A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Les Misérables | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Les Misérables (2012)

31. janúar '13 11:44 Les Misérables

„Útlit myndarinnar er óaðfinnanlegt og sömuleiðis stjörnur myndarinnar, þau Jackman og Hathaway, sem eru um þessar mundir að raka inn verðlaunum fyrir frammistöðu sína. Söngleikurinn er sagður vera magnaður og óskandi væri að það sama mætti segja um myndina.“

Á fyrri hluta 19. aldar er Jean Valjean dæmdur í fangelsi í tvo áratugi fyrir að hafa hnuplað brauði. Eftir að hafa afplánað dóm sinn ákveður hann, á skilorði, að hefja nýtt líf og komast undan lögreglumanninum Javert sem hefur svarið þess dýran eið að koma honum aftur á bak við lás og slá. Þegar Valjean rænir fyrsta manninn sem réttir honum hjálparhönd án þess að sá kæri sig um að hegna honum lítur Valjean svo á að honum hafi verið gefið annað tækifæri og einsetur sér að reyna framvegis að koma þeim til bjargar sem minna mega sín.

Margrómaður söngleikur þeirra Alain Boublil og Claude-Michele Schönberg ratar nú í kvikmyndahús eftir að hafa eiginlega verið settur upp á nánast öllum leikhúsfjölum í heiminum. Svona næstum. Les Misérables eða Vesalingarnir byggja á samnefndri sögu Victors Hugo og að þessu sinni er það leikstjórinn Tom Hopper sem skilar sígildri og sunginni sögunni á tjaldið en hann gerði síðast hina stórgóðu The King's Speech. Sú mynd hirti Óskarinn sem besta myndin í fyrra auk þess sem Hopper hreppti styttu fyrir bestu leikstjórn.

Ekki fer á milli mála að hér er á ferðinni ótrúlega metnaðarfullt verkefni, jafnvel of umfangsmikið fyrir eina kvikmynd. Söngleikurinn er sá mest sýndi og á meðal þeirra vinsælustu í heimi en þrátt fyrir það hefur undirritaður aldrei lesið eða séð Vesalingana á fjölum nokkurs leikhúss. Margir þekkja þó sögu Jeans Valjean, boðskapurinn sígildur ekki síður hin fjölmörgu lög söngleiksins.

Þótt söngleikurinn hafi farið sigurför um heiminn þýðir það ekki að sagan eða lögin henti kvikmyndaforminu eins og kemur á daginn í þessu tilfelli. Sagan er ótrúlega umfangsmikil þar sem hún spannar fleiri áratugi og mikill tími fer í að búa til svigrúm fyrir hverja persónu um sig en allar þurfa þær að fá að láta ljós sitt skína. Fyrri hluti myndarinnar rennur töluvert betur í gegn en sá síðari þar sem þvæld atburðarásin kallast lítið á við það sem á undan er gengið þannig að róðurinn þyngist með hverri mínútu í seinni hálfleik.

Þungamiðja síðari hlutans er  ástarsamband turtildúfnanna Cosette og Marius sem enginn grunnur er fyrir. Ástin virðist kvikna á einu augnabliki og samt vera þess virði að drepast fyrir. Myndin slefar í þrjá tíma og í ljósi þess að hver ein og einasta setning í myndinni er sungin þá verður hún fljótt þreytandi. Samt er ástin auðvitað ósigrandi. Við náðum því alveg.

Hooper ræðst ekki á garðinn sem lægstur og leikstýrir föngulegum og stórum hópi leikara þar sem sungið er í mynd en ekki í hljóðveri mörgum mánuðum áður. Leikhópurinn stendur sig með stakri prýði en þau Hugh Jackman og Anne Hathaway bera myndina á sínum breiðu herðum í hlutverkum Jean Valjean og hinnar þjáðu Fantine. Söngfuglinn Russell Crowe þenur raddböndin í hlutverki Javerts en er kraftlaus og flatur. Þrátt fyrir að vera stórgóður leikari, og í þungavigt, þá veldur Crowe því ekki að syngja og leika á sama tíma. Amanda Seyfried og Eddie Redmayne fara með hlutverk þeirra Cosette og Marius. Sacha Baron Cohen og Helena Bonham Carter koma fram í minni hlutverkum í kómísku söngatriði sem virkar illa með heildinni.

Eins og áður fyrr segir er Les Misérables sérstaklega metnaðarfull mynd og er flestir þættir hennar eru óaðfinnanlegir. En þótt undirritaður komi nánast alveg grænn að sögunni blasir við að margt hefði mátt fara betur. Ekki má gleyma því að hér er um kvikmynd að ræða sem byggir á söngleik sem byggir á bók. Því má vera nokkuð ljóst að í söngleiknum hefur einhverju í frumtextanum verið breytt og að sama skapi hefði mátt laga söngleikinn betur að kvikmyndinni. Útlit myndarinnar er óaðfinnanlegt og sömuleiðis stjörnur myndarinnar, þau Jackman og Hathaway, sem eru um þessar mundir að raka inn verðlaunum fyrir frammistöðu sína. Söngleikurinn er sagður vera magnaður og óskandi væri að það sama mætti segja um myndina.

Leikstjóri: Tom Hooper
Handrit: William Nicholson, Alain Boublil, Claude-Michel Schönberg, Victor Hugo, Herbert Kretzmer, James Fenton
Leikarar: Hugh Jackman, Russell Crowe, Anne Hathaway, Amanda Seyfried, Sacha Baron Cohen, Helena Bonham Carter, Eddie RedmayneSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða