A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Jack the Giant Slayer | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Jack the Giant Slayer (2013)

31. mars '13 15:58 Jack the Giant Slayer

„Í það heila er hún þó fínasta ævintýramynd en hafði alla burði til þess að vera enn betri ef Singer hefði fengið frjálsar hendur og ekki þurft að klára myndina með framleiðendurna á bakinu.“

Ævintýraþyrstur ungur piltur kemst yfir töfrabraunir sem verða að baunagrasi sem opnar leið milli heimkynna manna og risa. Risarnir sæta færist og hneppa prinsessu konungsríkisins í ánauð og þá er undir piltinum og nokkrum hermönnum að bjarga henni úr prísundinni.

Fí fæ fó fum. Sagan um Jóa og baunagrasið er flestum kunnug en hér hefur gamla þjóðsagan verið tekin í gegn og kjöti bætt á beinin alveg í takt við þá meðferð, sem önnur ævintýri sem ratað hafa á hvíta tjaldið á liðinum árum, hafa fengið. Leikstjórinn Bryan Singer er öllum hnútum kunnugur þegar ævintýra- og hasarmyndir eru annars vegar eftir að hafa leikstýrt tveimur fyrstu X-Men-myndunum og Superman Returns.

Þessi nýja útgáfa af Jóa og baunagrasinu, Jack the Giant Slayer, hefur gengið í miklar hremmingar og leiðindi. Upphaflega stóð til að frumsýna myndina síðasta sumar og þá bar hún titilinn Jack the Giant Killer. Nafninu var breytt með það fyrir augum að höfða til stærri áhorfendahóps og myndin ber greinilega með sér að hún var í byrjun hugsuð fyrir eldri áhorfendur frekar en þá yngri. Ofbeldið er á köflum ansi svæsið miðað við fjölskyldumynd og gengur skrefinu lengra en fyrsta innslagið í Hobbitanum sem kom í kvikmyndahús um jólin.

Myndin fer brösulega af stað og fyrsta hálftímann lítur allt út fyrir að hún muni hvorki komast lönd né strönd. Þegar komið er upp í heim risanna hrekkur myndin loks í gang, sagan fer að rúlla á fleygiferð og myndin að standa undir nafni. Persónusköpunin ristir þó ekki djúpt og maður fær á tilfinninguna að fjölmörg atriði hafi endað á klippigólfinu á kostnað heildarsamhengisins. Þegar líða fer á seinni hlutann og myndin virðst komin á endastöð er blásið til heljarinnar bardaga með miklum látum sem komu skemmtilega á óvart.

Nicholas Hoult leikur Jóa og einhvern veginn er eins og hann ráði ekki alveg við hlutverkið eins einfalt og það þó er og hann virðist skorta alla ævintýralöngun. Persónan lætur verkin tala en samt er eins og hann nenni þessu ekki. Sem betur fer er Ewan McGregor í miklu stuði og fer létt með að stela öllum senum þar sem hann kemur við sögu með því að slá á létta strengi. Þá dúkkar Ian McShane upp sem konungurinn og er traustur að vanda.

Jack the Giant Slayer hefur fengið vonda meðferð hjá framleiðendum og hún ber þess merki. Hún er gerð fyrir fullorðna en virðist vera ætluð börnum eða unglingum þótt því fari fjarri að hún geti sloppið sem fjölskyldumynd. Í það heila er hún þó fínasta ævintýramynd en hafði alla burði til þess að vera enn betri ef Singer hefði fengið frjálsar hendur og ekki þurft að klára myndina með framleiðendurna á bakinu.

Leikstjóri: Bryan Singer
Handrit: Darren Lemke, Davis Dobkin, Dan Studney, Christopher McQuarrie
Leikarar: Nicholas Hoult, Eleanor Tomlinson, Ewan McGregor, Stanley Tucci, Ian McShane,Svarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða