A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

G.I. Joe: Retaliation | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: G.I. Joe: Retaliation (2013)

8. apríl '13 16:55 G.I. Joe: Retaliation

„G.I. Joe: Retaliation er nákvæmlega það sem lítur út fyrir að vera og þykist ekki vera neitt annað. Myndin er hávær, órökrétt og kaostísk þvæla sem reynist vera fáránlega skemmtileg og fyndin.“

Forseti Bandaríkjanna fyrirskipar að meðlimir G.I. Joe-dátahópsins skuli vera drepnir. Með þessum svikum er höggvið stórt skarð í hópinn en í ljós kemur að meðlimur Cobra-samtakanna, dulbúinn sem forsetinn, stendur að baki árásinni. Þrír meðlimir hópsins lifa árásina af og eru staðráðnir í að fletta ofan af falska forsetanum og bjarga heiminum frá tortímingu.

Fyrir þá sem ekki þekkja til byggja myndirnar um G.I. Joe-dátanna á samnefndum leikfangaköllum frá framleiðandanum Hasbro. G.I. Joe: Retaliation fylgir atburðum kvikmyndarinnar G.I. Joe: The Rise of the Cobra frá 2009 fast eftir. Fyrri myndin er í mínum bókum fyrirtaks heiladauð afþreying og tekst vel til hjá leikstjóranum Jon. M. Chu með framhaldsmyndinni.

Ekki snefil af skynsemi eða rökhugsun má finna í G.I. Joe: Retaliation og það er einmitt það sem er svo fáránlega skemmtilegt við hana. Í myndinni má finna snargeggjuð farartæki, háskaleiki milli ninja í klettaklifri, vélflugur sem eru í raun sprengjur, gervihnettir hlaðnir sprengjum og auðvitað er allt sprengt í tætlur. Þeir áhorfendur sem hafa engan áhuga á slíku geta sparað sér peninginn og haldið sig heima fyrir.

Dwayne Johnson ryðst af krafti inn í framhaldsmyndina án þess að hafa leikið í þeirri fyrri og lífgar allsvakalega upp á hana. Almennt séð mætti hann taka að sér að leika í framhaldsmynd og taka til hendinni þar sem þetta er þriðja myndin á stuttum tíma þar sem hann leikur í framhaldsmynd án þess að hafa verið með í forveranum. Hinar eru Fast Five og Journey 2 sem eru báðar betri en fyrri myndirnar.

Channing Tatum lítur stutt inn í byrjun myndarinnar en hún hverfist um morðið á honum og fjölda G.I. Joe-dáta. Tatum og Johnson slá á létta strengi og deila fyndnum senum saman. Bruce Willis er áþekkt flatur hér og í Red og A Good Day to Die Hard. Þá leikur Jonathan Pryce forseta Bandaríkjanna og RZA skýtur uppi kollinum sem blindur gamall spekingur.

G.I. Joe: Retaliation er nákvæmlega það sem lítur út fyrir að vera og þykist ekki vera neitt annað. Myndin er hávær, órökrétt og kaostísk þvæla sem reynist vera fáránlega skemmtileg og fyndin. Með öðrum orðum er myndin nákvæmlega eins og búast mætti við af kvikmynd sem er byggð á leikfangaköllum. Þeir sem hafa nákvæmlega engan áhuga á því öllu saman ættu að halda sig fjarri. Er farinn út í búð að kaupa G.I. Joe leikfangakalla!

Leikstjóri: Jon M. Chu
Handrit: Rhett Reese, Paul Wernick
Leikarar: Dwayne Johson, Ray Stevenson, Bruce Willis, Adrianne Palicki, Channing Tatum, Ray Park, Jonathan Pryce, Walton Goggins, Arnold Vosloo, D.J. Cotrona, RZASvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða