A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Harry & Heimir: Morð eru til alls fyrst | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Harry & Heimir: Morð eru til alls fyrst (2014)

26. apríl '14 14:17 Harry & Heimir: Morð eru til alls fyrst

„Tæknileg útfærsla sögunnar er stundum alveg frábær og það er ekki annað hægt en dást að snjöllum lausnum og hugmyndaauðgi þegar kemur að því að skapa Harry og Heimi þá umgjörð sem varð til svo áreynslulaust í kringum þá í útvarpinu.“

Ferill þeirra Spaugstofumanna, Karls Ágústs Úlfssonar, Arnar Árnasonar og Sigurðar Sigurjónssonar, í íslensku gríni er orðinn býsna langur og óneitanlega mjög glæsilegur þótt eitthvað hafi Spaugstofugrín þeirra þynnst út á síðustu árum. Eða kannski frekar staðið í stað og lítið þróast með síbreytilegum heimi og ýmsum straumhvörfum í sjónvarpsgríni.

Þótt af nógu sé að taka ætla ég að leyfa mér að fullyrða að útvarpsleikritið Með öðrum morðum, sem flutt var í ellefu þáttum í árdaga Bylgjunnar fyrir hart nær 30 árum, sé það allra besta og fyndnasta í höfundarverki þremenninganna. Harry og Heimir, heimskupör þeirra, orðaleikir og fimmaurabrandarar eru bara einhvern veginn tímalaus snilld og maður getur enn hlegið að gömlu útvarpsþáttunum, rétt eins og maður gerði 1987 eða þar um bil.

Félagarnir eru búnir að fara með Harry og Heimi á leiksvið og í raun er bíómynd um asnastrik þeirra löngu tímabær og satt best að segja er Harry & Heimir: Morð eru til alls fyrst betur heppnuð en ég, sem einlægur og gamall aðdáandi útvarpsþáttanna, þorði að vona. Í útvarpi er í raun allt hægt og með leikhljóðum, lýsingum og stefum sem fengin voru að láni úr James Bond-myndinni The Spy Who Loved Me tókst Karli, Sigurði og Erni að búa til geggjaðan hljóðheim þar sem ímyndunarafl hlustenda var virkjað og sá um tæknibrellur sem eru öllu flóknari í útfærslu þegar heimur Harry og Heimis er kominn í mynd.

Tæknileg útfærsla sögunnar er stundum alveg frábær og það er ekki annað hægt en dást að snjöllum lausnum og hugmyndaauðgi þegar kemur að því að skapa Harry og Heimi þá umgjörð sem varð til svo áreynslulaust í kringum þá í útvarpinu.

Það er því lítið út á útlit myndarinnar að setja og umgjörðin er sú sama og í útvarpinu þar sem ramminn er brotinn reglulega með áminningum um að hér er um bíómynd að ræða. Sögumaðurinn fylgir Harry og Heimi eftir og gerist stundum beinn þátttakandi í atburðarásinni, félagarnir fletta í handritinu þegar þá rekur í rogastans og svo framvegis. Þessi síðmóderníska nálgun, eða hvað fólk vill kalla þetta, virkaði fullkomlega í útvarpinu en er á köflum pínu lummuleg á tjaldinu en býður einnig upp á fína djóka eins og veðurstofustjórann sem þjáist af „konntinnjúití tourette“.

Leikarar standa sig upp til hópa með prýði og Karl Ágúst, Sigurður og Örn kunna auðvitað rullur Harrys, Heimis og sögumannsins eins og handarbakið á sér og renna sér blindandi í gegnum sögu sem þeir þekkja vel. Og þar erum við einmitt komin að helsta galla myndarinnar. Handritið byggir nokkuð nákvæmlega á Regingnípusögunni sem sögð var á Bylgjunni í þáttunum Morðið er laust og Morðatiltæki. Sagan og allir bestu brandararnir eru því aðeins komin til ára sinna og þeir sem þekkja þá félaga vel eru alltaf tíu skrefum á undan Harry og Heimi og geta botnað brandarana áður en þeir byrja. Miðað við hvað vel er lagt í allt annað er synd að þeir félagar hafi ekki splæst í nýja sögu og gert minna úr endurvinnslu gamals efnis, sem þó er stórgott vel að merkja.

Aksjónin í myndinni er töluverð, mikið að gerast og víða þvælst með stuðningi áðurnefndra tæknilausna. Allt vel gert en þarna leynist annar snöggur blettur vegna þess að orðagrín, útúrsnúningar og botnlaus heimska Heimis, sem er með minnsta heila í heimi þótt það sé bara einn heili í Heimi, voru burðarás útvarpsþáttanna sem náðu hæstu hæðum í samtölum spæjaranna þar sem endalaust var leikið með orð, tvíræðni og fjölbreytileika tungumálsins. Á þessum velli er Heimir bestur og hann nýtur sín því miður aldrei til fullnustu í myndinni. En Harry & Heimir: Morð eru til alls fyrst er engu að síður stórfínt sprell, galsafengin og saklaus skemmtun sem virkar fyrir alla fjölskylduna og sjálfsagt fá þeir mest út úr myndinni sem kunna gömlu þættina ekki utanað.

Samt má auðvitað deila um hvort Regingnípuþátturinn hafi endilega verið besta valið úr þeim ellefu þáttum sem spaugararnir gerðu í upphafi um Harry og Heimi og ef vinsældum þessarar myndar verður fylgt eftir með frekari endurvinnslu gamalla og góðra hugmynda mæli ég eindregið með að næst verði sótrafturinn Jónatan læknir, eða var það Jóna tannlæknir, dreginn á flot.

Leikstjóri: Bragi Þór Hinriksson
Handrit: Sigurður Sigurjónsson, Örn Árnason , Karl Ágúst Úlfsson
Leikarar: Karl Ágúst Úlfsson, Sigurður Sigurjónsson, Örn Árnason, Svandis Dóra Einarsdóttir, Ólafur Darri Ólafsson, Þröstur Leó Gunnarsson, Kjartan GuðjónssonSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða