A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Candyman | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Candyman (1992)

9. apríl '14 14:10 Candyman

„Drápin eru mátulega subbuleg og Candyman er fyrirtaks hryllingsmynd sem eldist merkilega vel. Þar munar samt mest um frammistöðu Madsen og Tony Todd sem er virkilega ógnandi sem Candyman.“

Þrjátíu ár eru liðin síðan enski hrollvekjuhöfundurinn Clive Barker sendi frá sér fyrsta skammt af Books of Blood og uppskar mikið lof frá sjálfum Stephen King sem sagðist þarna hafa séð framtíð hryllingsins sem héti Clive Barker. Deila má um hvort Barker hafi staðið undir orðum Kings sem er enn aðalgæinn í hryllingnum á meðan öllu minna fer fyrir Barker.

Candyman byggir á smásögunni The Forbidden eftir Barker en söguviðið er fært frá Englandi í slömmhverfi í Chicago. Þar gengur þjóðsagan um Candyman ljósum logum en samkvæmt henni birtist Candyman ef maður stendur fyrir framan spegil og segir nafn hans fimm sinnum í röð. Vandséð er þó hvers vegna nokkur manneskja ætti að vilja reyna slíkt þar sem þá kemur Candyman og rífur fólk á hol, frá klofi upp að hálsi, með króknum sínum.

Sú ágæta og í seinni tíð allt of sjaldséða leikkona Virgina Madsen (systir Michaels) er hér í hlutverki Helen, útskriftarnema, sem vinnur að rannsóknum á nútíma þjóðsögum. Hún sekkur sér á kaf í söguna af Candyman sem er tekinn mjög hátíðlega í fátækrahverfi í Chicago. Sagan segir að Candyman hafi verið listamaður og þræll í borgarastríðinu. Ástir tókust með honum og hvítri dóttur plantekrueiganda og þegar upp komst var þrælinn tekinn, önnur hendi hans sörguð af honum og hann síðan þakin hungangi og étinn lifandi af býflugnageri. Og nú er hann draugur með krók þar sem hendin var áður og fær útrás með því að úthella blóði saklausra.

Helen misbýður Candyman með því að draga goðsögnina um hann í efa þannig að hann byrjar að ofsækja hana og kála fólki í kringum hana. Hún er grunuð um subbuleg morðin enda er Candyman ætíð á bak og burt þegar lögreglan mætir á vettvang en þar er Helen alltaf ringuð og ráðvillt og getur ekkert gert nema benda á draug sem hinn seka. Þessi klemma Helenar er skemmtilega útfærð og hún rambar einhvers staðar á mörkum raunveruleika og ímyndunar og gæti hæglega verið snargeðbiluð og sek um illvirkin.

Drápin eru mátulega subbuleg og Candyman er fyrirtaks hryllingsmynd sem eldist merkilega vel. Þar munar samt mest um frammistöðu Madsen og Tony Todd sem er virkilega ógnandi sem Candyman. Þetta er mynd sem er því vel þess virði að grafa upp og svo er bara spurningin hvort þú þorir að segja Candyman, Candyman, Candyman, Candyman ...

Leikstjóri: Bernard Rose
Handrit: Bernard Rose, Clive Barker
Leikarar: Virginia Madsen, Xander Berkeley, Tony ToddSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða