A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Hostel | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Hostel (2005)

17. apríl '12 00:00 Hostel

„Roth reynir markvisst að ganga fram af áhorfendum og það er ekki hægt að segja annað en að honum takist það býsna vel. Hvert viðbjóðsatriðið rekur annað og í hvert skipti sem maður telur að Eli sé búinn að toppa og komist ekki lengra dúkkar upp svæsnari viðbjóður.“

Það verður ekki af Eli Roth tekið að hann hefur fullkominn skilning á frumefnatöflu hrollvekjunnar þar sem saman verða að fara ofbeldi, nekt og grín í réttum hlutföllum. Frumraun hans, Cabin Fever, sló verðskuldað í gegn og sýndi svo ekki varð um villst að hér var kominn fram kvikmyndagerðarmaður sem myndi hrista rækilega upp í hryllingsmyndageiranum. Hann gaf síðan allt i botn og gekk mörgum skrefum lengra í Hostel þar sem viðbjóðurinn er svo yfirgengilegur að Cabin Fever er eins og hvert annað leikskólaleikrit og bara upphitun fyrir það sem koma skyldi.

Í Hostel fylgir Eli þremur gröðum bakpokaferðalöngum eftir á kynlífs- og sukkferðalagi þeirra um Evrópu. Aðalsprautan í hópnum er Íslendingurinn Óli, sem notar alíslenska djammreynslu sína til þess að hjálpa bandarískum ferðafélögum sínum að komast yfir konur og dóp.

Félagarnir telja sig heldur betur komna í feitt þegar þeir eru staddir í Amsterdam og frétta af farfuglahemili í Slóvakíu þar sem gyðjur taka á móti ferðalöngum með útglenntar lappir. Strákarnir verða ekki sviknir og velta sér upp úr holdsins lystisemdum þar til Óli hverfur með dularfullum hætti.

Myndin skiptir þá um gír og Hostel hættir að vera kynlífsfantasía unglingspilta og breytist í harðsoðinn „splatter“ hrylling sem gengur líklega fram af öllum sem eru ekki vel skólaðir í hryllingsglápi. Stúlkurnar eru nefnilega beita og lokka ferðamenn í net glæpahyskis sem rænir fólki í þeim tilgangi að leyfa auðmönnum að pynta það og drepa gegn vænni greiðslu. Þegar ástarbríminn rennur af drengjunum ranka þeir við sér í einhvers konar verksmiðju dauðans þar sem fórnarlömbin eru bundin á stól í litlum klefum og böðlar þeirra ganga í skrokk á þeim með hnífum, töngum, byssum, skærum, vélsögum, borvélum og öðrum óhefðbunum morðtólum.

Roth gefur ekkert eftir í viðbjóðnum og skilur ekki mikið eftir fyrir ímyndunaraflið. Hann er heldur ekkert að rembast við að bregða áhorfendum með stöðluðum hryllingsmyndatrixum en kýlir fólk frekar niður með hreinræktuðum viðbjóði.

Leikararnir eru ekki að vinna nein stórkostleg þrekvirki enda varla verið að ætlast til þess. Derek Richardson ber af aðalleikurunum og maður þjáist virkilega með honum þegar hann er kominn í stól slátrarans. Eyþór Guðjónsson stendur sig einnig með prýði. Ofleikur ofsahressa Íslendinginn mátulega og heldur uppi fjörinu fyrri hluta myndarinnar og það er ekki laust við að maður sakni hans eftir að Óli hverfur.

Roth reynir markvisst að ganga fram af áhorfendum og það er ekki hægt að segja annað en að honum takist það býsna vel. Hvert viðbjóðsatriðið rekur annað og í hvert skipti sem maður telur að Eli sé búinn að toppa og komist ekki lengra dúkkar upp svæsnari viðbjóður. Það segir sig því sjálft að Hostel er alls ekki mynd fyrir alla og viðkvæmir ættu að halda sig víðsfjarri.

Þeir sem kunna hins vegar að meta almennilegan viðbjóð fá heilmikið út úr Hostel og sjálfum leið mér ákaflega vel þar sem Eli tókst einu sinni að fá mig til þess að gretta mig af viðbjóði. Hostel er þvottekta hryllingur; gerð fyrir lítinn pening, sneisa­full af berum brjóstum, rössum, blóðsúthellingum og limlestingum sem líða manni seint úr minni. 

Leikstjóri: Eli Roth
Handrit: Eli Roth
Leikarar: Jay Hernandez, Derek Richardson, Eyþór GuðjónssonSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða