A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Django | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Django (1966)

14. janúar '13 16:39 Django

„Tæpri hálfri öld frá útgáfudegi þá er það eitt víst að hrottaskapurinn sem ræður ríkjum í Django virkar enn þann dag í dag.“

Í tilefni frumsýningar nýjustu kvikmyndar Quentins Tarantino, Django Unchained, er tilvalið að skauta yfir spagettí vestrann Django eftir Sergio Corbucci frá árinu 1966. Django Unchained er hvorki framhald né endurgerð á Django heldur er hún ein af fjölmörgum kvikmyndum sem veittu Tarantino innblástur við gerð myndarinnar.

Dularfullur maður verður miðdepillinn í valdabaráttu mexíkanskra bófa og herliðs sem aðhyllist Ku Klux Klan. Maðurinn er ekki allur þar sem hann er séður og á óuppgerðar sakir við herforingjann sem leiðir rasíska herliðið.

Orðatiltækið segir að hver hafi sinn djöful að draga. Django dregur á eftir sér líkkistu með risastórri vélbyssu. Uppúr 1960 var sannkölluð vertíð spagettí vestra. Hver hefndarmyndin á fætur annarri kom frá Ítaíu og voru margar þeirra afurð færibandaframleiðslu. Þó komu þær margar sem lifa enn góðu lífi meðal áhugamanna og þá sérstaklega sem innblástur fyrir seinni tíma kvikmyndagerðarmenn.

Django kom út tveimur árum á eftir A Fistful of Dollars sem er fyrsta innslagið í fyrri dollara-þríleik Sergios Leone. Hún er einn fyrsti spagettí vestrinn sem náði almennilegum vinsældum bæði vestanhafs og í Evrópu. Rétt eins og hún þá hefur Django haft áhrif á fjölda leikstjóra og handritshöfunda.

Þrátt fyrir að vera bönnuð víðast hvar í heiminum fyrir óheflað ofbeldi og hrottaskap þá tóku menn eins og Sam PeckinpahRobert Rodriguez og Tarantion henni opnum örmum og hafa ófá atriði í kvikmyndum þeirra verið vísun í þessa litlu ítölsku og spænsku framleiðslu.

Ekki ólíkt dularfulla einfaranum sem Clint Eastwood lék í kvikmyndum Leone þá er viss sjarmi yfir Franco Nero í hlutverki Django. Söguþráðurinn í myndinni er eins og búast mætti við af spagettí vestra og hún ber öll einkenni tegundarinnar. Þarna eru dularfullur kúreki, hefndin og dama í neyð. Þá er áhugavert að Corbucci skuli hafa kosið að hafa kynþáttaníð og fordóma sem miðdepil stríðsins milli gengjanna tveggja um yfirráðin í bænum.

Það kemur glettilega á óvart hversu ofbeldisfull og gróf myndin er. Í einu atriðinu sker Mexíkani eyrað af manni og skýtur hann svo í bakið. Allt sér til skemmtunar. Þetta atriði varð einmitt til þess að myndin var bönnum í mörgum löndum og Tarantino er sagður hafa fengið hugmyndina að eftirminnilegu atriði í Reservoir Dogs frá þessu atriði.

Django er töluvert frábrugðin þeim spagettí vestrum sem maður hefur kynnst í gegnum tíðina. Aðrir leikstjórar og höfundar hefðu eflaust tekið annan pól í hæðina en tekinn er í Django en þetta skapar henni sérstöðu og það verður sérstaklega gaman að sjá hvernig áhrif myndarinnar á Tarantino skila sér í Django Unchained.

Tæpri hálfri öld frá útgáfudegi þá er það eitt víst að hrottaskapurinn sem ræður ríkjum í Django virkar enn þann dag í dag.

Leikstjóri: Sergio Corbucci
Handrit: Sergio Corbucci og Bruno Corbucci
Leikarar: Franco Nero, José Bódalo, Loredana Nusciak, Ángel ÁlvarezSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða