A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Jagten | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Jagten (2012)

4. mars '13 20:41 Jagten

„Jagten er átakanleg mynd, erfið á að horfa og ofboðslega áhrifarík. Hún er vitaskuld ekki gallalaus og um hana má að sjálfsögðu deila.“

Tilvera leikskólakennarans Lucasar er frekar dapurleg. Hann býr einn í stóru húsi í dönskum smábæ eftir að eiginkona hans fór frá honum og tók unglingsson þeirra með sér. Heldur virðist þó vera að rofa til hjá honum þar sem hann er að ná árangri í deilu við sína fyrrverandi um umgengni við soninn og bráðhugguleg starfskona á leikskólanum er skotin í honum. En þá dynur ógæfan yfir hann af fullum þunga.

Lítil stúlka á leikskólanum, dóttir nágranna hans og besta vinar, gefur í fýlukasti í skyn að hann hafi misnotað hana kynferðislega. Leikskólastjórinn fær áfall en greinir síðan öllum foreldrum frá þessu og hefur samband við lögreglu. Samfélagið útskúfar Lucasi um leið og kvitturinn kemst á kreik og áður en hann veit af hafa fleiri börn bæst í hópinn og saka hann um að hafa berað sig fyrir framan þau og káfað á þeim.

Lucas er stendur skyndilega í sporum Jósefs K í Réttarhöldum Kafka þar sem hann fær ekki einu sinni að vita hvað nákvæmlega hann á að hafa gert af sér. Ráðvilltur reynir hann af veikum mætti að kæfa málið í fæðingu en um leið og orðrómurinn er kominn á kreik er ekki við neitt ráðið. Nágrannar hans og vinir snúast gegn honum á augabragði og grípa heykvíslarnar og kyndlana. Fólk sem Lucas hefur þekkt alla sína tíð efast ekki um að ásakanirnar eigi við rök að styðjast og hann verður fyrir ofsóknum hvar sem hann kemur, er laminn úti í kjörbúð og ráðist er á heimili hans. Hann á sér ekki viðreisnar von og einangrast í þunglyndi og drykkju.

Jagten er átakanleg mynd, erfið á að horfa og ofboðslega áhrifarík. Hún er vitaskuld ekki gallalaus og um hana má að sjálfsögðu deila. Ekki síst þar sem oftast er einhver fótur fyrir því þegar börn tjá sig um kynferðislega misnotkun þótt Lucas sé blásaklaus í þessu átakanlega dæmi. Jagten sýnir hins vegar á nístandi hátt hvernig lítil lygi, eða bull í hálfkæringi, getur undið hratt upp á sig. Hversu ríkt er í eðli okkar að vilja trúa öllu því versta upp á náungan og hversu siðað samfélag mannanna stendur í raun á veikum grunni og hversu auðvelt er að láta sterkar tilfinningar stjórna sér með tilheyrandi ofbeldi og ómennsku.

Thomas Vinterberg er sjálfsagt þekktastur fyrir Festen og bætir með Jagten enn einni rós í hnappagat sitt. Frásagnarmáti hans er látlaus og laus við alla tilgerð og stæla en hann hefur alla þræði í hendi sér þannig að myndin gengur nærri áhorfandanum. Þetta er mynd sem fylgir manni lengi og víkur ekki úr huga manns næstu daga eða vikur. Jagten er tímabær hugvekja, óþægileg og nærgöngul og vekur fleiri spurningar en hún svarar sem er í þessu tilfelli mikill styrkur.

Sá frábæri leikari Mads Mikkelsen gerir Lucasi og örvæntingu hans stórkostleg skil. Hann ber myndina á herðum sér en fær dyggilegan stuðning frá öðrum leikurum sem eru hver öðrum betri. Hin unga Annika Wedderkopp er til dæmis yndisleg í hlutverki stelpuskottsins sem kemur Lucasi í klandrið með ásökun sinni en þegar boltinn fer að rúlla í kjölfarið lendir barnið milli steins og sleggju og verður fórnaralmb öfganna og múgæsingsins sem skekur samfélagið.

Leikstjóri: Thomas Vinterberg
Handrit: Tobias Lindholm, Thomas Vinterberg
Leikarar: Mads Mikkelsen, Thomas Bo Larsen, Annika Wedderkopp, Lasse FogelstrømSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða