A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Il sorpasso | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Blu-ray: Il sorpasso (1962)

26. ágúst '14 19:37 Il sorpasso

„... mögnuð og æðisgengin kvikmynd frá blómaskeiði ítalskra gamanmynda.“

Kjaftfor gortari hefur misst af ferðafélögum sínum og þeytist um tómar götur Rómar yfir ferðahelgi þegar allir eru út úr bænum. Hann ætlar þó ekki að deyja ráðalaus og sannfærir ungan laganema, sem hann var að hitta í fyrsta skiptið, um að snæða með sér hádegismat á veitingarstað sem er rétt fyrir utan Róm. Og er þá ævintýri þeirra félaga rétt að byrja.

Ítalska gamanmyndin Il sorpasso, eða The Easy Life eins og hún hét á ensku, var nýverið gefin út af hinu stórgóða fyrirtæki Criterion Collection í Bandaríkjunum á Blu-ray og DVD. Útgáfan markar þau tímamót að myndin er nú fáanleg stafrænt í fyrsta skipti en áður hefur hún aðeins verið fáanleg á spólu og þá yfirleitt í lélegu ástandi.

Dino Risi leikstýrir þessari ógleymanlegu mynd sem tilheyrir stefnu í ítalskri kvikmyndagerð sem kend er við commedia all'italiana og þykir hún bera öll helstu merki stefnunnar en beinþýðing á heiti hennar er einfaldlega gamanmynd á ítalskan máta. Framvinda myndarinnar er óútreiknanleg og leiðir ferðalag félaganna á kostulega staði og uppákomur.

Vittorio Gassman fer hreint á kostum í hlutverki Bruno sem er svo tryllt yfirgenginn og hástemmdur en á sama tíma virkilega sannfærandi. Milli þess að syngja, reita af sér brandara og slá gullhamra má sjá glitta í brotinn einstakling sem gerir allt til þess að hafa hraðann sem mestan svo að gríman sé á réttum stað. Í marga daga eftir áhorf staldraði ég við og pældi í persónunni og drifkrafti hans og komst ekki hjá því að leiða hugann að óaðfinnanlegri frammistöðu Gassmans. Jean-Louis Trintignant er einnig stórgóður í hlutverki laganemans Roberto en Gassman er rétt eins og persóna hans; stór í sniðum, og því er ekki annað hægt en að einblína á hann.

Leikstjórinn Alexander Payne er með kynningu á þessum vandaða pakka frá Criterion Collection þar sem hann ræðir um innblástur Il sorpasso við gerð myndarinnar Sideways. Þegar þessar myndir eru bornar saman leyna þessi áhrif sér ekki. Ferðalag Bruno og Roberto í Il sorpasso, rétt eins og þeirra Jacks og Miles í Sideways, er flótti. En flótta lýkur alltaf og í hita leiksins mótast persónurnar og verða til og á það vissulega um Roberto.

Myndin er gullfallega tekin upp í svarthvítu þar sem ítalskir sveitavegir njóta sín til fulls þegar Bruno keyrir á ofsahraða í framúrkeyrslu, syngjandi og blótandi til skiptis. Eftir situr hreint mögnuð og æðisgengin kvikmynd frá blómaskeiði ítalskra gamanmynda.

Leikstjóri: Dino Risi
Handrit: Dino Risi, Ettore Scola, Ruggero Maccari
Leikarar: Vittorio Gassman, Jean-Louis Trintignant, Catherine SpaakSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða