A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Jingle All the Way | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Jingle All the Way (1996)

10. desember '13 14:05 Jingle All the Way

„Þótt Jingle All the Way sé fyndin og fjörug er afar ólíkleg að hún muni eiga fastan sess á jólalistanum mínum en það má samt hiklaust mæla með því að henni sé rennt í gegn önnur eða þriðju hver jól.“

Á kvöldi Þorláksmessu áttar Howard Langston sig á því að hann gleymdi að kaupa jólagjöf handa syni sínum en dótakallinn Turboman er efstur á óskalistanum. Dótakallinn er alls staðar uppseldur en Howard lætur það ekki stöðva sig og heldur brattur út í jólaösina.

Í aðdraganda jóla smala ég árlega saman kvikmyndum á lista sem fjölskyldan vinnur sig í gegnum yfir hátíðarnar. Myndir eins og Die Hard, Christmas Vacation og Love Actually eru þar fastir póstar en inn á milli tek ég óhefðbundnari myndir sem hafa gleymst og margar hverjar af góðri ástæðu.

Eftir að hafa margoft séð Jingle All the Way með Arnold Schwarzenegger á listum yfir verstu jólamyndirnar ákvað ég að taka hana inn á listann í ár. Einhvern veginn var ég alveg sannfærður um það að myndin væri ein af þessum fjölmörgu auðgleymanlegu og tilgerðarlegu jólamyndum sem eru dregnar fram hver jól og skellt á kassann í lágvöruverslunum. Þótt myndin hafi svosem aldrei þótt eitthvað frábær þá tekur hún merkilega góða spretti og er býsna sniðug.

Myndin sækir innblástur í geðveikina sem myndast í kringum jólagjafakaup á hverju ári og undir yfirborðinu má greina ákveðna samfélagsrýni. Fyrir hver jól tröllríða auglýsingar öllum fjölmiðlum þannig að það fer ekkert framhjá börnunum hverjar séu helstu jólagjafirnar það árið. Og ef rétta dótið ratar ekki í pakkana eru jólin að sjálfsögðu ónýt. Í ljósi þeirrar hamingju sem fylgir réttu gjöfinni snúa foreldrar öllu á hvolf í leit að henni. Þeir ganga af göflunum og kikna undan álaginu. Í huga sumra má setja samasemmerki milli fullkomna jóla og tómra veskja, brunninna greiðslukorta, mikillar yfirvinnu og flottra gjafa. Og oftar en ekki kemur fórnarkostnaður hinna æðislegu jóla niður á fjölskyldunni sjálfri.

Schwarzenegger er kostulegur í hlutverki föðursins örvæntingafulla. Arnold ofleikur eins og hans er von og vísa í gamanmyndum en aldrei svo að það fari ekki persónunni eða atburðarásinni. Phil Hartman heitinn og Sinbad eru efnilegir andstæðingar Arnolds, hvor á sínum vígvellinum. Hartman gerir sig líklegan til þess að næla í eiginkonu Arnolds og Sinbad lætur ekkert stöðva sig í leitinni að leikfangakallinum eftirsótta.

Jake Lloyd, sem síðar lék Anakin Skywalker í fyrstu Stjörnustríðsmyndinni, fer með hlutverk sonar Arnolds en rétt eins og í Star Wars: Episode I - The Phantom Menace þá gæti Lloyd ekki leikið þótt líf hans lægi við. Gamanleikarinn Jim Belushi kemur fram í litlu en fyndnu hlutverki sem svartamarkaðsbraskari klæddur upp sem jólasveinn en hann sér föðurinn sem eitt stórt dollaramerki.

Við áhorfið vakna vissar spurningar upp um geðveikina sem fylgir jólunum og þá pressu og vanlíðan sem verður þegar það á ekki að gefa þumlung eftir í nafni hamingjunnar. Þótt Jingle All the Way sé fyndin og fjörug er afar ólíkleg að hún muni eiga fastan sess á jólalistanum mínum en það má samt hiklaust mæla með því að henni sé rennt í gegn önnur eða þriðju hver jól. Það er nefnilega ekki í hverri mynd sem Arnold rotar jólahreindýr í vígarhug og dettur svo í það með því.

„Put the cookie down, NOW!“

Leikstjóri: Brian Levant
Handrit: Randy Kornfield
Leikarar: Arnold Schwarzenegger, Sinbad, Phil Hartman, Rita Wilson, Robert Conrad, Jake Lloyd, James BelushiSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða