A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Edge of Tomorrow | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Edge of Tomorrow (2014)

24. júní '14 16:19 Edge of Tomorrow

„Edge of Tomorrow er sannkallaður sumarsmellur af bestu gerð...“

Óreyndur hermaður er fastur í tímalykkju og upplifir dauða sinn aftur og aftur í baráttu við slóttugar geimverur. Með hverju dauðsfalli lærir hann eitthvað nýtt og verður betri og betri hermaður.

Í fljótu bragði mætti halda að hér sé á ferðinni hálfgerð endurgerð gamanmyndarinnar sígildu Groundhog Day. Þar fór Bill Murray með hlutverk veðurfréttamanns sem upplifði sama ömurlega daginn aftur og aftur. Nema núna upplifir Tom Cruise sama daginn aftur og það með geimverum.

Edge of Tomorrow byggir á bókinni All You Need is Kill eftir Hiroshi Sakurazaka sem varð að samnefndri magna-myndasögu. Doug Liman, sem þekktastur er fyrir Swingers, Go og The Bourne Identity, leikstýrir vísindaskáldskapnum sem sem reynist vera fantagóður framtíðarhasar með vænni slettu af húmor. Edge of Tomorrow er í ljósi ferils hans ansi ólíklegt verkefni fyrir leikstjórann en hann kemur aldeilis á óvart og stimplar sig rækilega inn sem hasarleikstjóri.

Leikstjórinn Harold Ramis heitinn sagði að hann teldi að persóna Murrays úr Groundhog Day hafi upplifað sama daginn í tíu ár. Ekki þætti það mér ólíklegt að persóna Cruise hafi gert hið sama ef marka má þróun hans sem úrræðagóður og snjall hermaður. Þótt sami dagurinn sé margsinnis upplifaður er ótrúlegt hversu oft atburðarásin kemur á óvart og lítið er um endurtekningar.

Cruise er í bullandi ham í myndinni og ekki að sjá á kempunni að hann sé kominn yfir fimmtugt. Ekki er Emily Blunt neitt síðri og kemur svo sterk inn að Cruise má hafa sig allan við til þess að falla ekki í skuggann. Fjöldi fyndinna uppákoma  hverfast í kringum Bill Paxton sem stendur alltaf fyrir sínu sem týpískur asni sem reynir að stappa stálinu í persónu Cruise. 

Hönnun geimveranna, eða hermivera, eins og þær kallast, eru með frumlegri og flottari hönnun slíkra vera í fjölmörg ár. Útlitið og hreyfingarnar eru þannig að þegar þeim bregður snögglega fyrir í hröðum skotbardögum er varla hægt að taka augun af þeim. Tæknibrellur, hljóðvinnsla og kvikmyndataka eru til fyrirmyndar og þá sérstaklinga klippingin sem þeytir frásögninni áfram og heldur henni ferskri, spennandi og fyndinni.

Edge of Tomorrow er sannkallaður sumarsmellur af bestu gerð og væri ég alveg til í að horfa á hana dag eftir dag, þangað til að ég kann hana utan að. Og þó.

Leikstjóri: Doug Liman
Handrit: Christopher McQuarrie, Jez Butterworth, John-Henry Butterworth, Hiroshi Sakurazaka
Leikarar: Tom Cruise, Emily Blunt, Brendan Gleeson, Bill PaxtonSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða