A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Gravity | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Gravity (2013)

25. október '13 11:59 Gravity

„Gravity er sannkölluð rússíbanaferð um himingeiminn og með henni hefur Cuarón brotið niður veggi og opnað nýjar víddir.“

Tveir geimfarar geta litla björg sér veitt þegar gervihnöttur eyðileggur geimfar þeirra og reka þau stefnulaust um óravíddir alheimsins.

Hafi komið út mynd á þessu ári sem algert skilyrði er að sjá í kvikmyndahúsi þá er það spennutryllirinn Gravity. Mexíkóski leikstjórinn og handritshöfundurinn Alfonso Cuarón gerir þessa einstöku mynd og nýtir möguleika kvikmyndatjaldsins, hljóðkerfis og þrívíddar út í ystu æsar svo úr verður mögnuð upplifun.

Í fljótu bragði virðist lítið vera spunið í söguþráð Gravity; „Geimfarar á þvælingi úti í geimi,“ en án þess að kafa neitt nánar í söguþráðinn þá er það eins mikil einföldun og að segja að Jurassic Park fjalli um risaeðlur þegar mannlegi þátturinn er það sem vegur þyngst. Og í báðum tilfellum, tæknibrellurnar. Best er að vita sem minnst um atburðarás og söguþráð þessarar myndar sem feðgarnir Alfonso og Jonás Cuarón skrifa, og láta einfaldlega koma sér á óvart.

Kvikmyndir Cuaróns, eins og Children of Men og Y Tu Mamá También, eru jafn fjölbreyttar og þær eru margar og er Gravity þar engin undantekning. Myndin er í grunninn tvíleikur þar sem atburðarásin er keyrð upp á fyrstu mínútu og keyrð í botn til þeirrar síðustu. Myndin er aðeins níutíu mínútur að lengd og skiptist athyglin í þrennt milli Söndru Bullock, George Clooney og gullfallegs tölvugerðs útsýnis sem gæti þessvegna verið alvöru. Hvenær verða kvikmyndir teknar út í geimi?

Tæknibrellurnar í Gravity eru einhverjar þær flottustu sem sést hafa. Með aukinni dýpt þrívíddarinnar er engu líkara en áhorfendur reiki um töfrandi og ógnvænlegan geiminn. Þyngdarleysið er svo raunverulegt að myndin gæti þessvegna verið tekin upp í undirbúningsþjálfuninni hjá NASA. Það kæmi mér ekki á óvart að eftir einhver ár verði horft til baka á Gravity og hún talin hafa markað þáttaskil í tæknibrellum í kvikmyndum rétt eins og Terminator 2: Judgement Day, Jurassic Park og The Matrix.  Með stórmagnaðri myndatöku upplifa áhorfendur sömu ringulreið, vonleysi og hræðslu og geimfararnir tveir.

Bullock og Clooney eru stórgóð í hlutverkum geimfaranna tveggja og í raun erfitt að segja meira um leik þeirra án þess að brjóta söguþráðinn til mergjar. Persóna Clooneys Matt Kowalski er einkum viðkunnaleg og læknirinn Ryan Stone, sem Bullock leikur, er eins og fiskur á þurru landi í sinni fyrstu geimferð. Í erfiðu atriði bendir Kowalski Stone á þá óumdeildu staðreynd að við deyjum öll, og að það sé undir okkur komið hvernig við lifum lífinu. Þetta atriði vekur mann vissulega til umhugsunar um hversu dýrmætt en jafnframt hverfult lífið er.

Eins og áður segir er Gravity mynd sem skilyrðislaust á að sjá í kvikmyndahúsi. Myndin er sannkallað augnakonfekt, hljómar stórkostlega og er bæði taugatrekkjandi og falleg ásýndar. Og ekki er boðskapurinn neitt síðri. Gravity er sannkölluð rússíbanaferð um himingeiminn og með henni hefur Cuarón brotið niður veggi og opnað nýjar víddir.

Leikstjóri: Alfonso Cuarón
Handrit: Alfonso Cuarón, Jonás Cuarón
Leikarar: Sandra Bullock, George ClooneySvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða