A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Lilya 4-Ever | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Lilya 4-Ever (2002)

13. desember '11 16:00 Lilya 4-Ever

„Heimurinn sem myndin lýsir er viðbjóðslegur og er borinn uppi af samviskulausum illmennum og þótt myndin sé góðra gjalda verð þá þarf meira til þess að hrista upp í liðinu sem leyfir sér að lifa í þeirri trú að mansal sé eitthvert smámál...“

Mansal og tengsl þess við vændisviðbjóð eru áberandi í umræðunni um þessar mundir enda veitir víst ekki af að halda meðvitundarlausu fólki við efnið í þeim viðbjóðslega málaflokki. Hinn fjölhæfi og beitti sænski leikstjóri Lukas Moodysson hlífði áhorfendum sínum hvergi þegar hann nuddaði þeim upp úr vændishryllingnum með þessari fyrnasterku mynd árið 2002.

Viðfangsefnið er alveg jafn brýnt nú og þá enda er verslun með fólk síður en svo í rénun þannig að Svarthöfði dregur nú Lilya 4-Ever úr bunka sínum og hvetur alla til þess að horfa á hana. Hvort sem þeir hafa séð hana áður eður ei.

Ég held að ég hafi ekki grátið jafn mikið í bíó síðan ég sá Titanic þegar ég fór á þessa mynd í Háskólabíó. Lilya 4-Ever er áhrifarík og átakanleg mynd um vonleysi stúlku frá fyrrum Sovét sem er véluð í vændi í Svíþjóð.

Aumingja Lilya á aldrei séns og enginn þarf að efast um það að raunveruleiki fjölda stúlkna er í raun miklu harkalegri en sá hryllingur sem Moodyson bregður upp í hér. Myndin vakti og á að vekja allt sómakært fólk til umhugsunar. Hún ristir djúpt en það er fyrst og fremst þrusugóðum leik Oksana Akinshina í hlutverki Lilyu að þakka. Þessi sakleysislega og glaðlega stúlka heillar frá upphafi og það er átakanlegt að fylgjast með öllum draumum hennar hrynja.

Hins vegar er skautað full hratt yfir sögu þegar hún er kominn í klærnar á mansalsskepnunum í Svíaríki. Þá er það viss huggun að hún skuli fá vængi og geta spilað körfubolta á himnum en áhorfendur eiga ekki að fá neina huggun og það hefði verið sterkara að skilja við hana í blóði sínu á malbikinu.

Heimurinn sem myndin lýsir er viðbjóðslegur og er borinn uppi af samviskulausum illmennum og þótt myndin sé góðra gjalda verð þá þarf meira til þess að hrista upp í liðinu sem leyfir sér að lifa í þeirri trú að mansal sé eitthvert smámál eða ýkjur í brjáluðum femínistum. Þeir sem á annað borð kaupa sér kynlíf og selja það myndu sjálfsagt ekki einu sinni fá móral ef þeir slysuðust til að fylgjast með stuttri og ömurlegri helför Lilyu sem deyr nafnlaus í framandi landi og skilur ekkert eftir sig nema áletrun á garðbekk í fyrrum Sovét.

Skilaboðin Lilyu eru samt skýr og um að gera fyrir sem flesta að fara yfir þau með reglulegu millibili. Enga þöggun hér gott fólk!

Leikstjóri: Lukas Moodysson
Handrit: Lukas Moodysson
Leikarar: Oksana Akinshina, Artyom Bogucharskiy



Svarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða