A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Man Bites Dog | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Beint-á-DVD: Man Bites Dog (1992)

2. nóvember '11 00:00 Man Bites Dog

„Sá í fréttum að hundur hefði bitið konu og einhverra hluta vegna fór ég í framhaldinu að hugsa um hina bráðskemmtilegur hryllingsgrínheimildarmynd Man Bites Dog enda er kannski ekki neitt vit í öðru en að bíta hundana bara á móti.“

Sá í fréttum að hundur hefði bitið konu og einhverra hluta vegna fór ég í framhaldinu að hugsa um hina bráðskemmtilegu hryllingsgrínheimildarmynd Man Bites Dog enda er kannski ekki neitt vit í öðru en að bíta hundana bara á móti. Óþarfi að skjóta þá. Ég sá þessa belgísku mynd fyrir fjöldamörgum árum og minnist þess nú ekki að neinn hundur hafi verið bitinn í henni en morðinginn Benoit drap hins vegar vænan slatta af fólki.

Myndin er „mockumentary“ og segir frá hópi kvikmyndagerðarfólks sem fær að fylgjast með morðingjanum Benoit, í leik og starfi, með tökuvélina á lofti. Þrátt fyrir vafasama iðju sína er Benoit hin viðkunnanlegasti náungi, enda er hann ekki fjöldamorðingi í hefðbundnum skilningi, fellur í það minnsta ekki inn í hið klassíska munstur hvað varðar félagslegan bakrunn og lífsstíl.  Hann er í góðu og nánu sambandi við fjölskyldu sína, á vinkonu og er mjög ræðin, hress og líflegur.  

Hann myrðir nokkurnvegin út í bláinn, hefur gaman að drápunum og blaðrar og hlær linnulaust á meðan á morðunum stendur, þannig að hann gæti alveg eins verið að dæla bensíni eða elda lasagne.  Kvikmyndagerðarmennirnir, sem vinna að myndinni um hann heillast jafnt og þétt að honum (og áhorfandinn um leið), og verða stöðugt meiri þáttakendur í illvirkjum hans.  Þáttaka kvikmyndagerðarmannanna og siðblinda nær hámarki þegar þeir taka þátt í hópnauðgun með illmenninu.

Heimildarmyndastílinn og sú undarlega staðreynd að kvikmyndagerðarmennirnir sjái ekkert að því að filma morð og limlestingar án þess að grípa inní þangað til þeir verða beinlínis gerendur færa áhorfandann býsna nálægt Benoit. Við þvælumst með morðingjanum. Hann skemmtir okkur með  blaðri og kómísku sjónarhorni á viðbjóðslega dægradvöl sína.  Og rétt eins kvikmyndagerðarmenirnir getur áhorfandinn ekki annað en heillast og getur oft ekki stillt sig um að hlæja að óhugnaðinum. Myndin flokkast því tæpast sem hreinræktaður hryllingur, hún tekur sig ekki mjög hátíðlega, og er kannski fyrst og fremst stúdía í því hversu mikinn áhuga fólk hefur á því að horfa á ofbeldi og morð á hvíta tjaldinu (og gælir ef til vill við fantasíu um að gerast þátttakandi).

Man Bites Dog fær mann í það minnsta til þess að staldra við og kannski skammast sín smá fyrir að hlæja að voðaverkum Benoits en einhverra undarlegra hluta vegna kemst maður ekki hjá því að skemmta sér yfir öllum þessum ósköpum.

 

Leikstjóri: Rémy Belvaux, André Bonzel, Benoît Poelvoorde
Handrit: Rémy Belvaux o.fl.
Leikarar: Benoît Poelvoorde, Jacqueline Poelvoorde-PappaertSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða