A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Killing Them Softly | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Killing Them Softly (2012)

7. desember '12 12:15 Killing Them Softly

„Það er ekki auðvelt verk að heimfæra ástandið í Bandaríkjunum árið 2008 upp á þrjá seinheppna glæpamenn, leigumorðingja, lögmann, mafíuna og rán en Dominik tekst það. Myndlíkingin þreytist þegar lengra er komið í myndinni og dregur úr drifkrafti atburðarásarinnar í kringum ránið...“

Þrír smáglæponar ræna pókerleik hjá mafíunni. Leigumorðinginn og „reddarinn" Jackie er feginn til þess að hafa uppi á þeim sem stóðu bakvið ránið og koma á reglu í undirheimunum.

Það er ágætt að koma þessu á hreint áður en lengra er haldið. Þótt að söguþráður, kynningarefni og meira að segja titill Killing Them Softly vísi til þess að myndin sé skotbardaga- eða hasarmynd þá er það ekki tilfellið.

Leikstjórinn Andrew Dominik sendir hér frá sér sína þriðju mynd eftir að hafa gert hinar fantagóðu Copper og vestran The Assassination of Jesse James by the Coward Robert Ford þar sem Brad Pitt fór með hlutverk James. Rétt eins og með Jesse James þá er Killing Them Softly ótrúlega hægfara en stígmagnandi spennumynd. Ekki ólíkt kvikmyndum Quentins Tarantino þá felst spennan í samtölum og afar lágstemmdum hasar.

Myndin gerist árið 2008 en ekki á áttunda áratugnum eins og bókin, Cogan's Trade eftir George V. Higgins, sem hún byggir á. Kreppan er nýskollinn á og baráttan um embætti forseta Bandaríkjanna stóð sem hæst. Í gegnum myndina óma kosningaræður Barrack Obama og ávarp George Bush Bandaríkjaforseta í bakgrunninum. Sérstök áhersla er lögð á hvernig Bandaríkin eru sem heild; sem fólk og þjóð.

Atburðarásin í myndarinnar í smættuðum heimi mafíunnar er augljóst bergmál af ástandinu í landinu og er hömruð vandlega inn á fyrsta klukkutímanum en þreytist þegar líður á myndina. Lokaorð einnar persónunnar slær botninn all hressilega í líkinguna sem er upp þeim punkti orðinn ofhlaðin. Bandaríkin voru í djúpum og það komst til skila á margan hátt. Það er bara svo margt annað sem skilið er eftir í lausu lofti einungis til þess að keyra söguna áfram að þessum endapunkti. Það var svo miklu, miklu meira sem hefði mátt segja frá í fari persónanna.

Pitt er frábær í hlutverki sínu sem handrukkarinn Jackie. Það hefur ekki sést jafn hæglátur og yfirvegaður leigumorðingi síðan Léon var og hét í samnefndri mynd frá árinu 1994. Jackie er ekki allur þar sem hann er séður og ef hans hlutskipti hefði fengið ögn meira svigrúm hefði það bara gert myndinni gott. Richard Jenkins fer með áreynslulaust hlutverk lögfræðings sem er milligönguliður milli mafíunnar og Jackie. Ray Liotta á hinsvegar besta leik myndarinnar sem stjórnandi pókerleiksins. Liotta hefur ekki verið betri síðan í Goodfellas tveimur áratugum áður. James Gandolfini fær bitastætt hlutverk sem drykkfeldur leigumorðingi sem rætist ekkert úr og Sam Shepard sést í mýflugumynd sem harðhausinn Dillon.

Það er ekki auðvelt verk að heimfæra ástandið í Bandaríkjunum árið 2008 upp á þrjá seinheppna glæpamenn, leigumorðingja, lögmann, mafíuna og rán en Dominik tekst það. Myndlíkingin þreytist þegar lengra er komið í myndinni og dregur úr drifkrafti atburðarásarinnar í kringum ránið og Jackie. Killing Them Softly er lágstemmd og róleg spennumynd og nokkuð góð sem slík en hefði getað orðið töluvert betri.

Leikstjóri: Andrew Dominik
Handrit: Andrew Dominik
Leikarar: Brad Pitt, Ray Liotta, James Gandolfini, Richard Jenkins, Sam ShepardSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða