A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Evil Dead | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Evil Dead (2013)

3. maí '13 18:49 Evil Dead

„Keyrt er áfram á djöfulgangi og blóðsúthellingum en sagan kemst ekki lengra og spólar í blóðpollinum.“

Fimm vinir berjast fyrir lífi sínu í afksekktum kofa úti í skógi eftir að hópurinn kemst yfir ævaforna bók hinna dauðu.

„Í skóginum stóð kofi einn..." Flestir hrollvekjuaðdáendur þekkja til Evil Dead-myndanna þriggja sem Sam Raimi gerði, eða hafa að minnsta kosti séð þær myndir sem hún veitti innblástur. Stíll myndanna þriggja var jafn fjölbreyttur og þær margar þar sem fyrsta myndin var hrollvekja, sú önnur gaman-splatter og sú þriðja ævintýra- og gamanmynd með hrollívafi. Upprunalega myndin er ekkert tímamótaverk en hefur aftur á móti lifað ágætu lífi meðal annarra költ-mynda.

Það er ekki nýtt af nálinni þegar kemur að endurgerð eldri hrollvekja og í raun var aðeins tímaspursmál hvenær gengið yrði í að endurgera fyrstu Evil Dead-myndina. Raimi sjálfur gerði sér lítið fyrir og endurgerði sína eigin mynd sem Evil Dead II enda býður upprunalega myndin upp á ýmsa möguleika. Á síðasta ári kom hrollvekjan The Cabin in the Woods þar sem lýst var yfir stríði á hendur klisjum og var sú upprunalega og „kofa-hrollurinn" tekinn eftirminnilega fyrir.

Evil Dead hans Fede Alvarez er ekki beint endurgerð og þar er komið að kofanum úr nýrri átt sem og bókinni hryllilegu. Sama hugmynd, sami kofi, meiri djöfulgangur og töluvert meira blóð. Og vel á minnst, hér er enginn Ash. Söguþráðurinn er þunnur og er meirihluti myndarinnar gengur út á öskur og hamagang. Persónusköpun er lítil sem engin og það hefði verið gaman ef atburðarásin hefði rist dýpra.

Hér gengur þó vel að hræða mannskapinn með truflað vel gerðum praktískum tæknibrellum og engu er til sparað þegar kemur að blóðsúthellingum og hrottaskap. Útlimir fá að fjúka, tunga er skorin í tvennt, andlit er sargað af með glerbroti ásamt öðrum ljótum en skautlegum uppákomum. Óhugnaðurinn er á mörkunum þess að vera áhorfendum boðlegur en aðstandendur skortir ekki hugmyndaflugið og til þess er leikurinn einmitt gerður. Leikhópurinn, sem samanstendur af Jane Levy, Shiloh Fernandez, Lou Taylor Pucci, Jessica Lucas og Elizabeth Blackmore, gerir sitt og er vinunum fimm misþyrmt og slátrað áhorfendum til skemmtunnar.

Aðstandendum tekst að hrella áhorfendur og þar með er tilgangi þeirra náð með Evil Dead sem hefur annars litlu við frummyndina að bæta. Efniviðurinn úr þeirri upprunalegu er alveg til staðar en virkar ögn fúinn í endurgerðinni. Keyrt er áfram á djöfulgangi og blóðsúthellingum en sagan kemst ekki lengra og spólar í blóðpollinum.

Leikstjóri: Fede Alvarez
Handrit: Fede Alvarez, Rodo Sayagues, Sam Raimi
Leikarar: Jane Levy, Shiloh Fernandez, Lou Taylor Pucci, Jessica Lucas, Elizabeth BlackmoreSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða