A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Captain Phillips | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Captain Phillips (2013)

1. nóvember '13 12:04 Captain Phillips

„Captain Phillips er vönduð og góð mynd sem slagar upp í þær bestu sem Greengrass hefur sent frá sér. Hanks fer á kostum í myndinni og þá einkum í lokaatriðinu sem framkallaði gæsahúð og slíka vellíðunartilfinningu að það hálfa væri meira en nóg.“

Árið 2009 tóku sómalskir sjóræningjar flutningsskipið Maerks Alabama á sitt vald. Sjóræningjarnir handsömuðu bandaríska skipstjórann Richard Phillips og hótuðu að taka hann af lífi ef þeir fengju ekki lausnargjald fyrir hann.

Captain Phillis byggir á sannsögulegum atburðum en sjóránið og skipstjórinn Phillips komust í heimspressuna á sínum tíma. Ári seinna sagði Philips frá reynslu sinni í bókinni A Captain's Duty eða Skylda skipstjórans, sem hann skrifaði ásamt Stephen Tatty. Bretinn Paul Greengrass leikstýrir handriti eftir Billy Ray sem byggir á þeirri bók. Greengrass er þekktastur fyrir Bourne-myndirnar The Bourne Supremacy og The Bourne Ultimatum, ásamt United 93.

Greengrass er firnasterkur leikstjóri og þeir áhorfendur sem þekkja til fyrri mynda hans geta hér gengið að sama hráa og hraða stílnum og einkenndi þær myndir. Þessi stíl fer líka Captain Phillips einkar vel. Myndin virkar á köflum eins og heimildarmynd í höndum þessa færa leikstjóra. Hann kann að láta adenalínið flæða í vitrænum og hugvekjandi spennumyndum án þess að fara yfirum í yfirkeyrðum tölvubrellum.

Efniviður Captain Phillips er líka sannkallað bíógull þar sem einn maður, réttara sagt hetja, fórnar sér fyrir samstarfsmenn, vini, land og þjóð. Fjölmiðlar hafa fjallað töluvert um myndina og sannleiksgildi hennar en slíkar vangaveltur hafa takmarkað gildi þegar bíómyndir eru annars vegar. Skáldaleyfi eru reglulega tekin í „sannsögulegum“ myndum til þess að meðal annars að keyra upp spennu og dramatík og þessi mynd er engin undantekning. Og þótt maður viti hvernig sagan og hremmingar Philips enda þá breytir það engu um að atburðarásin stigmagnast og nær föstum tökum á manni.

Þegar herinn mætir á svæðið undir lokin teygist aðeins á myndinni og hún verður ögn langdregin þegar hún fer að snúast meira um björgunaraðgerðir hersins en það sem gengur á í sálartetri Phillips og samskiptum hans við ræningjanna fjóra.

Sá mæti leikari Tom Hanks sýnir einhvern besta leik á feril sínum í hlutverki ósérhlífna kapteinsins. Hanks hefur auðvitað fyrir löngu sannað sig sem einn besti leikari Hollywood en hann hefur ekki sýnt jafn góðan leik síðan í Cast Away eða jafnvel Forrest Gump. Hlutverk Phillips er afar krefjandi og Hanks sveiflar sér yfir allan tilfinningaskalann í prísund ræningjanna í þeirri von að hann komist lífs af. Það er fjöldinn allur af kröftugum senum í myndinni en lokasenan hefur gulltryggt Hanks óskarstilefningu á næsta ári.

Fjórmenningarnir sem leika ræningjana, þeir Barkhad Abdi, Barkhad Abdirahman, Faysal Ahmed og Mahat M. Ali, þreyta frumraun sína í kvikmyndaleik og koma á óvart, sérstaklega Abdi í hlutverki foringja hópsins, Muse. Það verður spennandi að sjá hvert leið þeirra liggur héðan í frá en það er alveg öruggt að Abdi á eftir að ná lengra.

Captain Phillips er vönduð og góð mynd sem slagar upp í þær bestu sem Greengrass hefur sent frá sér. Hanks fer á kostum í myndinni og þá einkum í lokaatriðinu sem framkallaði gæsahúð og slíka vellíðunartilfinningu að það hálfa væri meira en nóg. Það kæmi mér ekki á óvart ef myndin yrði áberandi á verðlaunahátíðum á næsta ári í fjölda flokka og það mætti þess vegna, nokkrum mánuðum of fljótt, tilkynna að Hanks sé tilnefndur til Óskarsins. Hann er það að minnsta kosti í mínum huga. 

Leikstjóri: Paul Greengrass
Handrit: Billy Ray, Richard Phillips, Stephen Tatty
Leikarar: Tom Hanks, Barkhad Abdi, Barkhad Abdirahman, Faysal Ahmed, Mahat M. Ali, Cathleen KeenerSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða