A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Jobs | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Jobs (2013)

9. september '13 12:41 Jobs

„Í myndinni tönglast Jobs á því að það næstbesta dugi ekki og maður eigi ekki að sætta sig við neitt annað en það besta. Verst að aðstandendur myndarinnar hafi ekki tekið þennan boðskap Jobs til sín...“

Krabbamein dró goðsagnarkennda Apple-frumkvöðulinn Steve Jobs til dauða árið 2011 þegar hann var aðeins 56 ára gamall. Jobs hafði varla dregið sinn hinsta andardrátt þegar allt fór á annan endan í Hollywood og mikið kapphlaup hófst um hverjir yrðu fyrstir til þess að koma kvikmynd um brautryðjandann í framleiðslu og snara henni í kvikmyndahús sem allra fyrst. Kvikmyndin Jobs er sú fyrsta og eins og við mátti búast eru gæði þessarar myndar í samræmi við þessi snöru handtök.

Engum blöðum er um það að fletta að Jobs var stórmerkilegur maður og arfleið hans kemur til með að lifa um ókomna tíð en þessi mynd mun ekki hafa neitt með það að gera. Verkin og tækin sem hann skildi eftir sig sjá alfarið um það og hér er ekki um neinn bautastein að ræða.

Myndin sendir ansi misvísandi skilaboð um ágæti Jobs og eiginlega ómögulegt að átta sig á í hvaða ljósi leikstjórinn Joshua Michael Stern og handritshöfundurinn Matt Whiteley vilja sýna Jobs. Stefnuleysið er slíkt að illmögulegt er að átta sig á hvort leikstjórinn er að hampa honum eða sýna hann í neikvæðu ljósi. Vitanlega er hér um kvikmynd að ræða og viss skáldaleyfi því óhjákvæmilega tekin en áhorfandinn situr eftir með efann um hvort sönn mynd hafi verið dreginn upp af viðfangsefninu.

Eins og gengur og gerist með ævisögulegar kvikmyndir er stiklað á stóru en þessi mynd snýst miklu frekar um uppgang Apple-fyrirtækisins en nokkurn tíma um ævi Jobs. Auðvitað væri þetta fyrirtæki ekki til án hans en ekki síst þess vegna hefði persóna hans og sálarlíf mátt vega þyngra í frásögninni. Enda á jú myndin fyrst og fremst að hverfast um hann.

Samkvæmt sögusagnum gat Jobs verið ansi þver og erfiður í samskiptum og viðskiptum og í raun hafi velgengni Apple legið í þessari þvermóðsku hans. Í myndinni er hann hins vegar uppmálaður sem sjálfumglatt fífl í dapurlegum meðförum Ashtons Kutcher.

Nú eru áhorfendur vitaskuld meðvitaðir um hversu langt Jobs náði með Apple-veldið en í myndinni virkar hann einkum ótrúverðugur vegna þess hvernig hann hagar sér og kemur fram. Ég er í það minnsta vantrúaður á að hann hefði náð jafn langt og raun ber vitni hafi hann verið eins og Kutcher túlkar hann. Apple-ævintýrið var enginn dans á rósum en samkvæmt myndinni virðist Jobs hafa traðkað á þeim sem stóðu honum næst. Og þótt fátt eðlilegra.

Áhorfendur kynnast Jobs aldrei almennilega og fyrir vikið er ekki hægt að segja að maður fái einhverja sérstaka samúð með honum. Hann öskrar að vísu nokkrum sinnum og tárast á meðan lög Bobs Dylan slá botninn í afar tilgerðarleg atriði. Þá eru flest öll samtöl það upplýsandi og gagnsæ að maður finnur að það er verið að keyra frásögnina áfram í flýti. Og ekki hjálpar það til.

Eina persónan í myndinni sem hægt er að ná einhverri tengingu við er Steve Wozniak sem Josh Gad leikur en „Woz" stofnaði Apple með Jobs. Gad er merkilega fínn í hlutverkinu og í eina atriði myndarinnar þar sem raunverulegar tilfinningar er að finna er þegar hann segir Jobs hversu sálarlaus hann sé orðinn. Kutcher lítur kannski út eins og Jobs en hann hefur sýnt og sannað að hann er einfaldlega ekki góður leikari og á betur heima í slöppum „sitcom“-sjónvarpsþáttum heldur en kvikmyndum sem vilja taka sig alvarlega.

Í myndinni tönglast Jobs á því að það næstbesta dugi ekki og maður eigi ekki að sætta sig við neitt annað en það besta. Verst að aðstandendur myndarinnar hafi ekki tekið þennan boðskap Jobs til sín og gert betri mynd þar sem Jobs á ekkert erindi í bíó. Til gamans má geta þess að dómurinn er skrifaður á Apple-vél.

Leikstjóri: Joshua Michael Stern
Handrit: Matt Whiteley
Leikarar: Ashton Kutcher, Josh Gad, Dermot Mulroney, Matthew Modine, Lukas Haas, J.K. SimmonsSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða