til þess að rannsaka framhjáhald eiginkonu sinnar en þegar spæjarinn fer á stúfana kemur ýmislegt misjafnt upp á yfirborðið og ekki er allt sem sýnist.

Hughes-bræður eru flestu kvikmyndaáhugafólki vel kunnir en þeir eru þekktastir fyrir myndirnar Menace II Society, Dead Presidents og nú síðast The Book of Eli. Broken City er fyrsta kvikmyndin sem aðeins annar bróðirinn, Allen Hughes, er einn við stjórnvölinn og þótt ótrúlegt sé gæti það útskýrt ýmsa vantkanta á myndinni.

Broken City er afar frábrugðin fyrri myndum bræðranna þar sem beitt samfélagsrýni hefur verið áberandi. Myndin gæti því jafnvel flokkast sem ákveðið stílbrot á leikstjóraferli Allens. Allen brodd vantar í söguna þannig að útkoman verður dæmigerður pólitískur lygavefur sem kemst hvorki lönd né strönd. Hér vantar allt krydd en það hefði einmitt mátt reikna með því að bræðurnir myndu hrista aðeins upp í þessu og lyfta þannig þessari fyrirsjáanlegu mynd á hærra plan.

Engu líkara er en að Mark Wahlberg og Russell Crowe hafi ekki nennt að leika í myndinni. Að vísu er lítið sem ekkert spunið í persónur þeirra, einkaspæjarans og spillta borgarstjórans. Og það telst nú eiginlega til tíðinda að það sé meira varið í kappræður borgarstjóraframbjóðenda en bílaeltingaleik einkaspæjara. Hér er þó ekki einungis við leikarana að sakast þar sem persónur þeirra eru svo óspennandi að þeir hafa úr litlu sem engu að moða.

Wahlberg lemur vissulega tvo gaura og Crowe rúllar ræðukeppninni upp áreynslulaust en þar fyrir utan eru þeir andlausir og virka latir. Jeffrey Wright og Barry Pepper eru ögn skárri sem lögreglustjórinn og borgarstjóraefnið sem ætlar steypa persónu Crowe af stóli.

Hughes, Crowe og Wahlberg eru því allir langt frá sínu besta í þessari fyrirsjáanlegu og bitlausu pólitísku svikamillu. Titill myndarinnar væri beinþýddur sem „Brotin borg“ en „Brotin loforð“ væri meira viðeigandi titill.

 

Leikstjóri: Allen Hughes
Handrit: Brian Tucker
Leikarar: Mark Wahlberg, Russell Crowe, Catherine Zeta-Jones, Barry Pepper, Jeffrey Wright, Kyle ChandlerSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða