A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Last Vegas | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Last Vegas (2013)

4. febrúar '14 13:48 Last Vegas

„Last Vegas er nánast laus við alla timburmenn og er tilvalin fyrir þá sem vilja krútta yfir sig á fjórum reynsluboltum að ræða um gömlu tímana og stara á ungar dömur. “

Fjórir æskuvinir, sem komnir eru af léttasta skeiði, skella sér til Las Vegas þegar sá síðasti úr hópnum er við það að ganga í hið heilaga sem gefur félögunum ærlegt tilefni til að sletta hressilega úr klaufunum í borg syndanna.

Núna þegar Úlfagengið úr The Hangover-myndunum hefur lokið ævintýri sínu í Las Vegas er röðin komin að margföldum óskarsverðlaunahöfum að mála bæinn rauðan. Það er ekki daglegt brauð að þungavigtarleikarar eins og Robert De Niro, Morgan Freeman, Michael Douglas og Kevin Kline komi saman í einni og sömu myndinni en sín á milli eiga þeir hvorki meira né minna en fjórtan óskartilnefningar og sex styttur.

Allir félagarnir hafa gutlað við gamanleik á einhverjum tímapunkti og hefur vel tekist í þónokkur skipti en eins mikið og leikhópurinn lofar góðu þá nær myndin aldrei almennilegu flugi. Einhvern veginn hefði mátt búast við öðru af handritshöfundi hinnar frábæru Crazy, Stupid Love. og Disney-myndarinnar Tangled. Einmitt þegar útlit er fyrir að allt verði sett í fimmta gír hjá þeim félögum þá er snögglega kúplað niður í annan gír og svo fyrsta.

Það er ekkert smá gaman að sjá þessar kempur koma saman, gantast með aldurinn og gera grín hvor að öðrum en þeir hjakka í sama farinu út myndina. Í staðinn fyrir að upplifa nýja og spennandi hluti eins og lagt var upp með í byrjun myndarinnar fer þetta allt í umræðu um gömlu árin, ókláruð mál og víagra.

Freeman hlotnast sá heiður að vera ofurtöffari myndarinnar þegar hann heillar hverja dömuna á fætur annarri er hann tekur nokkur vel valin spor á dansgólfinu. Kline fylgir honum fast á eftir veifandi smokk og víagra framan í alla og mæður þeirra en De Niro og Douglas standa þeim langt að baki vegna húmorsleysiss persóna þeirra. Báðir hafa þeir nefnilega augastað á söngkonunni Díönu, sem Mary Steenburgen leikur. Hún er þarna samt því miður meira upp á punt og hefur lítið um ágang þeirra tveggja að segja.

Last Vegas er nánast laus við alla timburmenn og er tilvalin fyrir þá sem vilja krútta yfir sig á fjórum reynsluboltum að ræða um gömlu tímana og stara á ungar dömur. Leikarar af sömu þungavigt eins þeir félagar ættu þó að geta gert töluvert betur en þetta. Ekki vegna þess að þeir eru svo góðir leikarar heldur vegna þess að þeir hafa áður verið talsvert fyndnari en þetta.

Leikstjóri: Jon Turteltaub
Handrit: Dan Fogelman
Leikarar: Robert De Niro, Morgan Freeman, Michael Douglas, Kevin Kline, Mary Steenburgen og Jerry Ferrara



Svarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða