A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Bully | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Bully (2011)

3. janúar '13 00:00 Bully

„Bully tekur virkilega á og er síður en svo auðveld á að horfa en að sama skapi gríðarlega mikilvæg mynd og sem allra flestir ættu að hlunkast til þess að sjá hana, neyða sjálfa sig til þess að opna augun hugsa sinn gang, ræða málin heimafyrir og leggjast á árarnar með þeim sem reyna að sporna gegn óværunni.“

Börn geta verið bölvuð óargadýr og þrátt fyrir engilfagra ásjónu er oft stutt í villidýrið og á skólalóðinni er frumskógarlögmálið í hávegum haft þannig að þetta leiðinda samfélagsmein, eineltið, blossar upp þegar tuddarnir þefa uppi þá veikustu í hjörðinni og hossa sjálfum sér með þvi að beita þá andlegu- og líkamlegu ofbeldi.

Bandaríska heimildarmyndin Bully tekst á við ömurlegt eineltið með því að segja sögu fimm krakka sem allir þurfa að þola útskúfun og stöðugar ofsóknir án þess að geta sér nokkra björg veitt. Krökkunum er fylgt eftir með kvikmyndatökuvélinni í skólabílnum, í skólanum og á förnum vegi og alls staðar leynast villidýrin og útdeila eymd og ógeði af einurð og festu.

Sögur krakkanna eru eins og við er að búast átakanlegar og tvö þeirra sem Bully fjallar um kjósa að svipta sig lífi. Einn til þess að losna undan ofsóknunum en annar höndlar ekki afleiðingar áralangs eineltis í skólanum og hengir sig í fataskápnum sínum þótt hann hafi verið sloppinn úr frumskógi skólakerfisins.

Þjáning krakkana er vægast sagt áþreifanleg í Bully ekki síður en örvænting og ráðaleysi fjölskyldna þeirra sem standa fullkomlega máttvana andspænis meininu. Áhuga-, getu- og úrræðaleysi skólastjórnenda fá einnig sitt pláss og hvergi er reynt að draga úr þeirri sorglegu staðreynd að fólk virðist almennt hafa takmarkaðan áhuga á einelti þangað til það sjálft eða þeirra nánustu eru komnir í skotlínu eineltispúkanna. Afneitunin er ræktuð af elju og rétt bráir af fólki þegar eineltið kostar mannslíf en síðan er augum og eyrum lokað aftur. Bully er því tímabært og þarft spark í rassgatið á fólki. Gott spark sem fólk hefur gott af því að fá.

Bully tekur virkilega á og er síður en svo auðveld á að horfa en að sama skapi gríðarlega mikilvæg mynd og sem allra flestir ættu að hlunkast til þess að sjá hana, neyða sjálfa sig til þess að opna augun hugsa sinn gang, ræða málin heimafyrir og leggjast á árarnar með þeim sem reyna að sporna gegn óværunni.

Bully er mikilvæg mynd og Lee Hirsch hefði gjarnan mátt ganga lengra og óneitanlega saknar maður þess að fá ekki að kynnast ófétunum sem stunda eineltið. Fókusinn er á fórnarlömbunum og þeirra nánustu en auðvitað væri ekki síður fengur að fá að kynnast því hvaða súra sósa gerjast í kollinum á krakkakvikindunum sem stunda eineltið.

Drullisti svo af stað og sjáið þessa mynd!

Áður birt 7. maí '12

Leikstjóri: Lee Hirsch
Handrit: Lee Hirsch, Cynthia Lowen
Leikarar: Alex, Ja'Maya, KelbySvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða