A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Lone Survivor | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Í bíó: Lone Survivor (2013)

1. febrúar '14 16:32 Lone Survivor

„... Lone Survivor reyndist vera hörkugóð mynd sem er laus við það að dregin sé upp yfirborðskennd ímynd hermannsins, heldur lætur hann verkin tala.“

Fjórir sérsveitarmenn úr sjóher Bandaríkjanna eru gerðir út til að ráða leiðtoga Talibana í afskektu þorpi í Afganistan af dögum. Þegar á staðinn er komið og skotmarkið innan seilingar koma fjárhirðar úr sama þorpi að þeim. Fjórmenningarnir standa þá frammi fyrir því að þurfa að ákveða hvort þeiri eigi að taka hirðana af lífi eða sleppa þeim og eiga á hættu að fá herskáa Talibana á hælana.

Peter Berg skrifar og leikstýrir Lone Survivor eftir samnefndri bók sérsveitarmannsins Marcus Luttrell sem komst einn lífs af úr þessum hremmingum,og er það gefið upp í byrjun myndarinnar. Myndin er markaðssett á þeirri forsendu að hún byggi á „sönnum hetjudáðum,“ en orðið „hetja" er án efa eitt þreyttasta orð sem notað er í kringum markaðssetningu kvikmynda og hefur því fyrir löngu tapað merkingu sinni. Orðinu er reglulega troðið inn í sýnishorn og plaköt í von um að það dragi fólk í bíó og á meðan það svínvirkar vestanhafs er aðdráttaraflið eitthvað minna hérna á norðurhjaranum. En nóg um það.

Í upphafi myndarinnar er sýnt frá þeim þolraunum sem sjóliðar þurfa að ganga í gegnum til þess að sanna ágæti sitt og komast í þennan úrvalshóp sem treyst er á þegar allt er undir og þessir menn leggja allt í sölurnar. Í öllum þeim átökum sem fjórmenningarnir ganga í gegnum er merkilegt að sjá hvernig þeir minna hvor annan á þá staðreynd að þeir séu í þessum úrvalshópi og jafnvel það eitt heldur þeim gangandi. Þeir láta nefnilega ekkert stöðva sig en það skortir hvorki hávaðann né hasarinn í myndina þar sem fjöldi spennandi hasaratriða ýta manni á sætisbrúnina.

Maður gæti haldið að hér væri á ferðinni áróðursbatterí sjóhersins en þegar líður á myndina liggur í augum uppi að hér er ekki reynt að draga upp glansmynd af vinnu mannanna eða stríðsrekstri. Þetta gefur myndinni trúverðugleika sem eykst enn frekar í smáatriðum í fari hermannanna, talsmáta þeirra, hegðun og gjörðum sem virka falslausar og ekta. Manni finnst þessir menn svarnir í bræðralag og samskipti þeirra benda ekki til annars. Þeir eru band of brothers.

Leikararnir Mark Wahlberg, Taylor Kitsch, Emile Hirsch og Ben Foster mynda teymið og þeir eru prýðilegir í hlutverkum sínum. Wahlberg er sérstaklega góður í hlutverki Luttrells en undir felulitum hasarleikarans leynist nefnilega fantagóður leikari. Áhættuleikurinn stendur upp úr í fjölda atriða og þá sérstaklega í tveimur atriðum þegar hópurinn stekkur fram af klettum þar sem ekkert nema hrjóstug hlíð og klettagarður bíða þeirra. Maður getur varla annað en litið undan þegar mennirnir skella á klettunum og skoppa af grjótinu og beinbrotna um leið.

Efnistökin, auglýsingar og margt annað benda til þess að Lone Survivor falli undir flokk kvikmynda sem lofsyngja bandaríska herinn með tilheyrandi lúðrablæstri og fánahyllingum í bakgrunni. Annað kemur þó á daginn og það verður að segjast eins og er að Lone Survivor reyndist vera hörkugóð mynd sem er laus við það að dregin sé upp yfirborðskennd ímynd hermannsins, heldur lætur hann verkin tala.

Leikstjóri: Peter Berg
Handrit: Peter Berg, Marcus Luttrell, Patrick Robinson
Leikarar: Mark Wahlberg, Taylor Kitsch, Emile Hirsch, Ben Foster, Eric BanaSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða