A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Juno | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

DVD: Juno (2007)

11. apríl '12 11:29 Juno

„Juno kom mér ótrúlega á óvart á sínum tíma og hún stendur ennþá fyrir sínu í dag. Þetta er falleg og hjartnæm mynd þar sem slegið er á létta strengi þótt þroskuð sagan sé í fyrirrúmi.“

Nýr heimur bíður Juno þegar hún þarf að leysa vandamál sem hún hefur ekki þurft að kljást við áður: Hún er ólétt eftir besta vin sinn og hvorugt þeirra telur sig hafa þroska til þess að leysa vandamálið án stuðnings góðra vina og hvors annars.

Juno er litla myndin sem gat; lítil, sjálfstæð framleiðsla, gerð með réttu hugarfari af réttum einstaklingum, á réttum tíma og uppskar fyrir vikið athygli hvert sem hún fór. Myndin hlaut á sínum tíma fjórar tilnefningar til Óskarsverðlauna, þ.á.m. fyrir bestu mynd, leikstjórn og handrit, og Diablo Cody hlaut styttuna fyrir besta frumsamda handrit.

Leikstjórinn ungi Jason Reitman leikstýrir hér sinni annarri kvikmynd, ferskur eftir satíruna ágætu Thank You For Smoking. Hann kemur sterkur inn ásamt Judd Apatow og félögum í nýja bylgju þroskaðra gamanmynda þar sem handrit og góður leikur hefur tekið stakkaskiptum í gamanmyndum síðastliðin áratug.

Handrit myndarinnar er frumraun fatafellunnar og bloggarans Diablo Cody. Handritið er einstaklega hnyttið og skemmtilegt. Orðaleikir Codys eru afar vel skrifaðir og ekki spillir skrautlegur orðaforði sem kemur sífellt á óvart fyrir. Ýmsar tilvísanir í poppmenningu á borð við Thundercats og leikstjórann Dario Argento passa furðuvel inn í myndina.

Ungstirnið Ellen Page fer hreint á kostum sem hin sextán ára ólétta Juno. Allir taktar og stælar mætti halda að væru Page eðlilegir; hún fer með þvílíkt ferskar og skrautlegar, óþvingaðar setningar sem maður gæti haldið að væru spuni. Þrátt fyrir að látast vera hörð af sér er Juno óharnaður unglingur með hjartað á rétt um stað, og Page tekst frábærlega að koma því til skila.

Faðir barnsins, Bleeker, er leikinn af Michael Cera sem sumir hverjir þekkja úr hinum brilljant þáttunum Arrested Development. Líkt og þar, sem og í myndinni Superbad, leikur Cera sams konar vandræðalegan en fyndinn aula. Eins fyndið og það er þá leikur einmitt Jason Bateman í Juno en hann lék föður Cera í Arrested Development. Leikur Batemans er jafn áreynslulaus og áður og er gaman að fylgjast með honum.

Aðrir leikarar á borð við Jennifer Garner, Allison Janney og þá sérstaklega J.K. Simmons standa sig vel. Tónlistin í myndinni er frábær; frá upphafslaginu til lokalagsins sem slær þægilega botninn í myndina. Frumleg og sjaldheyrð „indie“ tónlist fer myndinni mjög vel.

Juno kom mér ótrúlega á óvart á sínum tíma og hún stendur ennþá fyrir sínu í dag. Þetta er falleg og hjartnæm mynd þar sem slegið er á létta strengi þótt þroskuð sagan sé í fyrirrúmi.

Leikstjóri: Jason Reitman
Handrit: Diablo Cody
Leikarar: Ellen Page, Michael Cera, Jason Bateman, Jennifer Garner, Allison Janney, J.K. Simmons og Rainn WilsonSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða