A PHP Error was encountered

Severity: Notice

Message: Only variable references should be returned by reference

Filename: core/Common.php

Line Number: 257

Millenium-þríleikurinn | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði

Úr bunkanum: Millenium-þríleikurinn (2009)

20. desember '11 12:25 Millenium-þríleikurinn

„Salander er geggjuð og Rapace er sjúklega kúl þegar hún túlkar þessa brjálæðislega svölu píu sem hatar karla sem hata konur.“

The Girl With the Dragon Tattoo, bandarísk útgáfa Davids Fincher af, Karlar sem hata konur, fyrsta hluta þríleiks Stiegs Larssons um baráttu tölvuhakkarans Lisbeth Salander og blaðamannsins Mikaels Blomkvist við vonda menn og spillt kerfið verður frumsýnd á Íslandi á morgun. Af því tilefni dregur Svarthöfði fram sænska þríleikinn úr bunkanum og rifjar upp þennan magnaða þríleik.

 

Karlar sem hata konur 4 stjörnur

Glæpasagan Karlar sem hata konur eftir Stieg Larsson er þrælspennandi og bráðskemmtileg. Óhugnanleg á köflum, jafnvel yfirgengileg og stundum dásamlega ýkt. Ekki skemmir heldur fyrir að sagan er borin uppi af sérdeilis skemmtilegum og áhugaverðum persónum, blaðamanninum Mikael Blomkvist og tjúllaða tölvuhakkaranum Lisbeth Salander.

Bókin er heljarmikill doðrantur upp á rúmar 500 blaðsíður og ekki veitir af síðuplássinu þar sem sagan er flókin og teygir sig langt aftur í tíma og gerist á nokkrum plönum. Þá gefur Larsson sér drjúgt pláss til þess að kynna Blomkvist og Salander til leiks þannig að það er alveg hellingur í gangi og í sögunni eru svo margir hápunktar að rúmlega hundrað síður standa eftir þegar búið er að leysa morðgátuna og nappa aðal vonda kallinn. Virkar vel á pappír en slær öllu skrýtnari takt fyrir bíómynd.

Eru ekki allir búnir að lesa?
Einhvern veginn finnst manni að það hljóti að vera fullkomin sóun á plássi og prentsvertu að tíunda söguþráð myndarinnar hér þar sem stemningin í kringum bækur Larssons er einhvern veginn þannig að maður hefur á tilfinningunni að hvert einasta íslenskt kvikindi, sem komið er til vits og ára, hafi lesið Karlar sem hata konur.

Formsins vegna er samt best að halda því til haga að Karlar sem hata konur segir frá ægilega svölum og heiðarlegum blaðamanni, Mikael Blomkvist, sem er dæmdur fyrir meiðyrði í garð ógurlegs auðmanns sem gæti verið einhvers konar reglubróðir og æðsti prestur íslenskra kollega sinna þar sem hann er staursiðblindur og mikill meistari í krosseignatengslum og að keyra upp gengi á verðlausu pappírsrusli.

Blomkvist hjólaði í þennan gaur í tímaritinu sínu Millenium en síðar kom í ljós að ekki stóð steinn yfir steini í umfjöllun hans og því bíður hans nú nokkurra mánaða fangelsisvist fyrir að vega að æru auðmannsins.

Á meðan Mikael bíður þess að afplána dúkkar aldraður iðnjöfur upp og biður hann um að rannsaka sögu ættar sinnar með það fyrir augum að komast að því hver drap 16 ára frænku hans sem hvarf sporlaust fyrir 40 árum. Meðfram rannsóknarbrölti Mikaels kynnumst við 24 ára, renglulegri goth-gellu og tölvuhakkara, Lisbeth Salander. Sú glímir við alvarlega félagslega fötlun og er samkvæmt skýrslum á mörkunum að hún eigi að fá að ganga laus, jafn klikkuð og ofbeldishneigð sem hún er.

Lisbeth er samt enginn asni heldur ógeðslega klár tölvuhakkari, með límheila og í meira lagi úrræðagóð, ekki síst þegar kemur að því að verja sig með ofbeldi og vopnum. Leiðir hakkarans og Mikaels liggja saman og hann fær ómetanlega hjálp frá Lisbeth við að leysa flókna morðgátu sem nær aftur til ársins 1949 og verður viðbjóðslegri eftir því sem þau fikra sig nær sannleikanum.

Þykk bók, löööööööng mynd
Það er því síður en svo heiglum hent að koma öllum þessum æsilegu ósköpum Larssons með góðu móti yfir á hvíta tjaldið en hér hefur það tekist með miklum ágætum. Óhjákvæmilega er ýmsu sleppt, annað einfaldað og stundum farið ansi hreint hratt yfir sögu. Þessar breytingar eru í það heila tekið skynsamlegar og í raun bráðnauðsynlegar þar sem myndin teygir sig engu að síður yfir tvær og hálfa klukkustund og þótt alltaf sé nóg að gerast finnur maður stundum fyrir lengdinni og slíkt má helst ekki gerast í spennumyndum.

Hluti vandans er að Blomkvist og Lisbeth þurfa að hanga mikið á bóka- og skjalasöfnum, liggja yfir gömlum myndum og filmum og gúggla heil lifandis ósköp. Þetta er ekki beinlínis áhugavert myndefni en hér rétt sleppur þetta fyrir horn þar sem leit Mikaels að sannleikanum býður upp á alls kyns trix í myndrænni framsetningu. Þá er haug af mikilvægum upplýsingum miðlað til áhorfenda með samtölum persóna. Þessi frásagnarmáti er orðinn býsna gamall og þreyttur en hér sleppur þetta fyrir horn og maður sættir sig við að vera fóðraður með meðulum sem hafa verið í notkun frá tímum Aristótelesar.

Þétt hraðsuða á góðu hráefni
Samanburður á bók og mynd er hvimleið og tilgangslaus iðja en í þessu tilfelli einhvern veginn óhjákvæmilegur og í sem stystu máli má segja að hér sé á ferðinni snaggaraleg hraðsuða á sögu Larssons. Atburðarásin í bókinni er stundum með mestu ólíkindum og í raun er galið hversu vel allt gengur upp í lokin. Maður pælir hins vegar ekkert í þessu við lestur bókarinnar þar sem Larsson undirbyggir alla vitleysuna svo andskoti vel og spinnur vef sinn svo meistaralega að lesandinn er tilbúinn til þess að kokgleypa nánast hvaða heilaspuna sem Larsson réttir honum af gómsætu gnægtaborði sínu.

Þetta stendur öllu tæpara í myndinni en þetta er samt svo skemmtilegt og persónurnar svo æðislegar að maður sér í gegnum fingur sér og lætur smá hnökra og ofboðslega hraðar hnýtingar á lausum endum í lokin ekki skyggja á ánægjuna. Þeir sem hafa lesið bókina munu án efa geta látið ýmislegt fara í taugarnar á sér og fá heilmörg tilefni til þess að grenja yfir því að hinu og þessu sé sleppt og annað ekki nógu vel gert. Við því er ekkert að gera en það sem mælir hins vegar ótvírætt með þessari aðlögun er að það er ekki nauðsynlegt að hafa lesið bókina. Þeir sem koma alveg ferskir á þessa mynd fá vel snyrta útgáfu af sögunni og fá jafnvel meira kikk út úr þessari áleitnu og ögrandi spennumynd.

Hin ómótstæðilega æðislega Salander
Þrátt fyrir alla spennuna og fjörið í bókum Larssons eru það fyrst og fremst aðalpersónurnar tvær, Mikael og Lisbeth, sem bera þríleikinn uppi. Og þá fyrst og fremst Lisbeth sem er sá tryllti prímusmótor sem keyrir atburðarásina áfram. Þetta blasir þó ekki við fyrr en í næstu bók og mynd en samt sem áður er Lisbeth hryggjarstykkið í Karlar sem hata konur. Fjörið dettur niður í bókinni þegar hún er fjarri og að sama skapi nær myndin ekki háflugi fyrr en leiðir Mikaels og Lisbethar liggja saman. En þá verður líka fjandinn laus og eftir það er varla dauðan punkt að finna.

Michael Nyqvist er stórgóður í hlutverki blaðamannsins og hins hjartahreina skáta Mikaels Blomkvist. Hann er mátulega töff, einhvers konar skandinavísk útgáfa af ungum Tom Berenger, en líka hæfilega glataður á köflum. Samleikur hans og Noomi Rapace í hlutverki Lisbethar er frábær og eins og sjúkt og samband þeirra er í raun og veru minnist maður þess ekki að hafa séð krúttlegra og skemmtilegra par í bíó lengi.

Að Nykvist alveg ólöstuðum er þetta samt myndin hennar Noomi enda væri þessi saga ekki svipur hjá sjón ef Lisbethar nyti ekki við. Salander er frábær persóna og stórkostlegur töffari sem Noomi Rapace gerir ógleymanleg skil. Salander er geggjuð og Rapace er sjúklega kúl þegar hún túlkar þessa brjálæðislega svölu píu sem hatar karla sem hata konur.

 

Stúlkan sem lék sér að eldinum 4 stjörnur

Trylltar vinsældir spennusagna Stiegs heitins Larsson um tölvuhakkarann Lisbeth Salander og blaðamanninn réttláta Mikael Blomkvist og kvikmynda sem á þeim byggja hafa hleypt óþarflega miklu lífi í innantómar og vita gagnslausar umræður og vangaveltur um hvort bækurnar séu betri en myndirnar og öfugt.

Þessi umræða er galin enda er bók eitt og bíómynd allt annað en þegar bæði njóta vinsælda eins og hér um ræðir fer þetta allt í einn graut í kollinum á fólki. Það er hægur vandi að gera góða bíómynd eftir vondri skáldsögu og jafnvel enn auðveldara að gera vonda bíómynd eftir góðri bók. Alfred Hitchcock gerði til dæmis eina sína bestu mynd og um leið eina bestu hryllingsmynd sögunnar eftir ömurlegri skáldsögu eftir Robert Bloch sem heitir Psycho. Þar er munurinn svo sláandi að það nennir varla nokkur maður að lesa bókina og leggjast í einhvern sérstakan samanburð á bók og mynd. The Godfather eftir Mario Puzo er heldur ekkert sérstaklega merkilegur skáldskapur en samnefnd bíómynd eftir Francis Coppola er meistaraverk.

Látum það samt eftir okkur í þessu tilfelli að leggjast í allsherjar samanburðarvísindi. Aðallega svo ég þurfi ekki að rekja söguþráð bíómyndarinnar Stúlkan sem lék sér að eldinum í smáatriðum til að fylla plássið. Bókin er þrælspennandi og skemmtileg og það er myndin líka þótt vitaskuld vanti ýmislegt í myndina sem er í bókinni.

Fyrsta bókin í Millenium-þríleik Larssons er alveg hreint frábær og samnefnd mynd gefur henni lítið eftir þótt víða sé skautað hratt yfir veigamikil atriði. Þótt næsta bók sé fín fyrir sinn hatt má verja það að Stúlkan sem lék sér að eldinum sé sísta bókin í þríleiknum og að þessu leyti fylgjast mynd og bók að þannig að bíómyndin um stúlkuna sem lék sér að eldinum gefur Körlum sem hata konur aðeins eftir.

Hér er þráðurinn tekinn upp tveimur árum eftir að Lisbeth Salander hvarf út í suðrænt sólarlag með ljósa hárkollu og margar milljónir sænskra króna á bankareikningnum. Hún snýr í upphafi myndar aftur til Svíþjóðar og er varla búin að koma sér fyrir í nýrri íbúð þegar hún er grunuð um að hafa framið þrjú morð. Hún fer því huldu höfði á meðan hún reynir að hafa uppi á hinum raunverulegu morðingjum sem hún á óuppgerðar sakir við.

Blaðamaðurinn Mikael Blomkvist, sem kynntist Lisbeth náið í fyrri myndinni, trúir auðvitað á sakleysi hennar og reynir sitt til þess að rétta henni hjálparhönd sem hún að vísu kærir sig ekkert um. Lisbeth Salander leysir nefnilega sín mál sjálf.

Stúlkan sem lék sér að eldinum er heljarinnar doðrantur upp á 600 síður þannig að það er óhjákvæmilegt að skera hana niður til þess að koma henni fyrir í bíómynd. Rétt eins og í Karlar sem hata konur er þetta gert með ágætum. Samt verður hellingur út undan og þeir sem vilja fara í harðan samanburð á bók og mynd geta látið ýmislegt fara í taugarnar á sér. Þá hafði Karlar sem hata konur það umfram þessa mynd að gamalt sakamálið sem Blomkvist glímdi við var sérlega heillandi og leit hans og Salander að sannleikanum var þrungin lúmskri spennu.

Stúlkan sem lék sér að eldinum er miklu dæmigerðari reyfari þar sem meiri áhersla er á hasar og læti. Segja má að bíómyndin sé nokkurs konar „Salanders Greatest Hits“ þar sem öllu því svalasta, magnaðasta og flottasta úr þykkri spennusögunni er þjappað saman í alveg hreint stórfína spennumynd. Hasarinn og töffaraskapurinn skyggja hins vegar nokkuð á mikilvæg brot úr æsku Lisbethar en manni segir svo hugur að þau mál verði gerð betur upp í lokakaflanum.

Annars er engin ástæða til að kvarta vegna þess að Noomi Rapace, sem var æðisleg í hlutverki Salander í fyrstu myndinni, toppar sjálfa sig gjörsamlega í þessari og ó boj, ó boj þegar stúlkan gefur allt í í lokin ætlar maður bókstaflega að kafna af hrifningu. Salander ber myndina uppi leikandi létt og Noomi er bara svo fáránlega flott, sæt, sjarmerandi, ógnvekjandi, köld, heit og grimm að mann skortir eignlega orð.

Öruggasta leiðin til þess að fá sem mest út úr þessu Millenium-dóti er svo auðvitað að sjá myndirnar og lesa bækurnar. Skiptir engu hvort maður les bækurnar fyrst eða öfugt. Þetta styður hvort annað með stæl þótt auðvitað sé um ólík fyrirbæri að ræða.
 

Loftkastalinn sem hrundi 3 stjörnur

Með Loftkastalanum sem hrundi lýkur vel heppnaðri bíómyndaþrennu sem gerð er eftir hinum bráðskemmtilegu og spennuþrungnu glæpasögum Stiegs heitins Larssons um pönkaða tölvuhakkarann Lisbeth Salander og blaðamanninn hugprúða Mikael Blomkvist.

Áhorfendur skildu við Lisbeth í vondum málum í lok Stúlkunnar sem lék sér að eldinum en þá fann Blomkvist hana nær dauða en lífi eftir að hún hafði verið skotin í hausinn og grafin lifandi.
Lisbeth er þó ekki fysjað saman, eins og allir vita sem hafa lesið bækur Larssons og séð fyrri myndirnar tvær, og hún er furðu fljót að ná sér eftir að læknum tekst að draga byssukúluna úr heila hennar. Illu heilli hefur hún verið ákærð fyrir alls kyns voðaverk, þar á meðan tilraun til þess að drepa hinn ófétislega Zalachenko sem er ekki aðeins illmenni af verstu sort heldur faðir Lisbetar í ofanálag. Hennar bíða því fangelsisdvöl og réttarhöld um leið og hún verður rólfær. Og til þess að gera stöðu hennar enn verri er lítil, ljót leyniklíka kerfiskarla innan leyniþjónustunnar að spinna samsærisvef í kringum hana með það fyrir augum að koma henni á geðveikrahæli þannig að hræðileg ævisaga hennar valdi þeim ekki óþægindum.

Í aðstæðum sem þessum er gott að eiga góða að og þrátt fyrir fötlun í mannlegum samskiptum á Lisbeth nokkra vini, með Blomkvist fremstan í flokki, sem róa öllum árum að því að sanna sakleysi hennar og hreinsa mannorð hennar.

Blomkvist veit að meðferðin á Lisbeth í æsku er meiriháttar skandall og ljótur blettur á glansmynd hins margrómaða sænska velferðarkerfis þar sem tilfinningasnauðir kerfiskarlarnir sáu sér hag í að halda verndarhendi yfir Zalachenko án þess að láta sig í nokkru varða um framtíð og lífshamingju ungrar stúlku. Þess vegna varð Lisbeth eins og hún er og nú er kominn tími til þess að þeir sem brutu á henni fái að súpa seyðið af illvirkjum sínum.

Skáldsagan Loftkastalinn sem hrundi er býsna flókin og án efa sú bók Larssons sem er síst til þess fallin að laga að kvikmyndaforminu. Samsærið gegn Lisbeth er marlaga og snúið og til leiks mætir fjöldinn allur af persónum og leikendum. Þá kryddaði Larsson meginsöguna með spennandi hliðarsögum þannig að á pappír varð þetta allt bráðskemmtilegt og spennandi. Þegar ósköpin eru flutt yfir á filmu vandast hins vegar málið.

Eðlilega hafa handritshöfundarnir þurft að flysja bókina hressilega og hver og einn verður að gera upp við sig hvort hann er sáttur við hverju er haldið og hverju sleppt. Augljós galli er aftur á móti að hér er farið svo hratt yfir sögu að stundum finnst manni eins og maður sé að hraðfletta í gegnum bókina eða að myndin sé á “fast forward”. Þetta getur gert áhorfendur dálítið ruglaða í ríminu auk þess sem spennan ristir ekki jafn djúpt og áður og persónurnar verða fjarlægari. Þá er það vissulega ákveðinn ókostur að Lisbeth, spellfjörugt hreyfiafl hinna myndanna, liggur á spítala framan af og hefur ekki mörg tækifæri til að láta ljós sitt skína.

Lokakaflinn er því veikasti bletturinn á þríleiknum en þrátt fyrir gallana er myndin góð tilraun til að koma heilmiklum flækjum til skila. Hún nær upp fínni spennu og inn á milli eru dásamleg atriði sem hverfa seint úr minni.
Noomi Rapace er sem fyrr æðisleg í hlutverki Lisbeth Salander. Stund hefndarinnar er runnin upp hjá henni og þegar hún kemst loks í svarta leðurjakann klárar hún þennan magnaða þríleik með stæl. 

Leikstjóri: Niels Arden Oplev o.fl.
Handrit: Nikolaj Arcel o.fl.
Leikarar: Michael Nyqvist, Noomi RapaceSvarthöfði 2011-2013 - Allur réttur áskilinn | svarthofdi (hjá) svarthofdi.is | Um Svarthöfða