A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Escape Plan | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Escape Plan (2013)

11. nóvember '13 14:52 Escape Plan

„Sagan er þunn og handritið hriplekt og fullt af hallærislegum línum sem engir nema þessir kappar kæmust upp með að láta frá sér fara.“

Ætli maður sé ekki búinn að bíða í svona um það bil þrjátíu ár eftir Escape Plan. Kannski þó ekki nákvæmlega þessari mynd, heldur því að fá að sjá Arnold Schwarzenegger og Sylvester Stallone saman í hasarmynd (The Expendables-myndirnar teljast ekki með enda Arnold þar í algeru aukahlutverki). Og nú er loksins komið að þessu og þessar vösku og vöðvamiklu kaldastríðshetjur æaskuáranna svíkja mann sko ekki.

Escape Plan er alls ekki merkilega mynd, frekar en megnið af því sem þessir kappar hafa sent frá sér hvor í sínu lagi í gegnum árin. En þeirra kunna að skemmta sínu fólki og gera það sem þeir hafa alltaf gert með sóma þótt þeir séu fyrir löngu komnir af léttasta skeiði. Með illum vilja mætti alveg segja að Escape Plan sé drasl en mér dettur það ekki til hugar þar sem ég skemmti mér stórvel yfir karlagrobbinu og barsmíðum minna manna. Maður getur samt varla mælt með myndinni með góðri samvisku nema fyrir unglinga níunda áratugarins og illa læsa unglinspilta samtímans. Þessir hópar verða ekki sviknir. Svo mikið er víst.

Stallone leikur Ray Breslin sem er sérfræðingur í að strjúka úr fangelsum og starfar við að láta loka sig inni til þess eins að finna veilur í öryggi fangelsanna, strjúka og benda yfirvöldum á það sem betur má fara. Hann kemst síðan í vonda klemmu þegar hann er fenginn til að spreyta sig á rammgerðasta fangelsi sem sögur fara af vegna þess að þeir sem senda hann þangað hafa ekki í hyggju að leifa honum að líta dagsljósið framar.

Þegar Breslin áttar sig á hversu þröngri stöðu hann er í neyðist hann til þess að vingast við fangann Emil Rottmayer og í honum mætir Arnold loksins til leiks. Saman leggja þeir á ráðin um að brjótast út úr þessari djöfullegu útgáfu af Guantanamo en Rottmayer er að sjálfsögðu býsna góður kall, eins og Breslin, á hefur ekkert unnið til þess að vera látinn dúsa í vítisholunni.

Stallone er alltaf dálítið stressaður yfir því að hann sé ekki alveg aðal og er dálítið trekktur í hlutverki Breslins. Hann er þó sjálfum sér líkur og fer fyrirhafnarlaust í gegnum slagsmálin og mannraunirnar sem þarf til þess að losna úr prísundinni. Arnold tekur allt annan pól í hæðina og hefur vit á að taka hvorki sjálfan sig né myndina of hátíðlega og fer á kostum í fantastuði.

Stallone kærði sig ekkert um að leika á móti Arnold á gullaldarárum þeirra og miðað við frammistöðu þeirra hér hefur það verið rétt metið hjá honum. Schwarzenegger ber af og fer létt með að stela myndinni frá Sly sem hefur þó bæði fleiri línur og meiri tíma á tjaldinu.

Myndin er feykilega vel mönnuð í smærri hlutverkum. Sam Neill er alltaf traustur, sá frábæri leikari Vincent D'Onofrio er alltaf prýði og svo er fótboltabullann Vinnie Jones ansi grimmur sem aðal sadistinn í fangavarðaliðinu. Hann þarf að vísu ekkert að gera nema vera hann sjálfur en það fer honum svo assgoti vel. Jesús Kristurinn hans Mels Gibsons, Jim Caviezel, kemur svo ánægjulega á óvart í hlutverki rakins illmennis sem rekur fangelsið.

Sagan er þunn og handritið hriplekt og fullt af hallærislegum línum sem engir nema þessir kappar kæmust upp með að láta frá sér fara. Spennan og slagsmálin eru gamaldags og notaleg og gætu alveg eins verið úr 80's myndunum þeirra. En fyrir þá sem kunna slíkt að meta er Escape Plan prýðileg skemmtun og maður þarf að vera alveg tilfinningalaus til þess að fá ekki gæsahúð þegar Arnie splæsir í: „Have a nice day, asshole,“ með sínum dásamlega hreimi.

Leikstjóri: Mikael Håfström
Handrit: Miles Chapman, Jason Keller, Miles Chapman
Leikarar: Sylvester Stallone, Arnold Schwarzenegger, Jim Caviezel, Amy Ryan, Sam Neill, Vincent D'Onofrio, Vinnie JonesSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða