A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Life of Pi | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Life of Pi (2012)

21. desember '12 15:32 Life of Pi

„Life of Pi er kynngimögnuð frásögn um þrautseigju, ást, trú og baráttu milli lífs og dauða í ólgusjó tilverunnar. Þessi gullfallega og hjartnæma kvikmynd er án efa ein af bestu myndum ársins og ekki er annað hægt en að segja en að Life of Pi sé töfrum líkust.“

Fjölskylda sem rekur dýragarð á Indlandi ætlar að freista gæfunnar í Kanada og þangað er förinni heitið með skipi ásamt öllum dýrunum úr garðinum. Úti á rúmsjó skellur á óveður og skipið ferst. Hinn ungi Pi kemst einn lífs af í björgunarbáti ásamt hýenu, órangútan, sebrahesti og bengal tígrisdýri, og er þá ævintýrið er rétt að byrja.

Life of Pi er ævintýramynd sem er engu lík. Leikstjórinn margverðlaunaði Ang Lee leikstýrir hér sinni fyrstu ævintýramynd og hún er einstök. Lee á það til að vera mistækur en þegar honum tekst vel upp er yfirleitt um virkilega góðar og vandaðar myndir að ræða. Hann hefur svo sannalega sýnt í gegnum tíðina og staðfestir það nú að hann er jafnvígur í hvaða kvikmyndategund (e. genre) sem er. Allt frá átakanlegum dramamyndum yfir í einmitt, ævintýramynd á borð við Life of Pi.

Myndin er byggð á samnefndi bók Yann Martel og handrit eftir David Magee. Áður var sagt um bókina að ómögulegt væri að kvikmynda hana en Lee og Magee hafa heldur betur afsannað þá kenningu. Frásagnarmátinn er á þann veg að Pi segir á efri árum rithöfundi sögu sína. Þetta brýtur ögn flæðið en hjálpar manni að hafa hugfast að hann lifði þessar ógöngur af og varpar ljósi á ýmsa aðra atburði sem eiga sér stað. Frásögn Pi eldri er mjög átakanleg en það er ljós í myrkrinu og sjálfsbjargarviðleitni Pi er aðdáunnarverð. Boðskapurinn að gefast ekki upp þótt á móti blási er sígildur og er margreyndur.

Suraj Sharma fer með vandmeðfarið hlutverk Pi á yngri árum. Þetta er fyrsta hlutverk hins efnilega leikara og það er eflaust hægara sagt en gert að valda slíku burðarhlutverki. Ekki síst þegar um óreyndan leikara er að ræða. Sharma hefur afar góð tök á tilfinningum sínum og kemur öllum þessum mánuðum á opnu hafi til skila. Þessi ungi leikari á vonandi eftir að sjást meira í framtíðinni og á bara eftir að verða betri.

Lee notast við tiltölulega óþekkta leikara í myndinni að undanskildum Pi eldri sem Irrfan Khan leikur og Frakkanum góða Gérard Depardieu. Þetta gefur myndinni ákveðinn raunveruleikablæ eða gerir frásögnina í það minnsta frábrugðnari því að sjá Tom Hanks úti á rúmsjó í Cast Away.

Tæknibrellur myndarinnar eru stórglæsilegar og þá sérstaklega tölvuteiknaða tígrisdýrið. Undirritaður gat ekki séð einn einasta mun á þessu tölvugerða tígrisdýri og raunverulegu. Þau eru ófá atriðin þar sem má gleyma sér og dást af þessu stórbrotna umhverfi þeirra kumpána, Pi og tígursins. Hver einn og einasta ramma í myndinni mætti ramma inn og setja upp á vegg en Lee beitir myndmálinu óspart og af miklu listfengi. Þrívíddarvinnslan er til fyrirmyndar og myndin nýtur sin einkar vel í þriðju víddinni.

Life of Pi er kynngimögnuð frásögn um þrautseigju, ást, trú og baráttu milli lífs og dauða í ólgusjó tilverunnar. Þessi gullfallega og hjartnæma kvikmynd er án efa ein af bestu myndum ársins og ekki er annað hægt en að segja en að Life of Pi sé töfrum líkust.

Leikstjóri: Ang Lee
Handrit: David Magee, Yann Martel
Leikarar: Suraj Sharma, Irrfan Khan, Adil Hussain, Tabu, Rafe Spall, Gérard DepardieuSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða