A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Captain America: The Winter Soldier | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Captain America: The Winter Soldier (2014)

9. apríl '14 11:55 Captain America: The Winter Soldier

„Fjöldi þeirra sem blanda sér í átökin tryggir að hvergi er dauðan punkt að finna. Myndin er stórskemmtilegt og spennnandi innlegg í hinn tröllvaxna myndabálk Marvel um Hefnendurna og varðar veginn að næstu Avengers-mynd sem kemur á næsta ári.“

Marvel hefur varla stigið feilspor frá því myndasögurisinn trommaði upp með Robert Downey Jr. Í hlutverki oflátungsins, ofursénísins og alkans Tony Stark sem er Iron Man í hjáverkum. Frá því Iron Man kom, sá og sigraði í Iron Man 2008 hefur Marvel sent frá sér sjálfstæðar myndir um The Hulk, Captain America og Thor og þessar kempur voru síðan leiddar saman með eftirminnilegum og frábærum látum í The Avengers 2012. Sjálfstæðu myndirnar voru tengdar saman, aðallega með Samuel L. Jackson í hlutverki eins eitilharða Nick Fury sem stýrir samtökunum S.H.I.E.L.D. sem meðal annars beita Avengers-genginu fyrir sig í baráttunni fyrir öruggum heimi.

Frá því að New York var nánast rústað í stríði Hefnendanna við hyski úr goðheimum sem laut stjórn hins fláráða Loka hafa Iron Man og Thor látið að sér kveða í nýjum myndum og nú er röðin komin að fyrsta Hefnandanum, Captain America, í sinni annarri mynd sem er vel í takt við The Avengers og varðar veginn að næstu Avengers-mynd, The Age of Ultron.

Það er best að vera ekkert að orðlengja um það að þessi mynd, Captain America: The Winter Soldier, er með betri og skemmtilegri Marvel-myndum síðustu ára og þá er nú töluvert sagt. Hér er allt keyrt í botn og hvergi gefið eftir í hasar, sprengingum, töffarastælum, bílahasar og djöfulgangi.

Í Captain America: The First Avenger  frá 2011 fylgdumst við með væsklinum Steve Rogers breytast í ofurhermanninn Captain America sem barðist við nasista og drullusokkasamtökin Hydra í seinni heimsstyrjöldinni. Þar lenti hann í vandræðum og lá frosinn fram á vora daga. Þegar hér er komið við sögu er Steve enn að reyna að aðlagast breyttum heimi auk þess sem hinum hjartahreina hermanni reynist erfitt að vinna fyrir Nick Fury sem er ekki alltaf vandur að meðulum. Fury er mjög á varðbergi eftir atburði The Avengers en Svarta ekkjan, Natasha Romanoff, stendur keik og lætur sér ekkert fyrir brjósti brenna.

Þríeykið þarf þó heldur betur að taka á honum stóra sínum þegar yfirburða morðinginn Winter Soldier gerir vart við sig og í ljós kemur að svikarar hafa hreiðrað um sig hjá S.H.I.E.L.D. þannig að engum er treystandi. Þegar Captain America, Natasha og Fury eru kominn út í horn fer myndin á fleygiferð og hvergi er slegið  af í hasar, slagsmálum, æsilegum bílahasar og mögnuðum skotbardögum.

Chris Evans er sem fyrr ákaflega geðþekkur í hlutverki Kafteinsins og kastar skyldinum góða með miklum tilþrifum. Einn stærsti kostur myndarinnar er þó að hún hverfist ekki einungis um Captain America og Scarlett Johansson og Samuel L. Jackson fá heilmikið að gera og skyggja á ofurhermanninn þegar kemur að töffaratöktum. Scarlett er algjört æði og með öllu ómótstæðileg í galla Svörtu ekkjunnar sem rústar öllum illmennum sem verða á vegi hennar og Jackson er sjálfum sér líkur. Þá bætist þeim óvæntur liðsauki í The Falcon sem Anthony Mackie leikur. Vetrarhermaðurinn er svo verðugur andstæðingur hópsins og gamla sjarmatrölli Robert Redford ljær myndinni ákveðinn virðuleika í hlutverki yfirmanns Furys.

Hópeflið í Captain America: Winter Soldier gefur henni hressilegan Avengers-fílíng og fjöldi þeirra sem blanda sér í átökin tryggir að hvergi er dauðan punkt að finna. Myndin er stórskemmtilegt og spennnandi innlegg í hinn tröllvaxna myndabálk Marvel um Hefnendurna og varðar veginn að næstu Avengers-mynd sem kemur á næsta ári.

Leikstjóri: Anthony Russo, Joe Russo
Handrit: Christopher Markus, Stephen McFeely
Leikarar: Chris Evans, Samuel L. Jackson, Scarlett Johansson, Robert Redford, Sebastian Stan, Anthony MackieSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða