A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Fletch | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Fletch (1985)

9. maí '14 13:28 Fletch

„Því miður er myndin bara ekki jafn góð og þegar ég var fjótán ára. Sorrí. Stelpan sem horfði á hana með mér þá er líka fyrir lifandis löngu skilin við mig og ég vildi eiginlega óska þess að ég hefði sleppt því að horfa á Fletch aftur. “

Bandaríski glæpasagnahöfundurinn Gregory Mcdonald skrifaði nokkrar bækur um rannsóknarblaðamanninn Irwin Maurice Fletcher, sem vildi þó aldrei láta kalla sig annað en Fletch. Fyrsta bókin, Fletch, kom út 1974 og ellefu árum síðar birtist Chevy Chase sem Fletch í bíó.

Vinsældir Chase voru á þessum tíma í hámarki enda myndir eins og Caddyshack, Foul Play og National Lampoon's Vacation að baki. Sagan segir að Chase hafi aldrei skemmt sér jafn vel við gerð nokkurrar myndar og Fletch, sem er kannski ekki furða þar sem hann fær að bregða sér í alls konar gervi og fíflast með örlítið meiri alvörutón er áður.

Stuðið á Chase hefur greinilega smitað út frá sér þegar myndin kom út vegna þess að þegar hún er skoðuð núna, tæpum þrjátíu árum síðar, er hún eiginlega bara ekkert spes. Hún gengur í raun bara út á það að Chase gengur voðalega mikið, rekst á alls konar fólk, bregður sér í allra kvikinda líki, gerir sér upp kjánaleg nöfn og talar heil ósköp. Allt við undirleik Harolds Faltermeyer en í dag er synthesiseglamrið hans eiginlega það skemmtilegasta við myndina og óhjákvæmilega það sem helst kallar fram nostalgíuna.

Mér þykir sárt að segja það en ég varð fyrir miklum vonbrigðum með Fletch núna og ég man ekki betur en mér hafi þótt hún helvíti góð 1985. Breyttir tímar, aðrar kröfur? Veit það ekki, en þá er hún ekki klassík.

Sagan gengur annars út á það að hinn magnaði rannsóknarblaðamaður Fletch hefur hangið á ströndinni í Los Angeles og þóst vera dópisti til þess að reyna að fletta ofan af umfangsmiklum fíkniefnaviðskiptum í flæðarmálinu. Einn daginn kemur auðmaður að máli við hann og biður hann um að myrða sig gegn vænni greiðslu. Millinn segist vera undirlagður af krabbameini og til þess að ekkja hans fái greidda líftryggingu sé ekki um annað að ræða en láta kála sér.

Manngarmurinn veit auðvitað ekki að Fletch er eldklár blaðamaður en ekki eitthvert útigangsfífl. Fletch hættir auðvitað strax að leika róna og fer að rannsóknarblaðamannast og kemst að því að maðurinn sem vill að hann drepi sig er stálhraustur. Í framhaldinu sekkur Fletch dýpra og dýpra ofan í pólitíska spillingu, dópdíla og alls konar hættuspil en djókar sig í gegnum þetta allt saman þangað til hann hnýtir alla enda saman í býsna ódýrum endi og skilar enn einu skúbbinu.

Grunnurinn er í raun fínn og sagan mátulega snjöll en ómarkviss dans milli gríns og spennu verður til þess að myndin rennur út í frekar óspennandi þvælu. Og því miður er það fyrst og fremst Chase, eins geðþekkur og hann nú samt er sem Fletch, sem er veikasti hlekkurinn. Með aðeins meiri hörku og minni áherslu á stjörnu myndarinnar hefði þetta verið stöngin inn.

Auk Faltermeyers kynda svo George Wendt (Norm í Cheers) og Geena Davis undir fortíðarþrána. Wendt leikur Fat Sam, sem dílar með dóp á ströndinni, en gerir annars nákvæmlega það sama og Norm. Situr kyrr á sama stað og er feitur. Hann er samt miklu fyndnari í Cheers. Geena er svo þarna kornung og full af eldmóði í hlutverki Larrys, félaga Fletch á ritstjórninni.

Því miður er myndin bara ekki jafn góð  og þegar ég var fjótán ára. Sorrí. Stelpan sem horfði á hana með mér þá er líka fyrir lifandis löngu skilin við mig og ég vildi eiginlega óska þess að ég hefði sleppt því að horfa á Fletch aftur. 

 

Leikstjóri: Michael Ritchie
Handrit: Andrew Bergman,(Gregory McDonald)
Leikarar: Chevy Chase, Joe Don Baker, George Wendt, Dana Wheeler-Nicholson, Geena DavisSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða