A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

In the Mouth of Madness | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: In the Mouth of Madness (1994)

23. nóvember '11 10:50 In the Mouth of Madness

„Myndin er sú þriðja og síðasta í því sem Carpenter kallar dómsdagsþríleikinn sinn, hinar eru The Thing og Prince of Darkness.“

John Carpenter er skemmtilegur náungi sem á að baki haug af hryllingsmyndum þar sem Halloween, The Thing og The Fog ber hæst. Kannski engin meistaraverk en standa vel fyrir sínu og gott betur en það enda kann Carpenter sitt fag þegar kemur að því að framkalla gæsahúð og ótta. Það besta við gaurinn er svo að þær mynda hans sem þykja standa þessum þremur klassíkerum að baki og náðu ekki flugi eru margar hverjar alveg stórgóðar. In the Mouth of Madness er skothelt dæmi um þetta. Lúmskur og vanmetinn hrollur sem getur vel stuðlað að í það minnsta einni notalegri martröð á góðri nóttu.

Í In the Mouth of Madness leikur Carpenter sér á mörgum raunveruleika og ímyndunar, skáldskapar og veruleikans og pælir í áhrifum hryllings á áhorfendur. Söguþráðurinn er flókinn og býður upp á óvenju marga túlkunarmöguleika en það eina sem liggur nokkuð ljóst fyrir er að það er einhver geggjun í gangi.

Sam Neill leikur John Trent sem gæti verið leikari sem leikur í svo svæsinni hryllingsmynd að hann bilast, eða spæjara sem dregur fram lífið með því að finna rökréttar skýringar á öllu en missir skyndilega tökin á sjálfum sér og tilverunni, þegar hann hættir að geta fundið eðlilegar skýringar á fyrirbærum sem hann upplifir. Ég hallast þó að því að John Trent sé skáldsagnapersóna, sem neitar að gangast við því að hann sé  hugarfóstur rithöfundar í skáldverki. Hann neitar að  lifa í skáldskapnum og hlýtur því að bilast eða tortímast.

Það breytir svosem engu hvað eða hver Trent er. Aðalmálið er að þegar hann er að borða hádegisverð einhvern góðan veðurdag ræðst að honum snarklikkað ógeð með öxi á lofti og spyr hann hvort hann lesi Sutter Cane. Árásarmaðurinn er svo skotinn til bana áður en hann nær að búta Trent niður eða fara nánar út í hvað hann meinti með spurningunni. Svo skemmtilega vill til að skömmu síðar er Trent beðinn um að finna hrollvekjuhöfundinn Sutter Cane sem er horfinn sporlaust. Mest er þó lagt upp úr því að Trent finni handrit nýjustu skáldsögu Canes, In the Mouth of Madness.

Trent byrjar að lesa bækur Canes og í kjölfarið herja á hann martraðir og undarlega sýnir sem benda eindregið til þess að okkar maður sé að missa vitið. Hann kemst einnig að því að bækur Canes virðist hafa þau áhrif á óstöðuga lesendur að þeir gangi af göflunum og vinni alls kyns voðaverk. Eftir því sem Trent kemst nær Cane og kjarna málsins sér hann betur og betur að Cane er stórhættulegur og einna helst líklegur til þess að ætla sér að rústa heiminum með skáldskap sínum.

Kannski villir bjánalegur titillinn fólki sýn vegna þess að hér er á ferðinni hörkugóð hryllingsmynd með topp mannskap. Sam Neill er traustur að vanda og Jürgen Prochnow er mátulega ógnandi í hlutverki Canes. Myndin er sú þriðja og síðasta í því sem Carpenter kallar dómsdagsþríleikinn sinn, hinar eru The Thing og Prince of Darkness, og býður ekki aðeins upp á krípí stemningu og notalegan hroll heldur endalausar pælingar, bæði um innihaldið innan ramma sögunnar sem og áhrif skáldskapar á umhverfi sitt. Hver og einn verður auðvitað að fá sinn botn í myndina eða sleppa því og njóta hennar bara en þó er morgunljóst að helsta niðurstaða Carpenters er sú sama og Halldór Laxness komst að í Kristnihaldi undir jökli og hún er einfaldlega að sá „sem ekki lifir í skáldskap lifir ekki af hér á jörðinni.“

 

Leikstjóri: John Carpenter
Handrit: Michael De Luca
Leikarar: Sam Neill, Jürgen Prochnow, Julie CarmenSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða