A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Dallas Buyers Club | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Dallas Buyers Club (2013)

14. febrúar '14 16:14 Dallas Buyers Club

„Það sem slær mann fyrst við myndina er sú umbreyting sem Matthew McConaughey hefur gengið í gegnum fyrir hlutverk sitt sem Woodroof. Hann hefur lagt af tugi kílóa og væri óþekkjanlegur ef ekki væri fyrir hið sígilda McConaughey-bros.“

Tilvera glaumgosans og kúrekans Ron Woodroof hrynur þegar hann greinist með AIDS árið 1985. Þegar honum er tjáð að hann eigi aðeins þrjátíu daga eftir grípur hann til sinna ráða og hefur innflutning á ósamþykktum lyfjum sem eiga að halda einkennum sjúkdómsins í skefjum og lengja líf sjúklinga.

Á níunda áratugnum taldi Ronald Regan, Bandaríkjaforseti, AIDS vera vandamál samkynhneigðra en ekki allra hinna. Upplýsingaskylda heilbrigðisyfirvalda og jafnframt ríkisstjórnarinnar brást því almenningi í baráttunni við þennan skæða sjúkdóm og þarna er svartur blettur á forsetatíð leikarans.

Kanadíski leikstjórinn Jean-Marc Vallée leikstýrir Dallas Buyers Club sem byggir á sannri sögu Woodroofs. Vallée gerði meðal annars tímabilsmyndina Young Victoria sem kom fyrir nokkrum árum og ef marka má þessar tvær góðu en ólíku kvikmyndir verður mjög áhugavert að fylgjast með honum í framtíðinni.

Þessi hjartnæma og fallega saga um lífsvilja einstaklings og hjálpsemi hans við aðra er ekki gallalaus og skrifast það einnar helst á persónusköpun Woodroofs. Þegar hann er kynntur til sögunnar er hann fordómafullur drykkjuraftur með hommafóbíu. En viti menn, eftir að hann greinist verða hann og hommarnir bestu vinir enda eru allir menn jafnir. Myndin byggir vitaskuld á raunverulegum einstaklingi og það gæti verið að Woodroof hafi verið svona fráhrindandi og viðskotaillur í raun og veru. Auðvitað er batnandi mönnum best að lifa en þessi ýkta mynd sem dregin er upp af Woodroof hittir mann ekki beinlínis í hjartastað.

Það sem slær mann fyrst við myndina er sú umbreyting sem Matthew McConaughey hefur gengið í gegnum fyrir hlutverk sitt sem Woodroof. Hann hefur lagt af tugi kílóa og væri óþekkjanlegur ef ekki væri fyrir hið sígilda McConaughey-bros. Undirritaður er dyggur aðdáandi leikarans góða sem hefur með hverri myndinni á fætur annarri, undanfarin ár, unnið sig hratt upp metorðsstigann í Hollywood og sýnir hann í Dallas Buyers Club sinn besta leik á ferlinum. Jared Leto er engu síðri sem karlhóran Rayon sem hefur hjarta úr gulli. Bæði McConaughey og Leto hafa verið verðlaunaðir í bak og fyrir, fyrir hlutverk sín í myndinni og ekki kæmi á óvart ef þeir myndu næla sér í sitt hvor Óskarsverðlaunin.

Woodroof er Dallas-kúreki sem gengur í kúrekastígvélum og gallabuxum með hatt á hausnum, sannur karlmaður og er enginn „faggi" að eigin sögn. Hann hangir á baki tryllts nauts og má sjá vissa líkingu milli þess og baráttunnar við sjúkdóminn þar sem hann lætur ekki fleygja sér að baki, berst fyrir lífi sínu og annarra með hörku og útsjónarsemi þegar aðrir bregðast. Í köldum og hörðum heimi er alltaf gott að vita til þess að slíkir menn séu til.

Leikstjóri: Jean-Marc Vallée
Handrit: Craig Borten, Melisa Wallack
Leikarar: Matthew McConaughey, Jared Leto, Jennifer Garner, Steve Zahn, Kevin RankinSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða