A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Iron Man 3 | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Iron Man 3 (2013)

30. apríl '13 13:08 Iron Man 3

„Ekki nóg með það þá toppar hún fyrstu myndina og brýtur þar af leiðandi fræg álög sem oft hvíla yfir þriðju mynd í þríleik og reynist vera sú besta í bálkinum. Sem er nánast einsdæmi.“

Robert Downey Jr. snýr aftur sem glaumgosinn Tony Stark eða Iron Man í þriðju myndinni um  þessa alkóhólíseruðu ofurhetju. Iron Man sást síðast ásamt fríðu föruneyti í The Avengers þar sem hann barðist við hlið þekktra Marvel-hetja. Fyrsta Iron Man kom hressilega á óvart og þá ekki síst fyrir þær sakir að Downey Jr. fór á kostum í titilhlutverkinu.

Iron Man-myndirnar með Downey Jr. eru nú orðnar þrjár og að þessu sinni er Shane Black er við stjórnvölinn og tekur við af Jon Favreau en hann leikstýrði fyrri myndunum tveimur. Black hefur ekki síst getið sér gott orð sem handritshöfundur og státar af myndum eins og Lethal Weapon, The Last Boy Scout og Kiss Kiss, Bang Bang sem einmitt skartaði Downey Jr.

Black er firnagóður handritshöfundur og styrkur hans liggur fyrst og fremst í hnyttnum tilsvörum og kostulegri atburðarás eins og fyrrnefndar myndir bera svo vel með sér. Hann skrifar handrit Iron Man 3 ásamt Drew Pearce og aðdáendur þurfa hvorki að hafa áhyggur af Stark né Iron Man í höndum þeirra þar sem þeir bjóða upp á bráðfyndnar flækjur og hörkuspennandi atriði.

Hasaratriðin eru til fyrirmyndar og  töluvert meira er lagt í þau í þessari en í fyrri myndunum. Lokahnykkurinn er þrælspennandi og ekki skemmir fyrir að persónur úr fyrri myndum fái að láta ljós sitt skína. Alkóhólismi aðahetjunnar sem hefur verið nokkuð áberandi hingað til er tónaður niður og nú eru það kvíðaköst eftir atburði The Avengers-myndarinnar sem hrella okkar mann.

Robert Downey Jr. er Tony Stark. Það er bara svo einfalt. Hann skilar persónu Starks eins og honum er einum er lagið og gerir þetta því með miklum stæl. Ólíkt fyrri myndunum fær Downey Jr. að vera töluvert án járndragtarinna. Þetta er skemmtileg breyting og áhugavert að sjá hversu brothættur og berskjaldaður Stark er án búningsins góða. Það er bara ekki hægt að sjá fyrir sér neinn annan leikara í hlutverkinu og gera því betri skil en Downey Jr. gerir.

Ben Kingsley leikur hryðjuverkamanninn Mandarin og gjörsamlega stelur senunni á afar óvæntan máta. Þessi persóna Kingsleys sýnir svo glöggt að Shane-taktarnir hitta ávallt beint í mark. Gwyneth Paltrow fær töluvert stærra hlutverk í þessari mynd en þeim fyrri sem kærasta Starks, Pepper Potts. Don Cheadle endurtekur hlutverk sitt sem James Rhodes úr Iron Man 2 og Guy Pearce leikur keppinaut Starks í vopnabransanum.

The Avengers kom, sá og sigraði síðasta sumar og trónir á toppnum yfir bestu ofurhetjumyndirnar sem hafa runnið undan rifjum myndasögurisans Marvel. Það hefur ekki verið létt verk að feta í fótspor hetjugengisins en Black lætur það verkefni líta út eins og barnaleik. Hann töfrar fram þrælgóða skemmtun og Iron Man 3 reynist vera verðugt framhald The Avengers. Ekki nóg með það þá toppar hún fyrstu myndina og brýtur þar af leiðandi fræg álög sem oft hvíla yfir þriðju mynd í þríleik og reynist vera sú besta í bálkinum. Sem er nánast einsdæmi.

Leikstjóri: Shane Black
Handrit: Shane Black, Drew Pearce
Leikarar: Robert Downey Jr., Gwyneth Paltrow, Guy Pearce, Don Cheadle, Ben KingsleySvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða