A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Independence Day | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Independence Day (1996)

4. júlí '13 17:18 Independence Day

„Auðvitað var samt enginn skortur á fýlupúkum sem fá út úr því að setja sig á háan hest og tala allar bíómyndir, sem eru ekkert meira en innihaldsrýr afþreying, niður. Þetta voru og eru upp til hópa fábjánar sem neita að horfast í augu við hvað bíó gengur út á. Independence Day er einfaldlega pottþétt mynd.“

Ógeðslegar geimverur gera árás á jörðina og sýna að þeim er fúlasta alvara með því að sprengja í loft upp táknrænar byggingar í helstu borgum heims. Hvíta húsið er jafnað við jörðu og allt bendir til þess að dagar mannkyns séu taldir. Góðu heilli liggja leiðir býsna ólíkra einstaklinga saman í miðjum hörmungunum og þegar allir leggja í púkkið vaknar smá vonarglæta um að hægt sé að hrinda árhlaupi innrásarhersins utan úr geimnum.

Heimsbyggðin sameinast undir stjórn Bandaríkjamanna (en ekki hvað?) og úrslitaorrustan fer fram þann 4. júlí (en ekki hvað?). Eiginlega er ótrúlegt til þess að hugsa að sautján ár séu liðin síðan Independence Day var frumsýnd en hún var ein vinsælsta mynd sumarsins 1996 (en ekki hvað?) enda ekta poppkornsmynd og frábær skemmtun.

Auðvitað var samt enginn skortur á fýlupúkum sem fá út úr því að setja sig á háan hest og tala allar bíómyndir, sem eru ekkert meira en innihaldsrýr afþreying, niður. Þetta voru og eru upp til hópa fábjánar sem neita að horfast í augu við hvað bíó gengur út á. Independence Day er einfaldlega pottþétt mynd, mátulega hallærisleg og einföld, að springa úr amerísku þjóðarstolti, að hætti Rolands Emmerich, og þéttskipuð skemmtilegum leikurum sem gera kúnstugum persónum dásamleg skil. Svona eiga sumarmyndir sko að vera.

Svarthöfði hefur tvær ærnar ástæður til þess að taka Independence Day úr bunkanum í dag. Í fyrsta lagi er þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna, og heimsins alls eftir sigurinn í Independence Day, í dag og svo á Emmerich nýja mynd, White House Down, í bíó. Eiginlega er það eina neikvæða við Independence Day að hún festi Will Smith í sessi sem stórstjörnu. Hann er engu að síður stórgóður og sjarmerandi sem orrustuflugmaðurinn Steven Hiller sem tekst af harðfylgi að fanga eitt innrásarógeðið lifandi. Annars berst Hiller um á hæl og hnakka í örvæntingarfullri leit að kærustunni sinni sem hann verður viðskila við í öngþveiti innrásarinnar. Stúlkan sú er fatafella sem drífur sig þennan örlagaríka góðviðrisdag í vinnuna og er einmitt að skaka sig við súluna þegar sprengingarnar byrja.

Jeff Goldblum er einnig bráðslemmtilegur sem vísindalúði sem finnur leið til þess að kála geimverunum en lausn hans gengur út á að sýkja tölvur geimveranna með vírus. Kallast skemmtilega á við lausnina í Innrásinni frá Mars en því er enn ósvarað hvernig Makkinn hans Goldblum gat náð tengingu við vélbúnað geimveranna á þeim tíma sem Windows og Mac gátu ekki talað saman.

Judd Hirsch er dásamlegur í hlutverki föður Goldblums en sá trúir á ástina og John Lennon og þarf ekki meira. All you need is love. Randy Quaid er sjálfum sér líkur og sér um grínið. Eins og hann hafi stokkið beint úr Christmas Vacation, grútskítugur afdankaður hippi sem á harma að hefna á geimverunum eftir að þær námu hann á brott og tróðu aðskotahlutum upp í rassgatið á honum.

Bill Pullman er svo ekkert annað en æði í hlutverki forseta Bandaríkjanna sem eins og sannur foringi fer fremstur í flokki varnarliðsins, enda gömul stríðshetja (en ekki hvað?). Auk þess á Pullman eina eftirminnilegustu hvatningarræðu kvikmyndasögunnar, sannkallaða þjóðhátíðarræðu, þegar hann hvetur fjölþjóðaherinn til dáða. Þeir sem fá ekki gæsahúð undir þessu eru fávitar:

„Good morning. In less than an hour, aircraft from here will join others from around the world. And you will be launching the largest aerial battle in the history of mankind. "Mankind." That word should have new meaning for all of us today. We can't be consumed by our petty differences anymore. We will be united in our common interests. Perhaps it's fate that today is the Fourth of July, and you will once again be fighting for our freedom... Not from tyranny, oppression, or persecution... but from annihilation. We are fighting for our right to live. To exist. And should we win the day, the Fourth of July will no longer be known as an American holiday, but as the day the world declared in one voice: "We will not go quietly into the night!" We will not vanish without a fight! We're going to live on! We're going to survive! Today we celebrate our Independence Day!“

Independence Day var geggjuð sumarið1996 og er það enn. Guð blessi Bandaríkin!

 

Leikstjóri: Roland Emmerich
Handrit: Dean Devlin, Roland Emmerich
Leikarar: Will Smith, Bill Pullman, Jeff Goldblum, Mary McDonnell, Judd Hirsch, Randy Quaid, Robert LoggiaSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða