A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Flight | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Flight (2012)

23. febrúar '13 21:21 Flight

„Zemeckis er í stuði, Denzel er frábær og dyggilega studdur þéttum aukaleikurum eru hann og leikstjórinn hársbreidd frá því að gera frábæra mynd og sem alkamynd flýgur hún hátt yfir allt sem gert hefur verið í þeirri oft á tíðum skuggalega súru deild.“

Sá ágæti leikstjóri Robert Zemeckis hefur fyrir löngu sýnt og sannað að hann ræður vel við ólíkar kvikmyndagreinar og varla er í fljótu bragði hægt að sjá að What Lies Beneath, Forrest Gump og Back to the Future eigi neitt sameiginlegt nema leikstjórann. Zemeckis hefur undanfarin ár (því miður) verið fastur í þreytandi tölvuteiknirúnki sem byrjaði með The Polar Express, síðan tússaði hann með tölvugrafík yfir Angelinu Jolie í Beowulf og hélt síðan áfram og krotaði yfir Jim Carrey í A Christmas Carol.

Með Flight stígur Zemeckis loksins aftur yfir í kjötheima og sýnir með almennilegri „fullorðins mynd” að hann hefur engu gleymt þegar kemur að flottum skotum, dramatík og spennu. Til þess að taka af öll tvímæli um að hann sé kominn aftur býður hann upp á ber brjóst, skapahár úr fókus, áfengi og dóp í upphafsatriði Flight. Þetta er fullorðins og komi hann fagnandi!

Flight byrjar á því að flugstjórinn Whip Whitaker (Washington) rankar við sér á hótelherbergi eftir hressa nótt með flugfreyju. Þau eiga að mæta í flug eftir tvo klukkutíma þannig að ekkert annað kemur til greina en að fá sér jónu og smá kók í nös til þess að koma sér í gang.

Whitaker er helvíti drjúgur með sig og ætlar sér að klára flugið sofandi á sjálfstýringu og eftir að hann hefur fengið kaffið sitt og hausverkjatöflurnar blandar hann sér smá vodka í appelsínudjús og allt lítur þetta bara helvíti vel út þangað til meiriháttar vandræði og vélarbilun koma upp í aðflugi þannig að okkar maður þarf að hrista af sér slenið.
Með snarræði og smá fífldirfsku nær hann að afstýra stórslysi þannig að aðeins sex manns láta lífið í harkalegri brotlendingu. Fjölmiðlar hampa honum sem hetju en sú ímynd hrynur þegar í ljós kemur að í blóði hans kraumaði áfengi og kókaín þegar hann framdi hetjudáðina. (Kannski tókst honum þetta einmitt vegna þess að hann var vímaður en það er önnur saga).

Whip hefur því hangandi yfir sér opinbera rannsókn og hugsanlegan fangelsisdóm fyrir manndráp af gáleysi en hann lætur sér þó ekki segjast, brynjar sig hrokanum og afneitun alkans og heldur áfram að djúsa. Flight byrjar frábærlega og flugslysið er meiriháttar og í því atriði hnyklar Zemeckis heldur betur vöðvana en síðan tekur í raun við ósköp hefðbundin alkasaga um mann sem spriklar á móti hugmyndinni um að hann eigi við vandamál að stríða og er því dæmdur til þess að finna botninn sinn. Zemeckis reynir þó eftir fremsta megni að stýra fram hjá klisjum en það er vitaskuld vonlaust þar sem allir alkar og vandamál þeirra eru ein stór klisja enda er því haldið fram í “alkafræðunum” sem eru eignuð þeim Bill og Bob að allir alkar séu í raun eins.

Þetta breytir sem betur fer engu um að Flight er hörkugóð mynd. Washington klikkar ekki frekar en fyrri daginn og hann er í raun aldrei betri en þegar hann leikur menn með skuggahliðar (Training Day, American Gangster, Man on Fire) og hann sýnir magnaðan leik í hlutverki Whitakers.

Saman við hrakfarasögu flugstjórans fléttast ástarsamband hans við sprautufíkil í bata og þar kemur Kelly Reilly firnasterk inn sem ástarviðfangið. Þá eru toppmenn eins og Don Cheadle, Bruce Greenwood og John Goodman skotheldir í mikilvægum aukahlutverkum og Goodman stelur senunni sem fyrr í hlutverki dílers Whitakers. Magnaður leikari í alla staði og óforbetranlegur senuþjófur.

Þannig að. Zemeckis er í stuði, Denzel er frábær og dyggilega studdur þéttum aukaleikurum eru hann og leikstjórinn hársbreidd frá því að gera frábæra mynd og sem alkamynd flýgur hún hátt yfir allt sem gert hefur verið í þeirri oft á tíðum skuggalega súru deild.

Leikstjóri: Robert Zemeckis
Handrit: John Gatins
Leikarar: Denzel Washington, Nadine Velazquez, John Goodman, Bruce Greenwood, Don CheadleSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða