A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Jack Reacher | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Jack Reacher (2012)

12. janúar '13 19:08 Jack Reacher

„Það er hægara sagt en gert að koma skeptískum Reacher-aðdáendum í skilning um að þeir þurfi ekki að örvænta og fyrir þá sem þekkja hvorki til bókanna né persónunnar, en kunna að meta góðar spennu- og hasarmyndir, er Jack Reacher firnasterk spennumynd af gamla skólanum.“

Þegar fyrrverandi hermaður skýtur fimm manns til bana með köldu blóði úr launsátri mætir herlögreglumaðurinn fyrrverandi Jack Reacher á vettvang til þess að tryggja að leyniskyttan líti ekki framar dagsins ljós. Þegar Reacher fer síðan, tregur þó, að skoða málið betur lítur út fyrir að það sem í fyrstu virtist vera handahófskennt fjöldamorð brjálæðings sé liður í flóknu og kaldrifjuðu samsæri og að hermaðurinn fyrrverandi sé blóraböggull. Áður en Reacher veit af er hann því kominn á kaf í vandræði og bráða hættu sem setur hann þó síður en svo út af laginu þegar hann er kominn á kaf í leit að sannleikanum og réttlætinu.

Aðdáendur bóka Lee Child um vöðvabúntið hávaxna Jack Reacher voru allt annað en ánægðir þegar fréttist að Tom Cruise myndi fara með hlutverkið. Af persónulýsingunum úr bókum Childs einum saman þótti Cruise ekki eiga sjéns í rulluna. Sjálfur skapari Reachers hefur aftur á móti varið ráðningu Cruise og sagt hann rétta manninn til verksins.

Handritshöfundurinn stórgóði Christopher McQuarrie er með alla þræði Jack Reacher í höndum sér sem leikstjóri og handritshöfundur. Þótt myndin beri nafn aðalpersónunnar er níunda skáldsaga Childs um Reacher, One Shot, lögð til grundvallar. McQuarrie skilar af sér jarðbundinni og hefðbundinni hasarmynd í stíl við þær sem komu á áttunda og níunda áratugunum; laus við tæknibrelluhaf og sífelldar endurtekningar. Reacher fær að hnykla vöðvana og lúberja mann og annan en myndin er laus við endalausa skotbardaga sem geta orðið þreytandi ansi fljótt. Grínið er alltaf skammt undan og óneitanlega er viss „old school" sjarmi yfir myndinni.

Cruise fer vel í hlutverki Reachers og gerir það sem hann gerir best, að sparka í rassa og taka niður nöfn. Cruise veit hvenær hann á að gefa allt í botn og kemur á óvart sem hinn vægðarlausi, þrælútpældi, yfirvegaði og sultuslaki Reacher. Ég get ekki séð hvað hefði getað farið betur ef einhvert vöðvabúntið hefði leikið jarðýtuna óstöðvandi.

Leikstjórinn Werner Herzog á sterka innkomu sem skúrkur myndarinnar. Hann hefur yfirleitt ljáð heimildarmyndum rödd sína en þeir sem til hans þekkja vita hvað þeir eiga í vændum. Jai Courtney leikur handbendi persónu Herzogs og lítur út fyrir að nýr Jason Statham eigi eftir að stíga fram á næstu árum. Rosamund Pike og Richard Jenkins eru góð í sínum hlutverkum og gamla brýnið Robert Duvall lítur inn og er traustur að vanda.

Það er hægara sagt en gert að koma skeptískum Reacher-aðdáendum í skilning um að þeir þurfi ekki að örvænta og fyrir þá sem þekkja hvorki til bókanna né persónunnar, en kunna að meta góðar spennu- og hasarmyndir, er Jack Reacher firnasterk spennumynd af gamla skólanum.

Leikstjóri: Christopher McQuarrie
Handrit: Christopher McQuarrie
Leikarar: Tom Cruise, Rosamund Pike, Richard Jenkins, Werner Herzog, Jai Courtney, David OyelowoSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða