A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Kick-Ass 2 | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Kick-Ass 2 (2013)

23. ágúst '13 16:00 Kick-Ass 2

„Kick-Ass 2 er því miður bömmer sem gerir ansi lítið úr þeirri snilld sem á undan er gengin og því best að reyna að gleyma henni sem fyrst. Og kíkja bara aftur á þá fyrstu. “

Kick-Ass er með betri dæmum um með hversu vel myndasaga og kvikmynd geta runnið saman í frábæra heild. Leikstjórinn Matthew Vaughn (X-Men: First Class, Layer Cake) vann þessa frábæru mynd upp úr samnefndri myndasögu þeirra Mark Millar og John Romita Jr. árið 2010. Hann sló hvergi af í gríninu og groddalegu ofbeldinu þannig að eftir stóð frábær ofurhetjumynd sem gerði um leið góðlátlegt grín að ofurhetjum, sem fyrirbærum, og lúðunum sem helst gafa sig að lestri hasarblaða.

Kick-Ass 2 tekur upp þráðinn nokkurn veginn þar sem frá var horfið þótt persónurnar séu orðnar aðeins eldri. Myndasögunni er fylgt áfram en dæmið sem gekk svo fullkomlega upp áður gengur ekki upp núna. Ferskleikinn er farinn af þessu öllu saman. Myndin er þvæld og langdreginn, grínið er ekki lengur fyndið og þótt ruddalegt ofbeldið sé enn á sínum stað þá þjónar það einhvern veginn ekki sama tilgangi og áður og gerir ekkert fyrir mann. Miðað við þær væntingar sem Kick-Ass byggði upp er því ekki hægt að lýsa framhaldinu sem öðru en stórkostlegum vonbrigðum.

Hetjurnar eru enn í alls konar krísum. Hit-Girl er að reyna að hætta í ofurhetjubransanum og reyna að lifa eðlilegu lífi fimmtán ára stúlku í takt við hinstu ósk föður hennar. Kick-Ass sjálfur er hins vegar enn með fiðring í tánum og tekur búninginn fram að nýju og gengur til liðs við hetjugengi sem er innblásið af fyrri afrekum hans sjálfs. Þar fer fremstur Jim Carrey, nokkuð hress og skemmtilegur, í hlutverki fyrrum mafíósans Colonel Stars and Stripes sem hefur snúið blaðinu við og lúskrar á gömlum kollegum.

Ofurhetjurnar eru þó ekki lengi í sýndarveruleikaparadísinni sinni þar sem krimmasonurinn Chris D'Amico rembdist skemmtilega hallærislega við að vera ofurskúrkurinn Red Mist í Kick-Ass er endanlega genginn af göflunum. Nú er hann því miður bara hallærislegur og yfirkeyrður í bjánagangi þegar hann stígur fram sem skúrkurinn The Motherfucker í búningi sem gerður er úr latexgöllum móður hans. Hann safnar í kringum sig harðsnúnum krimmum og morðingjum og dressar þá upp í búninga sem minna einna helst á The Village People á sýrutrippi.

The Motherfucker ætlar sér fyrst og fremst að drepa Kick-Ass og svífst einskis til þess að ná settu marki þannig að líkin fara að hrannast upp. Kemur þá vitaskuld í hlut Hit-Girl að bjarga málunum. Eiginlega í tvennum skilningi þar sem hún var æðislegust í fyrstu myndinni og er sú eina í góða genginu sem eitthvað kann fyrir sér í drápum og limlestingum. Svakalegt lokauppgjör er því óumflýjanlegt en þrátt fyrir allan djöfulganginn er það orðið leiðinlegt á að horfa áður en það er hálfnað.

Hit-Girl er ennþá eitursvöl en hún bjargar þvældri loðmullunni sem Kick-Ass 2 er ekki ein síns liðs, enda er hún sjálf dreginn ofan í hallærislegheitin í bjánalegu skólastelpudrama. Kick-Ass 2 er því miður bömmer sem gerir ansi lítið úr þeirri snilld sem á undan er gengin og því best að reyna að gleyma henni sem fyrst. Og kíkja bara aftur á þá fyrstu.

 

Leikstjóri: Jeff Wadlow
Handrit: Jeff Wadlow, Mark Millar, John Romita Jr.
Leikarar: Aaron Taylor-Johnson, Chloë Grace Moretz, Morris Chestnut, Christopher Mintz-Plasse, John Leguizamo, Jim CarreySvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða