A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Hellraiser | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Hellraiser (1987)

28. október '13 18:53 Hellraiser

„Og merkilegt nokk þá eldist Hellraiser bara mun betur en margar hryllingsmyndir þessa gullaldarára axlapúða, Studio Line og hárblásaranna. Hún líður ómaklega fyrir ömurlega lélegar framhaldsmyndir og ætti vel að þola uppfærslu fyrir nýja öld.“

Enski rithöfundurinn Clive Barker vakti athygli með erótískum hryllingssögum sínum um miðjan níunda áratuginn. Fyrsta skáldsagan hans, The Damnation Game, kom út 1985, síðan Hellbound Heart ári síðar, þá Weaveworld 1987, Cabal 1988 og svo mætti lengi telja. Á þessum árum var (og er enn) Stephen King aðalgæinn í þessum bransa og hann, jákvæður að vanda, lýsti því yfir að framtíð hrollvekjunnar væri fólgin í Barker. Minna hefur þó borið á Barker í seinni tíð og sérvitringurinn frá Maine er enn kóngurinn í hryllingnum.

En hvað um það. Árið 1987 sendi Barker frá sér kvikmyndina Hellraiser sem hann leikstýrði eftir eigin handriti sem hann skrifaði upp úr sögu sinni Hellbound Heart. Maður sá þessa mynd á sínum tíma í Regnboganum og ég man ekki betur en ég hafi verið bærilega sáttur við hana og sjálfsagt hefur hún þótt nettur splatter í þá daga.

Eftir að hafa skrifað frétt hér á Svarthöfða um að Barker ætli sér að endurgera Hellraiser greip mig óstjórnleg löngun til þess að sjá myndina aftur, í fyrsta skipti í 26 ár. Einhvern veginn fannst mér þessi hugmynd Barkers hljóma ágætlega þótt ég myndi nú ekki mikið eftir Hellraiser fyrir utan náttúrlega Pinhead, rosalega sætri stelpu með viðbjóðslegt skrímsli á hælunum, vondum manni að leika sér með enn verri töfratening og auðvitað Clare Higgins að mölva hauskúpur manna með klaufhamri.

Og merkilegt nokk þá eldist Hellraiser bara mun betur en margar hryllingsmyndir þessa gullaldarára axlapúða, Studio Line og hárblásaranna. Hún líður ómaklega fyrir ömurlega lélegar framhaldsmyndir (sem er nú ekki ný saga í hryllingsdeildinni) og ætti vel að þola uppfærslu fyrir nýja öld. Í raun þarf ekki að breyta svo miklu vegna þess að viðbjóðurinn og hryllingurinn frá 1987 halda ágætlega.

Styrkur sögunnar og þá um leið myndarinnar liggur í því hversu lengi hún dansar á mörkum raunveruleikans og hins yfirnáttúrulega. Þótt skíthællinn Frank byrji myndina á því að fikta í töfrateningi sem flytur hann í eitthvert sadó/masókíst helvíti þar sem afskræmdir og ógeðslegir munkar (cenobites) bjóða gestum sínum að upplifa ótrúlega sælu og skelfilegar píslir. Verst bara að þeir gera ekki skýran greinamun á því hvort er hvað og enda yfirleitt með því að hengja fólk upp á kjötkrókum, slíta það í sundur og rífa sálir þess í tætlur.

Í þessu víti má Frank dúsa þangað til ljúfmennið bróðir hans, Larry, flytur á ættaróðalið ásamt fláráðri og laungraðri seinni eiginkonu sinni, Juliu sem Clare Higgins leikur. Við komumst fljótt að því að Julia hafði áður haldið við Frank og saknar greinilega hins ofsafengna og siðlausa elskhuga síns sem er eins ólíkur stóra bróður sínum og hugsast getur.

Larry verður fyrir því óhappi við flutningana að skera sig illa á hendi þannig að blóð hans fossar á gólfið. Og viti menn, þessir dýrmætu dropar kalla Frank til baka úr víti munkanna. Hann er að vísu varla mikið meira en beinagrindin til að byrja með og kemst að því að hann þurfi meira blóð til þess að fá kjöt á beinin og verða heill á ný. Og þetta ógeðslega holdlausa skrímsli er ekki lengi að tala sína gömlu ástkonu inn á að skaffa sér meira blóð enda er það einmitt fyrst og fremst hold Franks sem Julia þráir.

Hún tekur þá upp á því að táldraga lausláta karlmenn á hádegisbarnum, bjóða þeim með sér heim á meðan eiginmaðurinn er úti og kála þeim með hamarshöggum í höfuðið. Síðan tekur Frank við, sýgur þá og eflist og styrkist með hverju fórnarlambi þessarar klikkuðu útgáfu af Lafði Macbeth. Klaufhamarsmorðin eru enn notalega ógeðsleg á að horfa og eru enn það eftirminnilegasta í Hellraiser.

Þegar Frank er að ná sér á strik skýtur undurfögur dóttir Larrys, Kirsty, frá fyrra hjónabandi upp kollinum og sleppur við illan leik frá sjúkum frænda sínum sem virðist jafn til í að misnota hana og drepa. Kirsty kemst undan með teninginn og eftir örvæntingarfullt fikt kallar hún fram munkana þar sem Pinnahausinn ógleymanlegi fer fremstur í flokki. Til þess að bjarga sér frá því að enda á kjötkrókum munkanna kjaftar Kirsty frá frænda sínum en munkarnir láta sko engan sleppa frá sér og allar gáttir vítis opnast á heimili Larrys og Juliu. Allt mjög skemmtilegt og hressandi.

Doug Bradley (sem Barker ætlar að sögn að fá til þess að leika Pinhead á ný) er enn helvíti grimmur og ógnvekjandi títuprjónahaus og Ashley Laurence er jafn sæt og mér fannst hún þegar ég var á fyrsta ári í menntó. Hún sýnir líka að hún er þarna frambærileg leikkona en því miður festist hún í framhaldsmynda helvíti Hellraiser og fékk lítið að gera af viti. Sem er synd vegna þess að hún, Pinhead, sagan sjálf og Hellraiser-myndin eiga skilið betri dóm sögunnar. Eitthvað sem Barker mun vonandi leiðrétta fljótlega.

Leikstjóri: Clive Barker
Handrit: Clive Barker
Leikarar: Andrew Robinson, Clare Higgins, Ashley Laurence, Sean Chapman, Doug BradleySvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða