A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Freddy vs. Jason | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Freddy vs. Jason (2003)

13. apríl '12 21:42 Freddy vs. Jason

„Þá tekur þessi mynd unglingahefðina með trompi og sýnir meiri nekt en gengur og gerist í hryllingsmyndum af þessu tagi. Þetta er vel til fundið þar sem kynlífið er alltaf í brennidepli og ber brjóst eiga hvergi betur við í bíó en í blóðugum gelgjumyndum af þessu sauðahúsi.“

Freddy Krueger og Jason Voorhees eru ásamt Michael Myers úr Halloween-myndunum lífseigustu unglingamorðingjar hryllingsmynda síðustu áratuga. Þeir eiga allir sinn myndabálk og þótt þeir hafi  verið drepnir í lok ótal mynda um föstudaginn þrettánda, hrekkjavökur og martraðir á Álmstræti þá koma þeir alltaf aftur. Alltaf!

Gallinn við þessar tíðu upprisur er þó sá að myndirnar verða alltaf þynnri, leiðinlegri og minna spennandi eftir því sem óbermin rísa oftar upp. Þess vegna var kannski ekkert svo galið að hressa aðeins upp á þetta með því að leiða þá Freddy og Jason saman í mynd. Slíkt bíður upp á smá tilbeytingu og það er pínu hressandi að sjá þá kauða reyna að kála hvor öðrum á milli þess sem þeir fara í gegnum gömlu rútínuna að salla niður unglinga sem reykja, hass, drekka og stunda kynlíf.

Þrátt fyrir þennan illmennafund er þó ekkert nýtt á ferðinni hérna enda varla hægt að ætlast til þess þar sem gamalreynd formúlan virðist alltaf skila framleiðendum mynda af þessu tagi nægum peningum í kassann. Hér vekur Freddy Jason til lífsins og fær hann til að hrella unga fólkið til þess að ótti þess blási Freddy sjálfum nýjum drápsanda í brjóst en hann er öllum gleymdur og því hættulaus í upphafi myndarinnar.

Þetta lullar allt sinn vanagang fram að hléi og ekkert útlit fyrir annað en hefðbunda blóðslettuládeyðu og helstu tíðindin eru þau að brjóstin á aðalleikkonunum hafa tekið vaxtarkipp og hafa sjaldan verið meira áberandi. Þá tekur þessi mynd unglingahefðina með trompi og sýnir meiri nekt en gengur og gerist í hryllingsmyndum af þessu tagi. Þetta er vel til fundið þar sem kynlífið er alltaf í brennidepli og ber brjóst eiga hvergi betur við í bíó en í blóðugum gelgjumyndum af þessu sauðahúsi.

Þegar hagsmunaárekstrar morðingjanna verða svo alvarlegir æsist leikurinn heldur betur og viðureign þeirra er bráðskemmtileg. Þetta er auðvitað allt meira fyndið en hræðilegt en það er ekki hægt annað en að hafa gaman að dellunni. Freddy er alltaf hress og reytir af sér brandarana á meðan hann sveiflar beittum klónum og hann fær óhindrað að stela senunni þar sem Jason segir aldrei aukatekið orð.

Freddy er líka flottari persóna; óskilgetin sonur fjölda morðingja og geðsjúklinga sem nauðguðu nunnunni, móður hans, þegar hún læstist inn á geðdeild í den. Það er því skemmtilegt að fá að sjá Robert Englund, án gervis, í forleik myndarinnar þar sem dauða Freddys eru gerð skil. Annars er þetta bara sama gamla sagan og Jason er bara Jason. Líka þegar föstudaga ber upp á þrettánda.
 

Leikstjóri: Ronny Yu
Handrit: Damian Shannon, Mark Swift
Leikarar: Robert Englund, Ken Kirzinger, Kelly RowlandSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða