A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

City of the Living Dead | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: City of the Living Dead (1980)

28. ágúst '12 12:40 City of the Living Dead

„Þrátt fyrir að vera komin á þrítugsaldurinn þá er City of the Living Dead þessi líka prýðishrollvekja og splatter. Brellurnar eru hrein snilld og þrátt fyrir aldurinn, standa þær enn fyrir sínu.“

Oftar en ekki þegar talað er um ítalska kvikmyndagerð er átt við Fellini, Rosselini, De Sica og Visconti. Sjaldnast skjóta hrollvekjukóngarnir Dario Argento, Lamberto Bava eða Lucio Fulci upp kollinum í hugum fólks en rétt eins og ofangreindir meistarar þá hafa þeir sett sitt mark á kvikmyndagerð. Bara töluvert blóðugra mark.

City of the Living Dead er sú fyrsta í frægum splatter-þríleik Fulcis og fylgdu The Beyond og The House by the Cemetery í kjölfarið. Ári áður en City of the Living Dead kom fram á sjónarsviðið hafði Fulci sent frá sér kvikmyndina Zombie eða Zombie 2 eins og hún var kölluð í ítalíu. Myndin var markaðssett sem sjálfstætt framhald hrollvekjunnar sígildu, Dawn of the Dead, eftir George A. Romero, og var hún meira að segja gerð í óþökk aðstandenda upprunalegu myndarinnar. Fulci er án efa þekktastur fyrir Zombie 2 en enn þann dag í dag er hún eina uppvakningamyndin þar sem uppvakningur gæðir sér á lifandi hákarli.

Þegar City of the Living Dead, eða Paura nella città dei morti viventi eins og hún heitir á ítölsku, kom út var hún bönnuð víða, þar á meðal víðsvegar í Evrópu. Mér þykir ólíklegt að hún hafi ratað hingað heim en hinsvegar mátti finna hana á spólu í rauðu möppunni, meðal splattermynda, hjá Aðalvídeóleigunni. Ástæðan fyrir banninu er góð og gild þar sem Fulci fer langt yfir öll velsæmismörk, sem að vísu þykir hið besta mál í splatter-myndum.

Hér leikur Fulci sér að trúarstefum þar sem það kemur í verkahring prests að opna hlið helvítis til jarðar. Sjálfsmorð prestsins verður til þess að morðalda skellur á smábæ hans og allt stefnir í að óféti Satans nái bólfestu á jörðinni. Fulci má eiga það að hugmyndin að baki myndinni er grípandi en samtöl er ekki upp á marga fiska. Flestar persónurnar eru afar einhliða og flatar en það breytir litlu enda hefur dýpt persóna aldrei verið aðalatriðið í splatter-myndum. Atburðarás og uppákomur eru hinsvegar góðar og flæðið í myndinni er fínt.

Það er ekki að ástæðulausu sem Lucio var kallaður ítalski splatter-kóngurinn og myndin er vel blóðug þar sem eitt atriði gnæfir yfir heildinni en þar grætur stelpa blóði og ælir upp innyflum sínum. Það fór ógeðshrollur um mig yfir þessu atriði og var tilheyrandi hlé tekið á myndinni að því loknu, svona rétt til þess að ná áttum og losna við blóðlyktina úr nösunum. Þá fer einnig nettur hrollur um mann við að sjá prestinn birtast í tíma og ótíma með djöfullegt glott sitt. Annað eftirminnilegt og umdeilt atriði er þegar ungur drengur syngur sitt síðasta í stórri borvél, og er það vel útfært af splatter-kónginum.

Þrátt fyrir að vera komin á þrítugsaldurinn þá er City of the Living Dead þessi líka prýðishrollvekja og splatter. Brellurnar eru hrein snilld og þrátt fyrir aldurinn, standa þær enn fyrir sínu.

Leikstjóri: Lucio Fulci
Handrit: Lucio Fulci og Dardano Sacchetti
Leikarar: Christopher George, Catriona MacColl, Carlo De Mejo, Antonella InterlenghiSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða