A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Lincoln | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Lincoln (2012)

14. febrúar '13 11:49 Lincoln

„Spielberg hefur með Lincoln gert íburðarmikla og vandaða mynd. Hún mun seint kallast skemmtileg enda ekki gerð í þeim tilgangi, heldur upplýsandi og fræðandi mynd um þennan merka mann og hans störf.“

Síðustu mánuðir Abrahams Lincoln eru teknir fyrir í kvikmynd Stevens Spielberg um þennan 16. forseta Bandaríkjanna. Þessir mánuðir voru afdrifaríkir þar sem hann, ásamt öðrum, afnámu þrælahald auk þess sem Norðurríkjamenn sigruðu í blóðugri borgarastyrjöldinni sem oft er nefnd Þrælastríðið.

Spielberg hefur tæklað nánast allar kvikmyndategundir á síðastliðnum tveimur áratugum; allt frá vísindaskáldskap til gamanmynda, yfir í ævintýramyndir og ævisögumyndir á borð við Lincoln. Myndirnar hafa verið jafn góðar og þær mismunandi.

Samkvæmt sögubókunum er Lincoln ótrúlega merkilegur maður en rétt eins og einhver spekingurinn sagði fyrir margt löngu þá er sagan skrifuð af sigurvegurum. Lincoln hafði gríðarleg áhrif á mótun Bandaríkjanna og hann hafði margt til málanna að leggja sem kannski varðar okkur hérna á litla skerinu ekkert sérstaklega. Lincoln vann gott starf og lagði allt sitt að mörkum. Viðfangsefnið snertir okkur þó skiljanlega töluvert minna en þá vestanhafs sem hefur í för með sér að myndin höfðar auðvitað fyrst og fremst til Bandaríkjamanna.

Spennan í myndinni er fólgin í hnífjafnri atkvæðagreiðslu sem snýr að breytingu á þrettándu grein stjórnarskrár Bandaríkjanna um þrælahald. Hinum ýmsu persónum er fólgið það verkefni að veiða atkvæði á einn eða annan máta. Pólitískar kvikmyndir eru yfirleitt uppbyggðar þannig upp að ef litið er undan eða athyglin er lítil geta heilu og hálfu pólitísku flétturnar farið framhjá áhorfendum. Lincoln er slík mynd á yfirsnúningi og skiptir litlu hvort eitt þessara hundruði nafna eða persóna fara framhjá áhorfendum þar sem niðurstaðan er alltaf sú sama; Lincoln tekst ætlunarverk sitt rétt eins og handritshöfundunum, þeim Spielberg og Tony Kushner

Spielberg hefur smalað saman öflugum hópi leikara í stór sem smá hlutverk, alvarleg og kómísk. Þungamiðja myndarinnar er Daniel Day-Lewis í hlutverki forsetans. Það má segja að hann sé holdgervingur forsetans og skilar hann af sér magnþrunginni frammistöðu sem kemur ekkert á óvart þegar Day-Lewis á í hlut. Hver einasta setning rennur af tungu hans líkt og hún verði til í huga hans.

Þeim Sally Field og Tommy Lee Jones hefur verið hampað fyrir frammistöðu sína á fjölda verðlaunahátíða og þar er dálítið vel í lagt. Jones er þrusugóður en Field er óttalega leiðigjörn og þvinguð í leik sínum. Þeir James Spader, John Hawkes og Tim Blake Nelson koma skemmtilega inn í myndina sem skrautlegur hópur lobbíista á snærum Lincolns. Leikhópurinn í heild sinni er prýðilegur og væri einfaldara að skrifa um hvaða leikarar skila ekki af sér góðum leik frekar að skrifa um þá sem gera það.

Spielberg hefur með Lincoln gert íburðarmikla og vandaða mynd. Hún mun seint kallast skemmtileg enda ekki gerð í þeim tilgangi, heldur upplýsandi og fræðandi mynd um þennan merka mann og hans störf. Vitaskuld eru þó tekin viss skáldaleyfi til þess að krydda og skapa spennu en það kemur svo sannalega ekki niður á myndinni sem slíkri.

Leikstjóri: Steven Spielberg
Handrit: Tony Kushner, Doris Kearns Goodwin
Leikarar: Daniel Day-Lewis, Sally Field, Tommy Lee Jones, Joseph Gordon-Levitt, Hal Holbrook, James Spader, John Hawkes, Tim Blake Nelson, David Strathairn, Walt Goggins, Jackie Earle HaleySvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða