A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Django Unchained | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Django Unchained (2012)

18. janúar '13 10:35 Django Unchained

„Django Unchained er heilsteyptasta mynd Tarantinos til þessa. Frábær skemmtun og mikil völundarsmíð þar sem Tarantino gjörnýtir hæfni sína á öllum sviðum kvikmyndagerðar. Sumar senurnar eru beinlínis listaverk í sjálfum sér...“

Quentin Tarantino er mikill meistari og höfundarverk hans sem telur nú átta bíómyndir er ævintýralega glæsilegt. Byrjendaverk hans, Reservoir Dogs, frá árinu 1992 er frábær glæpamynd sem stenst tímans tönn og síðan hefur hann ekki stigið feilspor ef við látum eftir okkur að horfa til flippsins Death Proof með blinda auganu. Í Django Unchained tekur hann vestrann sínum einstöku tökum og hefur aldrei verið jafn góður, fyndinn og boðið upp á jafn dásamlega smart ofbeldi.

Tarantino er undrabarn í kvikmyndagerð sem hefur nánast fullkomin tök á miðlinum og öllum þáttum sem þurfa að vera í lagi til þess að úr verði gott bíó. Maðurinn er fáránlega vel að sér í kvikmyndasögunni og svo vel séður að hann getur sáldrað vísunum í allar áttir eins og viskubrunnur hans sé botnlaus. Hann skrifar mögnuð samtöl sem mætti segja að væru hans helsti styrkur ef hann væri ekki einnig séní í útfærslu á öllum gerðum ofbeldis en þar tekst honum alltaf að finna nýja nálgun á margtuggna blóðmörina í bíómyndum. Síðan velur Tarantino tónlist við myndir sínar af ótrúlegri kostgæfni, smekkvísi og yfirburða þekkingu. Og til þess að sprengja nú endanlega yfirfullt hnappagat hans af blóðugum og groddalegum rósum er rétt að halda því til haga að Tarantino er snillingur í leikaravali og hefur einstakt lag á því að ná öllu því besta út úr leikurum sínum.

Django Unchained er skotheld mynd í alla staði en úrvalslið leikara og frábær tilþrif þeirra lyfta henni í hæstu hæðir. Fyrstan ber að nefna þann mikla snilling Christoph Waltz sem toppar hér sjálfan sig í Inglorious Basterds. Waltz er hreint út sagt æðislegur í hlutverki þýska mannaveiðarans Dr. King Schultz sem er í senn banvænn byssumaður og mælskusnillingur mikill. Hrein unun er að hlýða á hann fara með snilldarlega skrifaðar línur Tarantinos og þótt myndin hverfist um hefndarleiðangur þrælsins Django þá er Schultz kjölfestan í myndinni. Eini heilsteypti og heiðarlegi einstaklingurinn í þessu galleríi ribbalda sem Tarantino teflir fram. Evrópumaður í hópi siðvilltra Bandaríkjamanna. Í Schultz er fólginn samtímaspegill sem Könum þykir væntanlega lítið spennandi að skoða sig í.

Jamie Foxx leikur Django, sem Schultz frelsar úr hlekkjum þrælasala og fær með sér á mannaveiðar. Þegar þeir félagar hafa lokið nokkrum ábatasömum drápum ætla þeir sér að bjarga eiginkonu Djangos sem er í ánauð hjá hinum einstaklega ógeðfellda plantekrueiganda Calvin Candie, sem Leonardo DiCaprio leikur með tilþrifum. Foxx hefur aldrei verið betri og nýtur sín í botn í hlutverki þrælsins sem reynist skjótari en skugginn að skjóta þegar á reynir. Samuel L. Jackson sýnir síðan stórkostlegan gamanleik sem gamall og útsmoginn bryti Candie.

Þessir fjórir leikarar fara að slíkum kostum að maður situr í gæsahúð myndina út í gegn og einhvern veginn sést langar leiðir að þeir skemmta sér konunglega undir stjórn Tarantinos. Kerry Washington er stórfín í hlutverki ambáttarinnar Broomhildu sem byssubrandarnir tveir ætla að bjarga og Walton Goggins, Bruce Dern, M.C. Gainey og James Russo klikka ekki í smærri hlutverkum enda er hvergi veikan hlekk að vinna í leikarakeðju Tarantinos.

Jonah Hill á stuttan en óborganlegan sprett í fyndnasta atriði myndarinnar, stofnfundi Ku Klux Klan, sem á eftir að festa sig á spjöld kvikmyndasögunnar sem eitthvert besta grín sem sést hefur í bíó. Enginn nema Tarantino gæti tekið fúlan fimmaurabrandara og teygt hann upp í aðra eins snilld. Þá er óhjákvæmilegt annað en að minnast sérstaklega á Miami Vice-kappann Don Johnson sem fer hamförum sem snobbaður og andstyggilegur þrælahaldari. Stórleikur þar á ferð!

Django Unchained er heilsteyptasta mynd Tarantinos til þessa. Frábær skemmtun og mikil völundarsmíð þar sem Tarantino gjörnýtir hæfni sína á öllum sviðum kvikmyndagerðar. Sumar senurnar eru beinlínis listaverk í sjálfum sér, æðislega stílfærðar og sjónrænar upplifanir þar sem sumir stakir rammar eru svo útpældir og töff að það mæti setja þá í ramma og hengja upp sem listaverk. Sem myndin í heild í raun er.

Tarantino er meistarinn!

Leikstjóri: Quentin Tarantino
Handrit: Quentin Tarantino
Leikarar: Jamie Foxx, Christoph Waltz, Leonardo DiCaprio |Svarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða