A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Cloudy with a Chance of Meatballs 2 | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Cloudy with a Chance of Meatballs 2 (2013)

21. janúar '14 00:31 Cloudy with a Chance of Meatballs 2

„Aðdáendur fyrri myndarinnar þurfa ekki að örvænta þótt nýir leikstjórar hafi tekið við Cloudy with a Chance of Meatballs 2 vegna þess að sami steikti og sprenghlægilegi húmorinn og einkenndi fyrri myndina ræður enn ríkjum.“

Eftir að hafa kaffært heimabæ sinn í risastórum matarafgöngum fær ákáfi vísindamaðurinn Flint Lockwood tækifæri til að starfa með átrúnaðargoði sínu, Chester V., ómeðvitaður um ill áform hans.

Það verður ekki af Cloudy with a Chance of Meatballs frá árinu 2009 tekið að hún er ein fyndasta teiknimynd sem komið hefur í háa herrans tíð. Stór orð en hún stendur fyllilega undir þeim þar sem steiktur og snjall húmorinn nær til áhorfenda á öllum aldri.

Í framhaldsmyndinni er haldið aftur til eyjunnar Shallow Falls þar sem uppfinningin FLDSMDFR hefur leikið lausum hala við gerð risastórra matreiðslurétta, skyndibita, grænmetis og ávaxta. Leikstjórateymið Phil Lord og Chris Miller sem gerði fyrri myndina eru nú fjarri góðu gamni og Cody Cameron og Kris Pearn eru teknir við. Það kemur þó ekki að sök því myndin er stórskemmtileg og fjörug. Kengrugluð uppátæki Flints, sem Bill Hader talar fyrir, eru kostuleg og í raun og veru er allt sem tengist honum gargandi snilld; hvort sem það er fjölskyldan, vinirnir eða uppfinningarnar.

Leikhópurinn samanstendur af þeim Hader, Önnu Faris, James Caan, Benjamin Bratt og Andy Samberg sem fóru einnig með hlutverkin í fyrri myndinni. Hader er óborganlegur í hlutverki Flints og rétt eins og í fyrri myndinni stelur Neil Patrick Harris senunni sem apinn hvatvísi Steve. Að vísu er búið að skipta Mr. T út fyrir Terry Crews sem leikur hlutverkið eins og um Mr. T væri að ræða. Þannig að þetta endar á sléttu.

Aðdáendur fyrri myndarinnar þurfa ekki að örvænta þótt nýir leikstjórar hafi tekið við Cloudy with a Chance of Meatballs 2 vegna þess að sami steikti og sprenghlægilegi húmorinn og einkenndi fyrri myndina ræður enn ríkjum.

Leikstjóri: Cody Cameron, Kris Pearn
Handrit: John Francis Daley, Jonathan M. Goldstein, Phil Lord, Chris Miller, Erica Rivinoja, Judi Barrett, Ron Barrett
Leikarar: Bill Hader, Anna Faris, James Caan, Will Forte, Andy Samberg, Benjamin Bratt, Neil Patrick Harris, Terry Cews, Kristen Schaal



Svarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða